29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

23. mál, einnota umbúðir

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hvert það mál sem borið er fram á Alþingi og hefur það að tilgangi að stuðla að betri umgengni um landið okkar er Alþingi til góðs og Íslendingum til góðs. Með því er ekki sagt að besta leiðin sé nákvæmlega sú sem hverju sinni er bent á í viðkomandi þingskjali. Það er e.t.v. allra mikilvægast í þessum málum að vekja almenning og ekki síst hina yngstu til vitundar og skilnings sem verður til þess að umgengni um landið verður betri heldur en víða má sjá nú. Þess vegna er aðalatriðið að mínu viti ekki breytt skipan stjórnsýslu eða fyrirkomulag stjórnar á þessum málum heldur fjármunir sem ætlaðir eru til fræðslu um þær reglur sem nú gilda og framkvæmdar á þeim, fræðslu sem verður til þess m.a. að hinu unga fólki sem er í skólum landsins verði það ljóst hvers virði það er að ganga vel um landið sitt. Hér er einfaldlega um það að ræða að annast vel og hlúa að því sem okkur er annt um og þá þess heldur að landið sem við byggjum er í senn fóstra okkar og auðlind. Það er því siðferðislega rétt að sýna því umhyggju og það skiptir líka máli vegna þeirrar auðlindar sem felst í ómenguðu umhverfi á landi okkar.

Þetta eru aðeins tvær hliðar þessa máls. Hér á þskj. 23 er fjallað um enn eina hlið, þ.e. efnahagshliðina, þar er vikið í grg. að hugmyndinni um skilagjald og löggjöf sem flutningsmenn telja e.t.v. þurfa til að koma því á. Nú má út af fyrir sig velta því fyrir sér hvort slíku sé ekki hægt að koma á án allrar löggjafar. Ég get ekki séð hvað er á móti því að tekinn verði upp sá háttur að greiða fyrir skil bæði einnota umbúða og annarra umbúða sem menga umhverfið og þá þess heldur þegar um er að ræða umbúðir sem hægt er að endurnýta. Þetta gera ýmsar þjóðir með góðum árangri og mér er kunnugt um að t.d. hjá frændum okkar Svíum, sem eru afburða hreinlegir að þessu leyti að því er sagt er hafði skilagjald fyrir gosdrykkjadósir og slíkt verið 2 sænskar kr. þar til nú í sumar er það var hækkað upp í 3 sænskar kr. og mér var tjáð að skilin á umbúðunum hefðu allt í einu þotið upp í 80–90%. Vitaskuld stendur oft svo á að ekki er unnt að endurnýta umbúðirnar. Tel ég að gera þurfi náttúruverndaryfirvöldum kleift að framfylgja þeirri lagaskyldu sem felst í 13., 14. og 15. gr. náttúruverndarlaganna þar sem segir ótvírætt að bannað sé að skilja eftir á víðavangi rusl og annað, umbúðir og slíkt, sem valdið geti óprýði í umhverfinu og slysahættu.

Ég er þeirrar skoðunar og styrktist í þeirri skoðun þegar ég gegndi embætti ráðherra náttúruverndarmála í menntmrn. að Náttúruverndarráð hefði ekki nægilegt fé til umráða til þess að sinna útbreiðslustarfsemi sem orðið gæti til þess að stuðla að betri umgengni um landið. Þess vegna er mjög þakkarvert það mikla og gagnlega framtak sem ýmis félagasamtök hafa sýnt og haft mikil áhrif f þá átt að fólk gangi betur um landið. Ég geri ráð fyrir að flestir bílstjórar muni eftir því að fyrir nokkrum árum stóð Lions-klúbbur fyrir því að afhentir voru ruslapokar í bíla á bensínstöðvum. Þetta var eitt dæmi og sitthvað fleira má til taka, bæði verk slíkra klúbba, skátafélaga, hverfafélaga í bæjum og kvenfélaga úti um byggðir landsins, svo nefnt sé nokkuð af slíkum hópum sem hafa lagt á sig mikið erfiði og haft mikil áhrif til þess að bæta umgengni um landið.

Menn kunna að segja: Hví er verið að tala um að meira fjármagn til Náttúruverndarráðs gæti skilað verulegum árangri í þessu? Það er sannarlega ekki að ófyrirsynju. Bæði ég og aðrir þeir sem eru komnir á minn aldur og jafnvel töluvert yngri muna eftir því hvernig skírskotað var til ábyrgðar okkar allra á þessu sjálfstæða landi og um leið hvatt til þess að fara vel með það, óprýða það ekki með rusli og valda ekki samborgurum sínum angri eða hættu með því að henda rusli á víðavangi. Þessi herferð held ég að hafi aldrei verið áhrifameiri en skömmu eftir lýðveldisstofnunina. En svo var um lýðveldiskynslóðina að við litum á þetta sem helga skyldu okkar. Ég vona að það hafi ekki elst af okkur og að það megi fylgja sem allra flestum kynslóðum þessa lands, þeim sem eftir eiga að koma, hvaða þýðingu það hefur fyrir alla mannvist í landinu og þær gersemar sem við sjáum víða í náttúru þess að því sé sýnd tilhlýðileg virðing og fólk leggi á sig það lítilræði að taka sjálft með sér á ferðalögum og koma fyrir á réttum stöðum þeim úrgangi sem til fellur og sjálfsagt er að menn leggi til hliðar þar sem sveitarfélögin ætlast til.

Meginmálið er að mínu viti þetta: Mikið og áhrifaríkt átak þarf til þess að fá alla landsmenn og ekki síst hina yngstu til að hafa það hugfast að við aukum fegurð og auð þessa lands með því að ganga hreinlega um það og skilja ekki eftir umbúðir eða annan úrgang á víðavangi.