02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5283 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft að verða við ósk hv. 7. þm. Reykv. og svara þeim fsp. sem hann hefur til mín beint.

Svör við þeim fsp. liggja reyndar fyrir. Það hefur komið fram að í ríkisstjórn bókaði ég andstöðu við þrjú atriði í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi skerðingu á framlagi í byggingarsjóðina. Þar taldi ég of langt gengið að skerða framlög í byggingarsjóði ríkisins með þessum hætti. Það er auðvitað öllum ljóst að vandinn í húsnæðismálum er gífurlegur. Kannski kemst ég í mikla nálægð við þann vanda vegna þess að þeir sem koma í viðtöl til félmrh. eru að stærstum hluta til fólk sem býr við mikla neyð í húsnæðismálum. Þess vegna er það auðvitað að mínu viti sem ráðherra húsnæðismála allt of langt gengið að skerða framlög til húsnæðismála sem hér er gert. Reyndar óska ég þess oft að stjórnvöld og þeir sem taka ákvarðanir í þessu efni hefðu betri innsýn í þann gífurlega vanda sem er hjá mörgum heimilum í landinu í húsnæðismálum. Því þó að miklir peningar séu settir í húsnæðislánakerfið þá tel ég að það megi og eigi að móta miklu markvissari stefnu en þar er gert til að fjármagnið nýtist þeim sem á þurfa að halda í húsnæðismálum.

Í annan stað bókaði ég í ríkisstjórn andstöðu við áform um að hætta við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Einnig bókaði ég andstöðu við þá ákvörðun að taka aftur í ríkissjóð 260 millj. af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég tel að það sé óskynsamlegt að taka aftur í ríkissjóð þetta fjármagn og að hætta við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að þetta geti bitnað mjög á mörgum sveitarfélögum í landinu.

Það eru ástæður fyrir því að ég bókaði andstöðu mína við þessi atriði í ríkisstjórninni.

Hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði í að hæstv. fjmrh. hefði upplýst að það ætti að taka húsnæðismálin í sérstaka nefnd eins og hann orðaði það. Ég hef auðvitað ekkert við það að athuga að fjmrh. upplýsi slíkt á Alþingi. Það var fyrir nokkru síðan að ég skipaði slíka nefnd sem á að gera tillögur til mín um endurskipulagningu á húsnæðislánakerfinu. Þessi nefnd mun fljótlega skila til mín niðurstöðu sinni um þá valkosti sem hún telur að séu fyrir hendi til að endurskipuleggja húsnæðislánakerfið. Það ber auðvitað að harma að það verk hafi ekki farið fyrr af stað en til þess liggja gildar ástæður vegna þess að það frv., sem lagt var hér fram á haustþingi um breytingar á húsnæðislöggjöfinni, sem átti að skapa svigrúm til að fara yfir í nýtt húsnæðislánakerfi, tók lengri tíma í meðförum þingsins en ég hafði ætlað. En ég tek auðvitað ekki undir það eins og mér fannst liggja í orðum hv. þm. að verið væri á einn eða annan hátt að taka húsnæðismálin úr höndum húsnæðismálaráðherra með þessu móti. Þetta er nefnd sem ég skipaði og þar hafði fjmrh. eða aðrir ráðherrar eða ríkisstjórn engin afskipti af.

Ég tel mig hafa svarað þeim fsp. sem hv. þm. beindi til mín. Ég get þó ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni á þeirri framsetningu sem fram kemur í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. þar sem fjallað er um húsnæðismálin. Þar er vitnað til þess orðrétt, með leyfi virðulegs forseta, að fulltrúar Húsnæðisstofnunar ríkisins sem komu á fund nefndarinnar hafi eins og segir hér í kafla undir yfirskriftinni Óafgreiddar umsóknir 12 000 um næstu áramót - sagt að frv. félmrh. sem samþykkt var fyrir jólin hafi aukið eftirspurn eftir húsnæðislánum þar sem forgangshópurinn var stækkaður frá því sem áður var en fækkun umsókna vegna skerðingarákvæða óveruleg.

Þegar ég sá þetta hér áðan þá hafði ég samband við þann fulltrúa sem á fund nefndarinnar mætti frá Húsnæðisstofnun. Ég hafði samband við annan þeirra og hann sagði að hér væri ekki rétt eftir haft að frv. félmrh. hefði aukið eftirspurn eftir húsnæðislánum. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að samkvæmt ákvæðum frv. verða fleiri í forgangshóp. Hér er því einungis um það að ræða að það er verið að færa á milli hópa. Ég leitaði mér auðvitað upplýsinga um það sem af áliti þm. mátti ráða að fyrir lægju einhverjar upplýsingar um hvaða áhrif frv. hefði nákvæmlega á fækkun umsókna vegna skerðingarákvæða og ég fékk þær upplýsingar að þetta væri í vinnslu núna hjá Húsnæðisstofnun og upplýsingar um það hve margir fari úr víkjandi hóp í forgangshóp vegna ákvæða laganna lægju ekki fyrir, það væri í vinnslu og mundi væntanlega liggja fyrir í næstu viku. Með sama hætti var ég upplýst um það af þessum starfsmanni Húsnæðisstofnunar að enn þá lægi heldur ekki fyrir hvað ákvæði frv. að því er varðar skerðingarákvæðin hefðu áhrif á margar umsóknir til fækkunar. Það mundi einnig liggja fyrir í næstu viku.

Ég taldi nauðsynlegt að draga þetta fram hér vegna þess að ég tel að að því er þetta varðar í áliti minni hl. þá sé þetta villandi fram sett. - [Fundarhlé.]