02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5304 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umræðum sem hafa átt sér stað hérna um ráðstafanir í ríkisfjármálum er nauðsynlegt að kanna það sérstaklega hvernig ríkisstjórnin hyggst fara með hækkun elli- og örorkulífeyris í framhaldi af þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið. Skv. kjarasamningunum er það þannig að allra lægstu laun eiga að hækka um tiltekna upphæð og þegar launahækkun lægstu launa í desember 1986 átti sér stað var gert ráð fyrir því með reglugerð að elli- og örorkulífeyrir og tekjutrygging hækkuðu um leið eins og lágmarkslaunin hækkuðu, þ.e. um sömu krónutölu. Ég inni hæstv. heilbr.- og trmrh. eftir því hvort ríkisstjórnin muni ekki í framhaldi af þessum samningum gera ráðstafanir til þess að elli- og örorkulífeyrir, lágmarkslaun þeirra sem ekkert hafa annað fyrir sig að leggja, hækki ekki örugglega í samræmi við þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið, þ.e. þá krónutölu sem kveðið er á um í samningunum og ég man ekki alveg í svipinn hver er en mig minnir að það séu liðlega 1525 kr. Þessa fsp. vildi ég leggja fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. og hann hefur verið svo vinsamlegur að koma hér í deildina til að svara því.

Ég vil einnig skýra frá því að á fund nefndarinnar í morgun kom Eggert G. Þorsteinsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og þar spurði ég hann að því hvernig væri hægt að ná þessum 30 millj. kr. sem ætlunin er að spara á sérfræðikostnaði og lyfjum. Hann sagði að það hefði verið rætt um að breyta greiðslum þeirra sjúklinga sem fara beint til sérfræðinga án milligöngu heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Ég sagði honum á fundinum að það væri örugglega miklu virkari leið að hækka ekki þetta heldur lækka þá greiðslu sem læknar fá ef sjúklingar koma til þeirra án milligöngu heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Það þýðir að áhugi sérfræðinganna á að taka við slíku verður minni en hann er núna, en jafnvel þó hin leiðin væri farin mundi í rauninni mjög lítið breytast fyrir utan hvað hún er óheppileg að því leytinu til að það mundi hækka útgjöld sjúklinganna.

Ég vil síðan víkja að þeim umræðum sem hér fóru fram um stöðu hæstv. félmrh. í ríkisstjórninni. Ég þakka henni fyrir þau svör sem hún gaf við spurningum mínum þar sem hún skýrði frá því að hún hefði látið bóka í ríkisstjórninni mótmæli við skerðingu á Byggingarsjóði ríkisins, þar væri of langt gengið. Hún minnti á að hún væri í mikilli nálægð við vanda húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda því meiri hluti þess fólks sem vitjar félmrh. er fólk sem á við erfiðleika að stríða vegna húsnæðiskostnaðar.

Hæstv. félmrh. mótmælti því einnig í bókun sinni að það er hætt við áform um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ekki get ég sagt fyrir mitt leyti að ég harmi þá niðurstöðu út af fyrir sig.

En í þriðja lagi sagðist hæstv. félmrh. hafa látið bóka að hún væri á móti þeim áformum að skattleggja sveitarfélögin í ríkissjóð eins og gert er í tillögu ríkisstjórnarinnar sem hér liggur fyrir. Hæstv. félmrh. kallaði þetta óskynsamlega aðgerð og sagði að hún mundi bitna á mörgum sveitarfélögum illa. Ég er sammála hæstv. félmrh. í þessum efnum.

Hæstv. ráðherra sagði að hún hefði ekkert við það að athuga þó fjmrh. tilkynnti fyrir hennar hönd hvað væri verið að gera í húsnæðismálum að því er varðar endurskoðun á þeim málaflokki og undirstrikaði að það væri á engan hátt verið að taka málið, þrátt fyrir þessa nefndarskipun, úr höndum ráðherrans.

Ég tel reyndar að með þeim ákvörðunum sem hæstv. fjmrh. hefur tekið sé hann í raun og veru búinn að taka um það ákvörðun að taka hluta af ákvörðunarvaldi félmrh. úr hennar höndum. Ég segi fyrir mig og vil láta það koma hér strax fram: Ég mun greiða aðkvæði gegn þeirri tillögu um vantraust á félmrh. sem fjmrh. flytur í 8. gr. þess frv. sem hér er á dagskrá. Ég mun greiða atkvæði gegn því. Þó ég sé almennt ekki hlynntur þessari ríkisstjórn né heldur hafi ég ævinlega verið og sé ævinlega ánægður með hæstv. félmrh. mun ég í þessu tilviki, þó óvenjulegt sé frá stjórnarandstæðingi, greiða atkvæði gegn þeirri vantrauststillögu sem formaður Alþfl. flytur á hana í þessari virðulegu deild. Auðvitað er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en vantrauststillögu þegar málaflokkurinn er tekinn úr höndum ráðherrans.

Ég tel enga ástæðu til að lengja umræður um þetta mál vegna þess að kjarni málsins er sá að hér er bersýnilega um að ræða mjög óvenjulega sambúðarerfiðleika innan ákveðins stjórnmálaflokks, innan stjórnarflokksins Alþfl. Í sjálfu sér er það ekki mitt hlutverk að fara með neinar söguskýringar í þeim efnum. En það er alveg ljóst að það er býsna sjaldgæft ef ekki alveg einstakt á síðustu árum, a.m.k. þeim árum sem ég þekki til í þinginu, að ráðherra fjármála taki málaflokk af fagráðherra í trássi við þann síðarnefnda. Ég man aldrei eftir því að slíkt hafi gerst. Auðvitað getur hæstv. félmrh., ef hún svo vill, sagt: Nei, þetta verður ekki gert. Ég á eftir að sjá að hæstv. fjmrh. og formaður Alþfl. fari þannig með varaformann sinn að ef hún beitti sér af fullri hörku þyrði hann að beita því valdi sem hann er hér að gera tillögur um.

Ég vil í framhaldi af þessu spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig lítur hann á málið? Lítur hann ekki þannig á málið að hann sé að taka hér fram fyrir hendurnar á hæstv. félmrh.? Ég held að það sé útilokað annað en að hafa þá skoðun og útilokað annað en hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þessu máli og afstöðu sinni í því.

Hæstv. félmrh. gerði athugasemdir við tvær, þrjár setningar sem fram koma í nál. minni hl. en ég taldi mig hafa tekið rétt eftir því sem embættismennirnir sögðu. Það sama á við um aðra fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem standa að þessu áliti minni hl. Það kemur mér gjörsamlega á óvart ef við öll þrjú, hvert í sínu lagi, höfum tekið vitlaust eftir í þessu efni. Ef svo er er ekkert annað en biðjast afsökunar á því. En ég hygg að embættismennirnir hafi hagað orðum sínum þannig að það hafi verið a.m.k. auðvelt að skilja þá með þeim hætti sem við gerum í nál. minni hl.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja aðeins að þeim almennu umræðum sem hér hafa farið fram um kjarasamninga og efnahagsmál. Ég tók eftir því að menn hafa tekið þannig til orða hér: Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því í áratugi að bæta kjör hinn lægst launuðu í landinu og það hefur litlu eða engu breytt. Þetta er mikill misskilningur. Staðreyndin er sú að þó að kaupmáttur lægstu launa sé enn þann dag í dag svívirðilega lágur er það engu að síður þannig að það er fleira kjör sem snýr að láglaunafólkinu en kauptaxtinn. Það er líka hið félagslega umhverfi. Í hinu félagslega umhverfi skipa ríkissjóður og sveitarfélögin stærstan þátt í þágu þessa fólks. Hvað eru almannatryggingarnar, hvað er heilbrigðisþjónustan, hvað er skólakerfið annað en kjör? Við skulum ekki gleyma því að það er margt fleira kjör í þessu landi en bara það kaup eða kauptaxtar sem menn hafa á hverjum tíma:

Ég vil segja í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt: Verkalýðshreyfingin gat ekki gert meira í þessum samningum núna. Þar hafa menn unnið af fyllstu heilindum. Ég dreg það ekkert í efa. Mér hefur aldrei dottið neitt annað í hug. En ég hef sagt: Verkalýðshreyfingin þyrfti að vera samstilltari til að ná meiri árangri. Hið félagslega viðhorf samstöðunnar, sem útilokar sérhyggjuna að svo miklu leyti sem það er unnt, þyrfti að vera ráðandi svo að segja í allri verkalýðshreyfingunni. Þetta er vandamál sem bersýnilega birtist ekki aðeins í verkalýðshreyfingunni heldur t.d. líka í samvinnuhreyfingunni og er ég þá ekki að tala um þau tíðindi sem þar hafa birst undanfarna daga sem ég tel nánast vera afbrigðileg sjúkdómseinkenni.

Ég held að það hefði verið fróðlegt ef tekist hefði eftir síðustu kosningar að mynda hér stjórn sem hefði tekið strax á öllum þeim vandamálum sem þá voru fyrirsjáanleg í stað þess að taka aðeins á hluta þessa vanda, örlitlum hluta. Ég tel að gallinn við ríkisstjórnina, fyrir utan það að hún gerir oft vitlausar ráðstafanir og sambúðin er eins og hún er, sé sá að það er eins og það sé engin heilstæð stefna. Það er eins og menn séu ekki að taka utan um hlutina í heild. Það er verið að pjakka í þessu í dag og hinu á morgun. Frá því að þessi stjórn tók við 8. júlí 1987 er hún fjórum sinnum búin að grípa til efnahagsráðstafana. Niðurstaðan í þessum efnum verður auðvitað nákvæmlega jafnósamstæð og stjórnarflokkarnir eru þar sem þetta minnir einna helst á að það séu þrjár ríkisstjórnir hér í landinu í þremur flokkum og jafnvel fleiri í sumum flokkunum. Nú eru að vísu báðir forsætisráðherrarnir fjarverandi á leiðtogafundi NATO, en einhverjir eru þó viðstaddir og ráðherrarnir hafa heiðrað okkur með nærveru sinni hver um annan þveran og er það ánægjulegt.

Hvað þurfti stjórn að gera sem tók við eftir síðustu kosningar? Hún þurfti að mínu mati að taka fyrir alla þessa þætti, verðlagsmálin, vaxtamálin, vanda útflutningsgreinanna og tekjuskiptinguna innan sjávarútvegsins. Hún þurfti að taka á vanda landsbyggðarinnar, m.a. lífskjörunum á landsbyggðinni og rekstrargrundvelli fyrirtækjanna. Hún þurfti auðvitað, eins og gert var, þó það hefði mátt fara öðruvísi í það, að taka á vanda ríkissjóðs og í tengslum við þetta allt síðast en ekki síst þurfti hún að horfa á kaupmátt launa og þróun kaupmáttarins fyrir árin 1987 og 1988. En staðreyndin var hins vegar sú að menn voru að kvotlast með þessa stjórnarmyndun fram eftir öllu sumri, klukkan gekk á menn. (Gripið fram í: Kvotlast?) Kvotlast, já. Og niðurstaðan verður sú að að sumu leyti eru menn að verða of seinir og eru eins og alltaf að missa af vagninum, hlaupa aldrei upp í vagninn á réttum stað heldur taka hann á vitlausum stað og lenda svo á vitlausum stað. Það er engu líkara en þeir ferðist með þessum hringferðarvögnum sem við höfum í Reykjavík.

Svo koma þessir miklu snillingar, sem eiga auðvitað að þekkja öll þau efnahagsvandamál sem ég hef hér verið að rekja, og ráðast að okkur alþýðubandalagsmönnum fyrir að við séum að verja útgerðarauðvaldið í landinu, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson rakti áðan. Ætli auðvaldið sé nefnilega ekki einhvers staðar annars staðar í þessu þjóðfélagi? Ætli það sé ekki til frekar einhvers staðar annars staðar? Það er kannski tímanna tákn að starfsmaður Verslunarráðs Íslands er allt í einu sestur inn á Alþingi á vegum Sjálfstfl. Það segir sína sögu hverjir það eru sem þar eru drifkrafturinn, mótorinn og aflið í dag. Það eru ekki þeir sem eru að tala fyrir þessa gömlu og hallærislegu útflutningsvegi eða landsbyggðina. Það eru aðrir.

Hv. þm. Skúli Alexandersson sagði að þessi sjónarmið markaðshyggjunnar og frjálshyggjunnar hefðu aðallega búið um sig í Sjálfstfl. og það er mikið til í því. En núna stöndum við hins vegar frammi fyrir þeim nýja veruleika að við höfum á stóli viðskrh. mann sem svo að segja 100% gengur við hliðina á þessu liði vegna þess að hann hefur þessa skoðun og það er hans mál og sitthvað dapurlegt við það. Þegar reglustikusjónarmiðin og frjálshyggjan læsa höndum saman er útkoman rosaleg. Það er það sem við erum að sjá þessa dagana, annars vegar þessi kalda reglustikupólitík þar sem menn halda að þeir geti breytt öllum fjárhag sveitarfélaganna frá einu skrifborði í Reykjavík, einn, tveir, þrír, og svo hins vegar frelsi, frelsi, frelsi, aðallega þó fyrir vextina og verðlagið og það sem í rauninni þrengir að launafólkinu og útflutningsatvinnuvegunum sem eru hengdir á fastan gengissnaga.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði að það væri alveg rangt hjá mér að gengisstefna og festa ríkisstjórnarinnar væri hrunin, algjör vitleysa. Ég verð að hryggja hv. þm. Halldór Blöndal með því að ég satt að segja skil ekki alveg hvernig hann fær þetta út nema hann vilji kalla þetta, sem ríkisstjórnin er að framkvæma núna, gengishrun í áföngum.

Hv. þm. vitnaði til þess að ég hefði á minni tíð sem viðskrh. fellt gengi og það er rétt. Þá voru ástæður hins vegar þær að olíuverð hækkaði á 13 mánuðum um 200% og auðvitað var gengið fellt og auðvitað hlaust af því verðbólga. Og af hverju felldu menn gengið? Til þess m.a. að tryggja stöðu útflutningsatvinnuveganna þannig að það væri hægt að halda áfram að skapa verðmæti í þessu landi. En þá var nú ekki hljóðið það í hv. þm. Halldóri Blöndal og hv. formanni Sjálfstfl. þá, Geir Hallgrímssyni, að þetta væri einhver vandi. Þó að olíuverðið hækkaði um 200% voru það fullkomnir smámunir og sýndi bara aumingjadóm kommúnista og vonsku Rússa að svona skyldi vera komið. Að þessir menn vildu þá í stjórnarandstöðu horfast í augu við veruleikann, sýna sanngirni og tillit var ekki til, enda hef ég lengi haldið því fram að ábyrgðarlausasti flokkur í stjórnarandstöðu fyrr og síðar hér hafi verið, sé og verði Sjálfstfl.

Hv. þm. Halldór Blöndal ræddi það síðan að í rauninni hefði verið svo mikil verðbólga hér frá 1971 að það væri svo að segja allt ónýtt frá þessum tíma. Það hefði ekki orðið sú verðmætasköpun sem hefði getað orðið. Út af fyrir sig er margt til í því. En ég bið menn aðeins að hugsa um það augnablik hvílík verðmætasköpun hefur orðið á Íslandi frá 1971 eftir útfærslu landhelginnar, bæði í eignum einstaklinga, eignum sveitarfélaga, eignum ríkisins og eignum atvinnufyrirtækja. Ég hygg að ef maður lítur yfir næsta tíma þarna á undan, fyrir 1971, sé sú eignamyndun sem þarna á sér stað og þar með styrking á innviðum þjóðfélagsins, m.a. til að framleiða verðmæti, allt önnur og meiri á þessum síðari tíma. Hitt er hins vegar alveg ljóst, og það skulu verða mín lokaorð í bili, virðulegi forseti, að auðvitað er það grundvallaratriði um leið og við segjum: Við verðum að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, að halda þannig á efnahagsmálum að okkar meginefnahagsstærðir að því er varðar viðskiptajöfnuð, ríkisfjármál, gengi og verðbólgu sé í lagi. Það er ekki horfandi upp á það fyrir nokkurn stjórnmálamann sem vill láta taka sig alvarlega, sem við viljum örugglega öll, að verðbólga fari úr öllum böndum. Ég þekki af eigin raun hvað það er að reyna að stjórna landinu við þær aðstæður að verðbólga er gersamlega hömlulaus. Það er útilokað. Það er útilokað að ná því. Þess vegna taldi ég að eftir kosningarnar í fyrra hefðu átt að vera möguleikar til að ná tiltölulega mjög víðri, þjóðfélagslegri samstöðu um efnahagsstefnu og atvinnumálastefnu þar sem tekið var á öllum þáttum sem ég nefndi áðan á þeim grundvelli að verðlag væri stöðugt.

Hvað á svo að gera núna? Hv. þm. Karvel Pálmason fór yfir það og sömuleiðis hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Það sem þyrfti að gerast núna væri að það skapaðist mjög víðtæk þjóðfélagsleg samstaða um að vinna þjóðina út úr þeim vanda sem nú er við að glíma. Svo skulum við rífast um það einhvern tíma seinna og aftur og aftur af hverju það er. Það tókst tiltölulega víðtæk þjóðfélagsleg samstaða um að skipta árangri góðærisins í janúar 1986. Það var skynsamleg niðurstaða miðað við allar aðstæður. Nú þyrfti hins vegar að halda þannig á spilum að þegar þjóðin stendur frammi fyrir miklum efnahagslegum og pólitískum vanda væri hægt að ná þessari samstöðu. Til hvers? Til þess að verja þá sem helst þurfa á vörn að halda fyrir áföllum sem leiða af samdrætti í þjóðfélaginu, sérstaklega í markaðsþjóðfélagi.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason og hv. þm. Karvel Pálmason lögðu á það áherslu: Kauphækkunin núna má ekki fara upp eftir öllu. Það þarf að tryggja að þessi hækkun sé á sínum stað. Gott og vel. Þá spyr ég þessa ágætu þm.: Hvernig ætla þeir að tryggja það? Hæstv. fjmrh. getur út af fyrir sig sagt nei og aftur nei við opinbera starfsmenn. Vinnuveitendasambandið getur sagt við aðra sem eru að semja við Vinnuveitendasambandið: Við semjum ekki um neitt umfram það sem skrifað er niður í samningum VMSÍ. En við skulum muna að verulegur hluti af launamarkaðnum í landinu er það sem kallað er frjáls. Og þær atvinnugreinar, þ.e. verslunin, sem mest hafa, stoppar enginn í þessum efnum. Þess vegna held ég að það sé ekki hægt að heimta það á sama tíma að það sé haldið stöðugleika að því er varðar lægsta kaupið og um leið að játa því í verki að vaxtafrelsið og verslunarfrelsið fái að njóta sín. Mikill gróði stórfyrirtækjanna, mikill gróði verslunarinnar brýtur niður alla launastefnu sem hefur jöfnuð sem grundvallaratriði. Þess vegna er mitt svar það við því sem þeir flokksbræður nefndu: Það verður aldrei tekið á þessum málum öðruvísi en þeir hafi kjark til að sækja peninga til þeirra sem hafa vaðið hér í peningum á undanförnum árum. Til þess þarf örugglega aðra stjórn en þá sem nú situr.