29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

23. mál, einnota umbúðir

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sérstaklega út af því sem kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. um það að hjá mér hefði gætt einhverra sárinda eða óánægju yfir því að drög að reglugerð skyldu vera komin inn í umræðurnar hér. Það var kannski fyrst og fremst það sem ég vildi lýsa, og hélt ég hefði gert, að ég var svolítið hissa á því að í umfjöllun væri plagg sem er enn þá innanhússplagg og hefur ekki fengið endanlega umfjöllun hjá stjórn stofnunarinnar og enn þá alls ekki verið kynnt hjá ráðuneytinu. Ég var svolítið undrandi á því. Ég er hins vegar mjög ánægður með að þessi mál skuli vera tekin til umfjöllunar. Ég tel að það sé eðlilegt og hef ekkert nema gott um það að segja og á hvaða tíma sem það er, eins og þessi hv. þm. benti á, að það væri gott að fá málið hér til umræðu einmitt á meðan það væri til umfjöllunar í ráðuneyti og stofnunum þess. Það er ekkert um það að segja nema gott, og ég tek undir það.

Ég vil líka þakka honum fyrir hvatningarorð til mín um það að standa á verði í sambandi við þessi umhverfismál sem við erum öll sammála um að eru afar mikilvæg og við megum síst af öllu missa úr böndunum hér í okkar fagra landi þar sem svo miklu máli skiptir að varðveita umhverfi, hreint land og loft.

Út af því sem einnig kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að hjá mér hefði ekki komið fram eindregin skoðun á því hvernig standa ætti að þessum málum, þá er það rétt að ég er þeirrar skoðunar að fela eigi þessi umhverfismál einu ráðuneyti, hugsanlega eigi að fela þau einni deild til umsjónar. Það sem ég er hins vegar ekki með fullmótaða skoðun á er hvar eigi að finna því stað. Það gæti verið í heilbrrn., það gæti sjálfsagt einnig verið í félmrn. eða jafnvel einhverju enn öðru ráðuneyti. Ég er ekki tilbúinn til þess að kveða upp úr með það, en ég tel að þetta sé nauðsynlegt að gera. Það er alveg ljóst. Og eins tók ég sérstaklega fram að af hálfu ríkisstjórnarinnar er verið að vinna að málinu. Það er í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans og nefnd, sem hefur fengið það verkefni, á að skila áliti helst nú fyrir áramót. Ég nefndi aðeins að mér fyndist eðlilegt að þetta mál, sem hér er til umfjöllunar, félli inn í það nefndarstarf, að sú nefnd tæki þetta mál einnig til athugunar — og ég þykist nánast viss um að hún geri það - og þó einkum ákvæði sem gætu opnað lagaheimildir til að standa þannig að málum eins og rætt hefur verið hér, þ.e. að leggja skilagjald eða framleiðslugjald á þessar einnota umbúðir.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, biðjast afsökunar á því að ég nefndi það að efni úr þessum drögum að reglugerð væri jafnvel að finna í grg. með þáltill., en svo er ekki. Það var aðeins í umræðunum. Ég finn það ekki í grg. þegar ég les hana aftur.