02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5323 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson (frh.):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að færa forseta þakkir fyrir að taka þetta mál fyrir og láta ekki liða óþarflega langan tíma á milli þess sem menn flytja fyrri part af sinni ræðu og þar til þeir geta lokið henni.

Nú er það svo að ég var rétt að byrja í minni ræðu á þeim kafla sem fjallaði um það hversu mannvænleg sú æska væri sem við eigum í þessu landi. Ég fullyrti að sú æska væri mannvænlegri en nokkur önnur sem hér hefði verið. Og ég held að við getum verið stoltir af því, Íslendingar, að fylgjast með þeim afrekum sem hún hefur unnið á hinum ýmsu sviðum. Auðvitað skiptir það öllu máli að sú æska, sem er að vaxa upp og tekur við landinu, muni bera gæfu til að stjórna málefnum þess vel.

Ég hygg að það sé rétt að horfa örlítið á það hvaða hættur það eru sem líklegastar eru til að rústa þessa æsku. Það verður ekki skortur á mat eða klæðnaði eða á möguleikum í menntun. Það eina sem getur rústað íslenska æsku er það sama og getur rústað æsku annarra vestrænna þjóða og það er aðgangurinn að eiturlyfjum. Aðgangurinn að eiturefnum hefur þegar höggvið stór skörð í æsku margra annarra þjóða og því miður blasir það við sem staðreynd í dag að áfengisneysla er undanfari þess að menn hefji neyslu eiturlyfja.

Ég ætla ekki að tala hér langt mál. Ég get ekki stillt mig um að drepa á þann kafla í ræðu Vilmundar Jónssonar, fyrrv. landlæknis, kaflann sem ég held að hafi ráðið úrslitum um það að bjórinn var stöðvaður þegar hann flutti þá ræðu. Sá kafli fjallar um drykkjuskap barna. Með leyfi forseta vil ég lesa hér stuttan kafla úr ræðu Vilmundar og að þessu sinni gríp ég til að lesa það eins og Alþýðublaðið prentar hana 1. mars 1988:

„Samkvæmt skýrslum skólalæknanna í Berlín drekka 4/5 barnanna þar meira og minna. 39% af börnunum þar drekka einn bjór á viku og 11% einn snaps á viku. 33% af börnum drekka bjór daglega og 2–3% snaps á hverjum degi, enda segja skólalæknarnir að drykkjuskapur barna sé þjóðarsiður. Í Gera fór einnig fram rannsókn á skólabörnum, 515 drengjum og 554 stúlkum. Reyndist þar svo að aðeins 4 drengir og 8 stúlkur höfðu aldrei smakkað áfengi. 235 af þessum 515 neyttu víns og 109 bjórs daglega. Af stúlkunum neyttu 257 víns og 130 bjórs á degi hverjum. Í München fór rannsókn fram á 4562 skólabörnum. 13,1% voru í bindindi, 55,3% drukku að staðaldri, 6,4% voru snapsadrykkjumenn og 4,2% reglulegir ofdrykkjumenn. Í Nordhausen var rannsakaður drykkjuskapur barna í fyrsta og fjórða bekk barnaskóla þar. Í 1. bekk skólans voru 49 sjö ára börn, 38 drukku vín, 40% þeirra snaps, og öll drukku þau bjór. Í 4. bekk skólans voru 28 stúlkur. 27 þeirra drukku vín, 24 snaps og allar bjór. Í Schönberg, sem er útborg við Berlín, fór fram rannsókn á drengjaskóla og stúlknaskóla þar. 56,2% af drengjunum drukku bjór að staðaldri og 30% önnur vínföng. Og af stúlkunum drukku 48,7% bjór að staðaldri og 32% önnur vínföng. Rannsókn í menntaskólum í Þýskalandi leiddi það í ljós að meira en 50% af 11–12 ára börnum neyttu áfengis daglega.

Ég vona að þetta nægi til að sýna fram á að það er engin fjarstæða að minnast á drykkjuskap barna í þessu sambandi. Og ég geri ráð fyrir að bindindisþekking sé á svo háu stigi í þessu landi að hv. þingdeildarmönnum sé að minnsta kosti ljóst hvílíkan voða er hér um að ræða þar sem fjöldi kornungra barna neytir áfengis daglega að ekki sé minnst á þau ósköp þegar 4,5% þeirra eru beinir ofdrykkjumenn, eins og í dæminu frá Þýskalandi, og ég ræði því ekki þá hlið málsins frekar.“

Nú munu margir spyrja: Tilheyrir þetta ekki allt fortíðinni? Er þetta ekki allt löngu liðin tíð? Ætli það sé ekki rétt að taka hér fyrir nýjustu rannsóknir frá Stóra-Bretlandi á þessu sviði? Í desember 1986 birti breska ríkisstjórnin niðurstöðu rannsókna á drykkju unglinga í Stóra-Bretlandi. Heilbrigðisráðuneytið stóð að rannsókninni en hagstofa skipulagði hana. Könnun þessi fór fram 1983–1984. Niðurstöður hennar eru slíkar að við Íslendingar megum nokkra lærdóma af þeim draga. Hér eru nokkrar tölur: Af 13 ára drengjum höfðu 82% neytt áfengis og 77% stúlknanna á sama aldri. 24%, tæpur fjórðungur drengjanna, hafði drukkið fyrsta sopann yngri en 9 ára. Í þessum aldurshópi drukku 26% drengjanna og 17% stúlknanna fjórum sinnum í viku eða oftar. Og 34% 15 ára drengja og 25% stúlkna á þessum aldri drukku fjórum sinnum í viku eða oftar. Helmingur 15 ára drengja og þriðjungur 15 ára stúlkna drukku meira en 10 skammta áfengis í hverri viku. (Skammta, það samsvarar sjússum.) U.þ.b. 1 af hverjum 15 ára drengjum drakk meira en 25 áfengisskammta á viku. Þá sýnir þessi rannsókn svo og nýleg könnun meðal 18 000 skólabarna að algengt er að börn og unglingar drekki á krám þó að Bretar séu taldir manna löghlýðnastir. Tæpur helmingur þeirra 15 ára drengja sem áfengis neyttu drakk á almennum ölkrám.

Þá er rétt að víkja sér til Danmerkur og taka Politiken, nýjustu fréttir um stöðuna þar. Jú, þar kemur fram í rannsókn sem gerð var á 932 skólabörnum á aldrinum 13–18 ára að 146 nemendur af þessum hóp lýsa því yfir að á hverri helgi drekki þeir 10–47 bjórflöskur, 10–47 bjórflöskur. Ég hygg að það brosmilda lið sem stendur að flutningi þessa frv. og hefur talað hér fyrir þessu máli ætti örlítið að fara að athuga sinn gang.

E.t.v. er mér þetta alvörumál fyrst og fremst vegna þess að megninu af minni ævi hef ég varið til þess að kenna börnum í skólum þessa lands. Það fer ekkert á milli mála að hver einasti kennari kynnist alvöru þess sem er að gerast úti í þjóðfélaginu, á heimilunum og veit hvílík áhrif drykkjuskapur hefur á möguleika barna til að stunda sitt nám. Þar á ég við drykkjuskap foreldranna. En ef við teljum að við getum ekkert lært af öðrum þjóðum í þessu efni, við viljum ekkert gera til að varðveita það að þessi þjóð er með næsthæsta meðalaldur í heimi og betra heilbrigðiskerfi en nokkurs staðar er til á Norðurlöndunum, þá skulum við víkja að seinasta þætti minnar ræðu.

Hvað kostar það á dag að halda uppi einum sjúklingi á Vogi? Vitið þið það? Daggjöldin ein eru á milli 4000 og 5000 kr. - greidd af íslenska ríkinu. Þá er ekki tekið fram hvað læknarnir kosta. Hefur Danmörk efni á því að taka drykkjumenn og setja þá inn á hæli og borga daggjöld fyrir þá þar með sitt fullkomna sósíalkerfi? Það væri nú vel ef fulltrúar í Norðurlandaráði færu að kynna sér þetta þegar þeir fara út núna og fengju upp hvað Danir héldu að það mundi kosta þá ef þeir tækju upp á þessari kenningu. Þeir hafa ekki efni á því að eigin mati. Þeir treysta sér ekki til þess. Þeir taka þá köldu ákvörðun einfaldlega að þetta útigangslið, sem lendir í þeirri aðstöðu að ráða ekki við sín drykkjuvandamál, verði bara að sigla sinn sjó. Það verði bara að sigla sinn sjó. Og því varpa ég fram til flm.: Eru þeir að leggja til þá skattheimtu á íslenska þjóð sem þarf ef við hleypum bjórnum inn og aukningin sem verður leiðir til þess að mun fleiri munu þurfa að leita sér hælis? Eru þeir að leggja þá skattheimtu á íslenska þjóð? Eða á sú kenning sem kom hér fram í ræðu hjá einum flm. að vandamálið hér á landi væri það að við litum ekki niður á drykkjumenn? Að við litum ekki niður á drykkjumenn. Er það það sem á að leysa vandann að taka ákvörðun um það að líta bara niður á drykkjumenn? Ég er ekki trúaður á að það sé lausnin. Hvað eru menn að leggja til? Það er vitað að það hefur engri þjóð tekist að selja áfengi í sínu landi á því verði að það borgaði kostnaðinn af því að neyta þess. Það hefur engri þjóð tekist þetta. Og það er óframkvæmanlegt vegna þess að það mundi leiða til svo mikils smygls inn í landið. Bandaríkjamenn og Rússar telja að fyrir hverja eina krónu sem þeir hafa fyrir áfengi þurfi ríkið að kosta til fjórum eða fimm.

Í Morgunblaðinu 26. febr. sl. skrifar Ingimar Sigurðsson grein sem hann kallar: „Geðlæknir klórar í bakkann.“ Ég hef orðið var við það að það fer í taugarnar á mönnum að ég lesi upp úr Morgunblaðinu og ég ætla að lesa bara örlítið brot af því sem hann segir til þess að misbjóða ekki þeim sem hér eru inni, með leyfi forseta:

„Að halda því fram að það sé móðgun við heilbrigða skynsemi að leyfa ekki sölu á bjór á Íslandi er með meiri háttar öfugmælum. Samfélagið er nú einu sinni þannig byggt upp að það verður í ýmsum tilvikum að kveða á um boð eða bönn, t.d. um þætti er lúta að ýmiss konar hegðun sem maðurinn ætti þó að bera skynsemi til þess að sýna.“ Hvað gerir þessi Ingimar? Vonandi vita allir að hann starfar í heilbrrn. íslenska og hans starf felst í því að stuðla að því að þessi þjóð sé heilbrigð. Taka menn rökum í þessu máli eða taka menn ekki rökum? Eru menn fyrir fram búnir að festa sig á þann hátt að hér komist ekkert vitrænt að? Draumurinn um að hafa af því vinsældir að koma bjórnum í gegn hefur tekið yfir hjá sumum og þeir telja að það sé aðalatriðið.

Ég vil samt enn skora á hv. þm. að kynna sér þessi mál, kynna sér þau, kynna sér rit eins og t.d. það sem dr. Tómas Helgason hefur skrifað um þessi mál. Það gengur ekki upp að við forsmáum hér í þinginu þá menn sem gleggst vita um þessa hluti, tökum ekkert mark á því hvað þetta muni kosta íslenska þjóð bæði í böli og peningum, neitum að horfa á þá staðreynd að sá liður í fjárlögum Íslendinga, sem hefur hækkað ár eftir ár með ævintýralegum hraða, það er kostnaðurinn við heilbrigðismálin, en viljum endilega marka þau spor að brjóta niður þær varnir sem hér hafa verið í áfengismálum, hirðum ekkert um það þó við hrindum mörgum unglingi út á braut glötunar með tiltækinu. E.t.v. launa þeir vel sem eru búnir að fá umboðin fyrir bjórinn.