02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5331 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

293. mál, áfengislög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér liggur rétt einu sinni fyrir til umræðu hið fræga bjórmál sem margir hafa ótrúlega mikinn áhuga á að samþykkt verði og aðrir ekki minni áhuga á að fellt verði. Þetta mál hefur komið í staðinn fyrir ýmis önnur langvinn deilumál, en jafnan hefur það verið svo að á hverju þingi eru eitt eða tvö slík mál þar sem menn skiptast í afstöðu sinni þvert á flokkabönd og er mönnum mikið niðri fyrir.

Nú er það svo að afstaðan til þessa máls fer ekki eftir því hvort menn eru bindindismenn eða ekki. Hún fer ekki eftir því hvort mönnum þykir bjór góður að hafa á borðum sínum eða drekka hann sjálfir eða ekki. Hún fer öllu fremur eftir því hvort menn líta á þetta mál sem heilbrigðismál eða viðskiptamál.

Í mínum huga er þetta mál fyrst og fremst heilbrigðismál og m.a.s. mjög mikilvægt heilbrigðismál þar sem hér er verið að tala um breytingu á þeirri áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi. Þess vegna er það að ég tel það í hæsta máta óviðeigandi að ekki hafi komið fram í þessum ræðustól afstaða hæstv. heilbrmrh. Ég vil leyfa mér að óska eftir því við hæstv. forseta að hann biðji hæstv. heilbrmrh. að vera hér viðstaddan. Ég legg það ekki í vana minn að lýsa eftir ráðherrum við umræður í Alþingi, en ég held að um þetta mál (Forseti: Það skal kallað á heilbrmrh.) standi svo á að það sé nauðsynlegt. Ég mun þá gera hlé á ræðu minni þangað til hæstv. heilbrmrh. kemur. (Forseti: Það er verið að aðvara hæstv. heilbrmrh. og mun hann áreiðanlega koma eftir skamma stund.) Ég held að það sé rétt að aðvara hæstv. ráðherra vel um að það kunni að vera nauðsynlegt fyrir hann að skipta um skoðun ef hann hefur fylgt frv., en lýsa skoðun sinni gegn frv. ef hann vill það fellt.

Herra forseti. Ég þakka fyrir að gerðar voru ráðstafanir til að finna hæstv. heilbrmrh. því að ég tel að þau sjónarmið sem margir þm. hafa gagnvart þessu máli séu fyrst og fremst heilbrigðislegs eðlis.

Nú er það svo að bæði hæstv. heilbrmrh. og ég, sem var fyrirrennari hans, höfum beitt okkur fyrir því að kynna og afla fylgis við heilbrigðismarkmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þannig að þau séu færð að íslenskum aðstæðum og unnið sé að því að framkvæma þau á þeim tíma sem menn hafa sett sér til þessa verkefnis. Samkomulag hefur orðið meðal margra þjóða um það að vinna að því fyrir aldamótin næstu, sem eru nú skammt undan, að gera verulegar úrbætur til þess að koma í veg fyrir marga sjúkdóma og draga úr sjúkdómum þar sem ekki er unnt að koma í veg fyrir þá.

Ég veit að hæstv. heilbrmrh. hefur af því miklar áhyggjur ekki síður en margir aðrir þm. hve mikill kostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu er. Það er m.a. eitt af þeim atriðum sem ég veit að hæstv. ríkisstjórn knýr á hann núna um að draga úr. Ég þekki það og aðrir þeir sem setið hafa í ráðuneytum hve hart er sótt að fagráðuneytum um sparnað í þeim málaflokkum sem þeir stjórna.

Ég geri ráð fyrir því líka að hæstv. heilbrmrh. hafi sannfærst um það eins og margir aðrir heilbrigðismálaráðherrar og margir þm. að mesti sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu felst í því að draga úr sjúkdómum og slysum, ef við tökum aðeins það sjónarmið fyrst, því að mér er ljóst að fjárhagssjónarmið vegur þungt í flutningi þessa máls, m.a. það sjónarmið að bruggun og sala áfengs öls kunni að veita ríkissjóði auknar tekjur, eins og sagði í grg. frv. sem flutt var í haust og er í raun og veru grundvöllur þess frv. sem núna liggur fyrir til umræðu. Við teljum hins vegar mörg að þessi fjáröflun svari ekki kostnaði.

Stundum er það svo að það er talað um of mikinn fjármagnskostnað, um okur sem er þess eðlis að afraksturinn af peningum sem notaðir eru verður minni en kostnaðurinn við að afla þeirra. Ég held að þetta verði niðurstaðan með bruggun og sölu áfengs öls í landinu vegna þess hvernig jarðvegurinn er fyrir, hvernig aðstaðan er fyrir í áfengismálum. Ég held að þetta verði of dýr tilraun, að bæta við áfengisneysluna í landinu. Menn kunna að segja: Það liggur fyrir að ýmsar þjóðir, sem standa sig þokkalega á ýmsan veg, búa við meiri drykkju almennt en Íslendingar. Þar er meiri heildarneysla áfengis. Höfum við þá ekki ráð á því að bæta svolítið við? Og ég spyr hæstv. heilbrmrh.: Telur hann að við höfum ráð á því að bæta við fjölda slysa í umferðinni vegna ölvunaraksturs t.d., fjölda ýmiss konar annarra slysa sem verða í mikilli ölvímu, fjölda þeirra sem eru sjúkir á sál og líkama af völdum áfengisneyslu og auk þess það tjón sem verður af glötuðum vinnustundum og sorg, áhyggjum og ósamkomulagi í fjölskyldum? Ég held að í raun og veru kæri sig enginn um að bæta við þessar aðstæður. Og einkennilegt er það að við skulum hér í gær og í dag, þegar við erum að keppast við að vinna að því að allir keyri nú með ökuljósin kveikt og í bílbeltunum til að farða umferðarslysum, ræða um að samþykkja mál sem ég held að öllum sé ljóst að muni valda meiri ölvunarakstri hér á landi en aðstaðan er sú að umferðarslys eru hér á landi óeðlilega tíð nú þegar. Slysafjöldinn er allt of mikill og ekki aðeins í umferðinni heldur líka á fólki, sérstaklega ungu fólki. Hvað þykir mönnum um þá aðstöðu að vera einn daginn að samþykkja heilbrigðismarkmið eða vinna að því að fá þau samþykkt, sem m.a. fela í sér að þær þjóðir sem aðilar eru að þeim samþykktum dragi úr heildarneyslu áfengis um fjórðung fyrir næstu aldamót, og þá séum við að vinna að því að samþykkja lög sem ljóst er að auki heildarneyslu áfengis? Ef þetta er ekki það að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir veit ég ekki hvað má kalla þetta. Ég ætla ekki að fara út í að hafa uppi nein stóryrði og lýsingarorð um þetta. Ég þykist vita að flm. gangi gott til svo langt sem þeir hafa hugsað málið. En e.t.v. hafa þeir ekki hugsað það nógu langt. Það held ég að sé meinið.

Menn lýstu því yfir að þeir vildu með samþykkt þessa frv. bæta drykkjusiði Íslendinga. Ég held að árangurinn verði þveröfugur við þann tilgang. Ég held að það sé ljóst af margfaldri reynslu víða um önnur lönd. Ég veit ekki til að við séum svo frábrugðin Vestur-Evrópuþjóðunum t.d. að niðurstaðan væri einhver allt önnur hér á landi. Sú rannsókn, sem fram hefur farið víða um lönd einmitt á áhrifum aukinnar heildarneyslu áfengis og liggur fyrir í skjölum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin m.a. hefur unnið úr, er þess eðlis að hún er algerlega fullnægjandi fyrir mig. Ég skil ekki hverjir spekingar það eru hér á hv. Alþingi sem sjá þessa hluti miklu betur en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og þeir sérfræðingar um mörg lönd sem vinna í hennar þágu. Ég tel það mikinn ábyrgðarhluta að vísa þeim niðurstöðum á bug rétt eins og þær væru hrein vitleysa eða settar fram af einhverri meinfýsni í garð flm. bjórfrv. á Íslandi. Ég held að þarna hafi menn stigið skref sem í fyrsta lagi var óþarft og í öðru lagi getur orðið óheillaskref ef frv. verður samþykkt.

Mér þykir í raun og veru einkennilegt að þetta mál, sem í hæsta máta er heilbrigðismál, skuli ekki hafa verið á neinu stigi þess sent til umsagnar heilbrigðis- og trygginganefnda þingsins eða hefur hv. allshn. fengið til viðræðu formann áfengismálanefndar ríkisstjórnarinnar, ráðuneytisstjóra heilbr.og trmrn., sem hefur unnið að því að undirbúa markmið ríkisstjórnarinnar í áfengismálum? Og hvernig stendur á því að menn telja nauðsyn bera til að samþykkja þetta frv. núna áður en áfengismálastefna ríkisstjórnarinnar hefur séð dagsins ljós? Þess vegna lýsi ég eftir áfengismálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta mál er breyting á þeirri áfengismálastefnu sem fylgt hefur verið, veruleg breyting. Þetta mál þýðir að ef ríkisstjórnin fellst á það vill hún auka heildarneyslu áfengis í landinu.

Annað atriði í áfengismálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem ég tel að standi höllum fæti, er að bilið hefur minnkað á milli verðs á sterku áfengi og verðs á léttum vínum þannig að í því hefur falist viss hvatning til neyslu á sterku áfengi. Það atriði er vissulega mikilvægt, en hérna erum við með hlut í höndunum þar sem við þurfum ekki að hætta við neitt sem fyrir er heldur einfaldlega að sleppa því að bæta því við. Vel má vera að þá segi menn sem svo, sem mér virtust vera helstu rök sem menn hefðu í raun og veru fyrir máli sínu þegar þeir töluðu fyrir þessu frv. fyrr í vetur: Hvað þá með ósamræmið sem felst í því að sumir borgarar þjóðfélagsins geta fengið keypt áfengt öl og hinir ekki? Það er einfalt mál, ef menn telja að þetta sé ósamræmi sem afnema beri, að afnema það og þess heldur ef menn telja að sala á áfengu öli, t.d. í Fríhöfninni, sé ekki lögum samkvæm er sjálfsagt að hætta þeirri sölu. Ég geri ráð fyrir að það verði ósköp margir sem mundu sakna þess lítið, jafnvel af þeim mörgu sem kaupa bjórskammtinn þegar þeir koma inn í landið.

Mér er vel ljóst að það er nokkurt vafamál hvort sala bjórs í Fríhöfninni standist lagalega eða ekki. Auðvitað er það svo að fríhafnir og viðskipti þar lúta allt öðrum reglum en viðskiptin í löndunum sjálfum og vel má vera að það renni stoðum undir að þetta sé heimilt. Hins vegar eru aðrir þættir sem mæla gegn því í lögum og í álitsgerð, sem mikið hefur verið vitnað til, hefur verið bent á að þessi ráðstöfun hafi ekki staðist. Þess vegna er í raun og veru miklu einfaldara að afnema hana en að samþykkja þetta frv. Þá væri þetta ósamræmi úr sögunni.

Hvers vegna skyldi maður hafa svo mörg orð um þetta og taka lífinu með ró eins og þessu máli liggi ekki nokkurn skapaðan hlut á? Auðvitað liggur því ekki nokkurn skapaðan hlut á og við eigum að fella frv. þegar það kemur til afgreiðslu. En ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að renna niður þeim röksemdum að hér sé um mál að ræða sem tengist einhverri frelsishugsjón. Frelsishugsjón hefur allt annað í för með sér en að leiða aukinn heilsufarsvanda yfir landsmenn. Hversu miklir frjálshyggjumenn sem við erum erum við sammála um að bílar eiga að aka með ljósin, við eigum að hlýða umferðarreglum, við eigum að afstýra slysum. (Gripið fram í: Við borgum skatta líka.) Já, og við eigum að borga skatta. Og þessir skattar okkar þurfa að standa undir gríðarlegum sjúkrahúskostnaði vegna þeirra sem hafa beðið heilsutjón af völdum ofneyslu áfengis og þeir þurfa að standa undir örorkustyrkjum til þeirra sem ná sér ekki eftir að hafa orðið fyrir slysum af sömu orsökum. Fjármunir almennings þurfa líka að standa undir tryggingabótum á ýmsum hlutum sem verða fyrir skemmdum vegna athafna sem unnar hafa verið undir áhrifum áfengis. Það vitum við auðvitað öll að bjórinn er lúmskari að þessu leyti en margt annað áfengi. Bjórinn mundi valda meiri hversdagsdrykkju, mundi tíðar en nú er vera gripið til bjórkollunnar. Ég held að ég megi vitna til nýlegra blaða norrænna um að það er ljóst að unglingar drekka langtum meiri bjór en þeir mundu drekka af öðru áfengi ef bjórinn væri ekki jafnaðgengilegur og hann er í löndum þeirra.

Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa upplifað að sjá afar illa komna unglinga sitja á tröppum við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. Þau máttu varla mæla og voru afar illa komin. Ég undraðist mjög þegar ég sá slíka sjón. Hvernig stendur á þessu í þessu velferðarríki? Af hverju er þessum börnum ekki bjargað til læknis? Samferðamaður minn sagði mér: Þessir unglingar drekka bjór og reykja hass samtímis. Það er mjög vinsælt í þeim hópi sem þau eru í, þeirra kunningjahópi vafalaust.

En því nefni ég þetta að mér þykir það hljóma afskaplega einkennilega þegar ég heyri sömu mennina og berjast gegn því að auka heildarneyslu áfengis með þjóðinni kveðast vilja leggja allt á sig til þess að verja æskufólk vímuefnum. Í fyrsta lagi er áfengið vímuefni og hættulegast þeirra vímuefna sem neytt er á okkar menningarsvæði. Það held ég að liggi algerlega ljóst fyrir. Þá hef ég í huga þá neyslu sem er nokkuð almenn og styðst við mælingar á tjóninu sem af neyslunni verður.

Í tvennum rannsóknum, sem aðstoðarlandlæknir hefur staðið fyrir á neyslu unglinga á áfengi og öðrum vímuefnum, hefur komið í ljós að áfengið er þessum unglingum langhættulegast. Ég þykist vita að niðurstöður þessara tveggja rannsókna hafi hæstv. heilbrmrh. fengið eða eigi mjög hægt með að fá þær og ég leyfi mér að óska eftir því að hann sjái til þess að þessum niðurstöðum verði útbýtt hv. alþm. til fróðleiks. Þær voru vissulega birtar í fjölmiðlum á sínum tíma, en nokkuð er umliðið og menn gleyma svo mörgu þegar menn hafa í huga að reyna að koma í gegn bjórfrv.

Menn hafa látið margir hverjir eins og vind um eyrun þjóta að alþm. fengu hver og einn einasti nú í vetur bréf sem var frá öllum læknum sem annast meðferð drykkjusjúkra, bæði á meðferðarstofnunum SÁÁ og í áfengisskor geðdeildar ríkisspítalanna, ekki aðeins yfirmönnum þessara stofnana heldur öllum læknum sem starfa við þessar stofnanir. Það er stundum sagt að læknar séu e.t.v. ekki alltaf nægilega samstiga, en í þessu tilviki var ljóst að þarna er um að ræða menn sem hafa reynslu af margþættum vanda á þessu sviði og þurfa að fást við fólk sem beðið hefur heilsutjón vegna áfengis og þeir luku allir upp einum munni um þetta mál.

Í grein sem Óttar Guðmundsson, yfirlæknir á Vogi, skrifaði í Morgunblaðið 20. febr. gerir hann fyrst grein fyrir skaðsemi áfengis bæði beinni og óbeinni, vitnaði í heilbrigðisskýrslur frá 1982 um það, það er fylgirit heilbrigðisskýrslna nr. 3, og segir síðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi skaðsemi áfengis er vel þekkt í öllum þeim löndum þar sem áfengi er haft um hönd, en viðbrögð stjórnvalda eru um margt mjög mismunandi. Orsakir þess eru margar, en sennilega vega hvað þyngst ýmsir efnahagslegir hagsmunir sem gera allar aðhaldsaðgerðir ákaflega erfiðar. Þannig eru samtök vínbænda í Frakklandi, Ítalíu og Portúgal og ölgerðarmanna í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi mjög sterk og bregðast hart við allri umræðu um skaðsemi áfengis eða einhverjar aðhaldsaðgerðir sem nauðsynlegar væru.“

M.ö.o.: það er í þessum löndum um að ræða hagsmuni landbúnaðarins. Gera menn sér grein fyrir því að um önnur vímuefni gildir líkt? Í sumum lítt þróuðum löndum er framleiðsla á ýmsum eiturlyfjum, mismunandi hættulegum, landbúnaðarmál. Ég nefni þetta til þess að minna á að viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim málum eru líka mismunandi og meira að segja viðbrögð stjórnvalda í Evrópulöndum.

Ég leyfi mér að vitna aftur til Óttars Guðmundssonar, með leyfi hæstv. forseta:

„Flestar þjóðir hafa einhverja heildarstefnu mótaða hvað varðar áfengi, en mjög er mismunandi hvernig litið er á eða tekist á við vandann. Sumar virðast vera í afneitun á að áfengi geti verið alvarlegt heilsufarslegt vandamál (Danir) en aðrar taka á mun fastar og reyna að spyrna við fótum á einhvern hátt. Óvíða í heiminum eru rannsóknir á skaðsemi áfengis eins miklar og í Svíþjóð og fáar þjóðir hafa eytt eins miklum fjármunum og orku í alls kyns athuganir og útreikninga á þeim kostnaði sem þjóðarbúið ber vegna áfengisneyslu þegnanna. Víðast reyna þó ríkisstjórnir að koma til móts við þennan kostnað með skattlagningu á áfenga drykki, en það nægir hvergi til. Samkvæmt útreikningum Svía kostar áfengisneyslan sænska skattborgara 50 milljarða sænskra kr. á ári, en það jafngildir 300 milljarða ísl. kr. Þetta er úr riti Gunnars Ágren, Svenska lekarskapets handlingar, úr 95. bindi, 4. hefti 1986.

Þá er reiknað með sjúkrakostnaði og ýmiss konar öðrum útgjöldum vegna heilsugæslu, framleiðslutapi og framleiðsluminnkun vegna fjarveru frá vinnustöðum, svo og er ýmis annar kostnaður talinn til. Það er erfitt að reikna út tölu sem þessa, enda hljóta útreikningarnir alltaf að liggja undir ákveðnu ámæli, en talan, hvort sem hún er heldur lág eða há, segir til um umfang vandans.“

Þetta segir Óttar Guðmundsson og hann segir að tekjur vegna áfengissölu í Svíþjóð nemi um 7–8 milljörðum sænskra kr., en hann hafði áður sagt að kostnaðurinn næmi 50 milljörðum. Þarna hefur verið gerð alvarleg tilraun, herra forseti, til að reikna út kostnað sem tengdur er ofneyslu áfengis og við sjáum að það vantar mikið á að endar nái saman. Skaðsemin er hvarvetna talin standa í réttu hlutfalli við heildarneyslu áfengis í landinu. Þess vegna er það sem ég hef áhyggjur af þessu máli. Það er vegna þess að skaðsemin er talin standa í réttu hlutfalli við heildarneyslu áfengis í landinu og það að bæta á markaðinn einni gerð áfengis eykur heildarneysluna.

Ég veit ekki hvort menn muna, sem segir í grein þessa læknis, Óttars Guðmundssonar, að alkóhól er þriðja algengasta dánarorsökin á eftir hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Þess vegna telur hann að heildarkostnaður Frakka t.d. vegna áfengisneyslu sé enn meiri hlutfallslega en Svía. En það sem gerir Frökkum erfitt fyrir eru aftur á móti hinir margnefndu landbúnaðarhagsmunir og ákveðin þjóðarafstaða, eins og hluti af hinni frönsku menningu.

Nú er það ekki svo að bjórneysla sé neinn hluti af íslenskri menningu, svo að ekki er þeirri röksemd fyrir að fara, heldur er þetta einungis það að reyna að haga sér eins og aðrar þjóðir sem við höfum séð til eða hafa á boðstólum þá drykki sem þar eru á boðstólum hvort sem þeir auka vandann eða ekki.

Ég veit það, herra forseti, að þegar ég held því fram og margítreka það að ný tegund áfengis auki við þá neyslu sem fyrir er segja menn: Ja, er nokkurs staðar sýnt fram á það? Ég held að það sé nægilegt að segja að hér ræðum við viðbót við það áfengi sem fyrir er og það er margrannsakað af þeim sérfræðingum, sem í mörgum löndum eru taldir hinir færustu á þeim sviðum, að aukið framboð á áfengi eykur heildarneysluna og aukin heildarneysla eykur skaðann af áfenginu.

Aðeins þetta atriði ætti að sýna að það er rangt að menn drekki bjór í staðinn fyrir sterk vín og auk þess liggja fyrir sérstakar rannsóknir á því í nokkrum löndum, á Norðurlöndum reyndar, að bjórdrykkjan eykur líka neyslu brenndra vína og heildarneyslan eykst. Svo að ég skýri frá því orðrétt eins og Óttar Guðmundsson dr. med. skýrir frá því segir hann og byggir upplýsingar sínar á „Yearbook of Nordic Statistics“ frá 1986 „að heildarneysla Færeyinga 1979 eða árið áður en bjór er leyfður í landinu var 5,8 lítrar af hreinum vínanda á hvert mannsbarn sem skiptist þannig að drukknir voru 33 lítrar af bjór, 4,2 lítrar af léttvínum og 6,4 af brenndum vínum á hvern einstakling yfir 15 ára aldri. 1985 aftur á móti er heildarneyslan 6,6 lítrar af áfengi á hvert mannsbarn sem skiptist þannig: 50,6 lítrar af bjór, 4,1 lítrar af víni og 8,8 lítrar af brenndum drykkjum. Þegar þessar tölur eru skoðaðar sést að bjórdrykkjan eykst mjög verulega svo og drykkja brenndra vína og heildarneyslan eykst. Þessu var tekið mið af eftir að bjór var leyfður í landinu.

Hér hefur svo oft verið vikið að reynslu Svía af milliölinu að ég ætla ekki að ræða um það, en þeir telja að breytt áfengispólitík og meiri áróður gegn drykkjuskap, svo og það að menn hafa fremur beint neyslu sinni að léttum vínum, hafi átt stærstan hlut að því að draga lítið eitt úr heildarneyslu áfengis í Svíþjóð.“

En í Finnlandi fer fram umræða nú um að snúast gegn vanda af völdum bjórdrykkjunnar og ég held að það væri tilvalið að fulltrúar Alþingis í Norðurlandaráði kynntu sér þessi mál sérstaklega, ekki bara með því að bragða bjórinn sjálf heldur líka með upplýsingasöfnun frá starfssystkinum sínum, og þau miðluðu okkur af þeirri reynslu sinni og upplýsingum þegar þau koma heim af Norðurlandaráðsþingi svo við gætum stuðst við það þegar við tökum endanlega afstöðu til málsins.

Það ætti ekki að þurfa að minna á þá dapurlegu reynslu sem Grænlendingar hafa bæði hvað varðar ofdrykkju á bjór og öðru áfengi.

Ég vil enn víkja að vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Nú skulum við ekki halda að þetta sé einhver samkoma þar sem menn tala hver í kapp við annan í einhverju auglýsingaskyni eða til að búa til einhverjar fallegar ályktanir. Þetta er stofnun sem byggir á mjög viðamiklu starfi margra vísindamanna á fjölmörgum sviðum í öllum aðildarríkjunum.

Árið 1981 komst Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að þeirri niðurstöðu að áfengisdrykkja væri með stærstu heilbrigðisvandamálum sem þjóðirnar ættu við að etja og 1982 var starfi þingsins sérstaklega beint að þessu máli.

Í desember 1986 fengu ríkisstjórn og alþingismenn opið bréf um heilsuvernd og nauðsyn þess að draga úr heildarneyslu áfengis. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heilsuvernd sem byggir á hollum lífsvenjum er grundvöllur heilbrigðis og langlífis. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt fram stefnuskrá þar sem bent er á markmið og leiðir til þess að stuðla að heilbrigði fyrir alla árið 2000. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt þessa stefnuskrá. Meðal þeirra markmiða sem stofnunin telur nauðsynlegt að ná er að fyrir þann tíma hafi allar þjóðir minnkað heildaráfengisneyslu sína um a.m.k. fjórðung.“

Það er ekki verið að tala um að banna allt áfengi. Það er ekki verið að tala um neitt ofstæki í þessum málum. Það er bara verið að horfa á beinharðar staðreyndir og hvernig getum við snúist við því, hvernig getum við snúist við heilbrigðisvanda, hvernig getum við snúist við vanheilsu, gegn slysum, gegn þeirri sorg og tjóni sem leiðir af ofneyslu áfengis í löndunum. Ég minni á það hér að ofneyslan hélst í hendur við heildarneysluna.

Ég held áfram, herra forseti, með þetta opna bréf: „Ástæða þessa er sú að öll vandamál sem tengjast áfengi vaxa margfalt með aukinni heildarneyslu. Áfengissýkin er aðeins einn þáttur þessara vandamála. Aðrir sjúkdómar fólks á starfsaldri eiga að verulegu leyti rót sína að rekja til ofnotkunar áfengis. Sama er að segja um slys. Hvort tveggja veldur þjáningu og örorku, auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu og meiri dánarlíkum. Lítill vafi er á að aukin áfengisneysla á sinn þátt í vaxandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu á undanförnum aldarfjórðungi. Í umræðum um ólögleg vímuefni gleymist allt of oft að leggja áherslu á að áfengisnotkun er jafnan samfara notkun þeirra. Áfengisneysla er og í flestum tilvikum undanfari annarrar vímuefnanotkunar. Félagslegar afleiðingar ofnotkunar áfengis eru ekki síður uggvænlegar og aukast einnig margfalt með vaxandi heildarneyslu. Hér má minna á vinnutap og heimilisböl ýmiss konar, svo sem hjónaskilnaði, ofbeldi á heimilum, andlegar og líkamlegar misþyrmingar á maka og börnum. Enn fremur ber að minna á hættuna sem stafar af ölvunarakstri og ýmissi annarri óábyrgri hegðan sem leiðir af því að áfengi slævir dómgreind manna. Annað og oft óviðkomandi fólk getur þannig verið í verulegri hættu. Sérstök ástæða er til þess að minna á að samfara ölvun er tíðni tilviljunarkenndra og óráðgerðra kynmaka mun meiri en ella. Af þessu kunna að hljótast alvarlegir sjúkdómar sem geta verið banvænir.

Með hliðsjón af framansögðu viljum við undirritaðir hér með skora á ráðherra og aðra alþingismenn að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr framboði áfengis og eftirspurn eftir því þannig að heildarnotkun þess minnki hér á landi í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar.“

Undir þetta rita Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Ásmundur Brekkan, forseti læknadeildar, Björn Önundarson tryggingayfirlæknir, Gunnlaugur Geirsson, prófessor í réttarlæknisfræði, Hrafn Tulinius, prófessor í heilbrigðisfræði Þórður Harðarson, prófessor í lyflæknisfræði, Ólafur Ólafsson landlækni., Haukur Þórðarson, formaður Læknafélags Íslands, Gunnar Þór Jónsson, prófessor í slysalækningum, Hjalti Þórarinsson, prófessor í handlæknisfræði, Tómas Helgason, prófessor í geðlæknisfræði, Þorkell Jóhannesson, prófessor í lyfjafræði.

Þar lauk þessum lestri, herra forseti, og mig langar að lokum til þess að vitna í yfirlýsingu frá Læknafélagi Íslands. Þessi yfirlýsing var gerð á aðalfundi Læknafélagsins 1987 og er um stuðning við opið bréf til ríkisstjórnar og alþm. um heilsuvernd og nauðsyn á að draga úr heildarneyslu áfengis.

„Í desember 1986 sendu tólf læknar opið bréf til ríkisstjórnar og alþingismanna um ofangreint málefni. Í bréfinu er vísað til stefnuskrár Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000 og sett fram rök fyrir nauðsyn minnkunar heildarneyslu áfengis. Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Reykjavík 21.–22. sept. 1987, lýsir fullum stuðningi við erindi tólfmenninganna og tekur undir áskorun þeirra til ráðherra og alþingismanna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr framboði áfengis og eftirspurn eftir því þannig að heildarnotkun þess minnki hér á landi í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.“

Ég tel, herra forseti, að þegar við höfum í höndum mál sem getur haft veruleg áhrif á þróun alvarlegs þáttar í heilbrigðiskerfi okkar, sem getur haft neikvæð áhrif á þá þróun, sem getur seinkað því að við ráðum við þann vanda sem við er að etja og sem eykur líkur á slysum og sjúkdómum í stað þess að draga úr þeim, sé varla nokkur maður sem af þeim sökum með heilbrigðisrökin í huga gæti fallist á þetta mál. Þá er spurningin: Eru peningahagsmunirnir virkilega svo þungvægir að menn vilji þetta til vinna eða er það að menn vilji hafa völ á því að kaupa sér bjór svo mikilvægt að menn vilji þetta til vinna? Ef rökin eru þau, sem út af fyrir sig má vel færa fram frá heimspekilegu sjónarmiði, að hver og einn einstaklingur beri algjöra ábyrgð á sínu lífi og geti farið með sitt líf eins og honum sýnist, lagt sér til munns það sem honum sýnist eða gert yfirleitt það sem honum sýnist, þá rekur þessi röksemd sig á aðra mikilvæga röksemd, að framkvæmd þess frelsis rekst á rétt annarra sem verða að bera kostnaðinn af tjóni af þessum sökum, beinan eða óbeinan. Þess vegna er það að svo fjölmörg atriði í þjóðfélaginu eru til þess fallin að setja skorður við slíku, m.a. að þjóðfélagsborgurunum er ekki leyft að kaupa áfengi frá því að þeir eru t.d. sjö ára. Varla eru menn talsmenn þess. Mönnum er ekki leyft þó þeir séu fullorðnir að kaupa önnur vímuefni og svo má lengi telja. Alls kyns höft eru á efnum og aðgerðum sem talin eru heilsu manna hættuleg af því að siðferðisrökin, sem hníga að því að samhjálp manna felist í því að stuðla að betri líðan samborgaranna með því að afstýra tjóni eða bæta böl, eru enn mikilvægari. Það höfum við öll fallist á og ég geri ráð fyrir að fáir séu talsmenn þess að gera það ekki.

Ég lýk þessari ræðu minni, herra forseti, á því að segja eins og í þeirri ræðu sem ég hafði áður haldið í umræðum um annað frv. sem hefði leitt til sömu niðurstöðu: Ég vonast til þess að þingið afgreiði þetta mál á þann veg að frv. verði fellt.