02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5340 í B-deild Alþingistíðinda. (3557)

293. mál, áfengislög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í umræðum þeim sem hér hafa farið fram að undanförnu um frv. til l. um breytingu á áfengislöggjöfinni hefur verið beint til mín nokkrum spurningum og að sjálfsögðu er mér bæði ljúft og skylt að reyna að svara þeim.

Því miður sé ég að annar hv. þm., sem hér beindi til mín spurningum, er ekki kominn í salinn enn þá, hv. 6. þm. Norðurl. e., en hann er sjálfsagt væntanlegur. Út af fyrir sig dugar það honum kannski að fá inn í þingtíðindin þau svör sem ég kann að flytja honum en ekki að hlýða á þau.

Síðan beindi hv. 3. þm. Reykv. einnig til mín fsp., a.m.k. einni, kannski fleirum, og ég get að sjálfsögðu byrjað á því að nefna það sem fram kom hjá þeim hv. þm. Ég hef e.t.v. ekki náð þessum spurningum niður orðrétt, enda skiptir það ekki máli, heldur efnisatriðum. Ég held að hv. þm. hafi spurt eitthvað á þessa leið: Höfum við ráð á að bæta við fjölda umferðarslysa eða taka á okkur hvers konar aðra skaðsemi eða vá af völdum áfengisneyslu? Að sjálfsögðu er rétt flestallt og sjálfsagt allt sem kom fram í máli þessa hv. þm. um skaðsemi áfengisneyslunnar og þá hættu sem hún hefur í för með sér, umferðarslys og skaðsemi hvers konar, ekki bara á heilsufar heldur einnig félagsleg og á heimilisaðstæður o.fl. o.fl. sem ástæðulaust er að endurtaka eða tíunda. Við höfum að sjálfsögðu ekki ráð á því að bæta við slíkt. Það hlýtur öllum að vera ljóst. Svar mitt við þessari spurningu er því einfalt og sammála því sem fram kom hjá hv. þm.

Spurning frá hv. 6. þm. Norðurl. e., sú fyrsta af þremur sem ég skrifaði hjá mér, var á þá leið hvort Ísland væri ekki aðili að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Það er vissulega rétt. Svarið við því er auðvitað já. Við erum þátttakendur í þeirri starfsemi. Þetta er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Við höfum reynt að miða okkar heilbrigðisstefnu að verulegu leyti við þau markmið sem þar hafa komið fram. T.d. tekur sú íslenska heilbrigðisáætlun sem var lögð fram á síðasta þingi af hæstv. þáv. heilbrmrh. mið af stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem stundum hefur verið kennd við heilbrigði allra árið 2000. Við reynum að setja fram í okkar áætlun svipuð markmið og sú stofnun hefur haft að leiðarljósi.

Í öðru lagi spurði hv, þm. mig hvort mér væri kunnugt um að einhver önnur þjóð hefði brugðist svo við að stefna að aukinni áfengisneyslu. Ég veit það ekki fyrir víst, en mér þykir það heldur ólíklegt.

Ég býst ekki við því að nokkur þjóð hafi stefnt eða stefni að slíku sem einhverju markmiði. Ég held að svona spurningu sé í raun einnig auðveldlega svarað á þann veg þó ég hafi ekki fyrir mér neitt í því. Mér dettur það reyndar alls ekki í hug.

Í þriðja lagi spurði sá ágæti hv. þm. hvort heilbrmrh. gæti mælt með því að drykkja verði aukin í landinu. Það geri ég að sjálfsögðu ekki. Ég mæli miklu fremur með því að dregið verði úr drykkju. Svar mitt við þessari spurningu er því líka ákaflega einfalt. Það hlýtur að vera stefnan. Í því sambandi langar mig til þess að vitna til þessarar íslensku heilbrigðisáætlunar og þeirra markmiða sem þar koma fram. Þar er fjallað á einum stað um skaðleg áhrif áfengis og segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt heildarnotkun áfengis á Íslandi sé minni en í flestum löndum er það staðreynd að óæskileg heilsufarsleg áhrif áfengisneyslu eru mikil á Íslandi. Þess vegna verður að vinna að því að minnka heildaráfengisneyslu og útrýma ofneyslu.“ Markmiðin sem hér eru sett fram eru svohljóðandi:

„Markmiðið er að minnka og eyða að lokum alveg óæskilegum heilsufarslegum áhrifum áfengisnotkunar. Almenna neyslu áfengis þarf að minnka. Á næsta hálfum áratug verður lögð sérstök áhersla á upplýsingastarfsemi og ráðgjöf sem heilbrigðisgeirinn veitir, svo og að greina áfengisvanda á byrjunarstigi. Það á að stofna til samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda og félagasamtaka sem hafa bindindi á stefnuskrá sinni og reyna að efla starf þessara samtaka. Verð áfengra drykkja þarf að hækka á næstu fimm árum þannig að verðið hækki árlega umfram verðlag og sterkt áfengi meira en létt. Sett verði áætlun til að ná þessum markmiðum og hún endurskoðuð á fimm ára fresti, fyrst árið 1990.“ Þetta eru þau markmið sem eru sett fram í þessari heilbrigðisáætlun.

Nú er það svo að þessi áætlun hefur í sjálfu sér ekki hlotið staðfestingu sem slík. Hún er sett fram í skýrsluformi í fyrra. Hún hefur verið rædd ítarlega nýlega á heilbrigðisþingi og mín hugmynd, eins og ég hef lýst áður, hefur verið að koma henni inn í þingið á ný til umfjöllunar. Ég vænti þess að í megindráttum séu menn sammála þessum markmiðum, en við viðurkennum sjálfsagt líka öll að það er ekki einfalt eða auðvelt að koma þeim í framkvæmd.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. vitnaði til skýrslu áfengismálanefndar ríkisstjórnarinnar. Þau markmið sem hér eru sett fram eru mjög í samræmi við þau markmið sem þar eru sett fram. Að sjálfsögðu eru þau miklu ítarlegri en hér er gert í örfáum setningum. Þessari áætlun var skilað til fyrrv. ríkisstjórnar þannig að ég hef ekki tekið þessa áætlun sérstaklega upp, en vitnaði til þess í svari við fsp. þar að lútandi hér í hv. þingi fyrir nokkru að ég liti svo á að umfjöllun um stefnu í áfengismálum í tengslum við íslenska heilbrigðisáætlun væri fullnægjandi að þessu leytinu og ekki þess vegna ástæða til að taka þá skýrslu sérstaklega upp hér eða til umræðu. Ég þarf í rauninni ekki að endurtaka þetta.

En í þessari sömu áætlun er einnig talað um skaðsemi tóbaksnotkunar og þar eru markmiðin ekki ólík því sem er varðandi áhrif og markmið varðandi áfengisneysluna. Þar segir t.d., með leyfi hæstv. forseta:

„Markmiðið er að draga úr og síðan útrýma neyslu tóbaks með því að fá fólk til að byrja ekki að reykja og það sem reykir til að hætta. Til þess að ná þessu markmiði verður að auka bæði upplýsingar og áróður og taka til sérstakrar íhugunar tengsl milli reykinga og annarra lifnaðarhátta. Það verður að minnka verulega og helst útiloka að fólk sem ekki reykir þurfi að líða af tóbaksreyk. Verð á tóbaksvörum á að hækka árlega umfram verðhækkanir almennra neysluvara þannig að tóbaksverð sé ávallt langt yfir almennu verðlagi. Það á að útiloka áhrif innflytjenda á það að stýra útsöluverði tóbaksvara.“

Mér finnst andinn og tónninn í þessum markmiðum báðum vera nokkuð svipaður. Það er lögð áhersla á það að heilbrigðisyfirvöld upplýsi fólk um skaðsemi tóbaks og áfengis, upplýsi fólk um hvað það getur haft í för með sér að neyta þessa varnings og leggja áherslu á að draga úr neyslunni. Það höfum við gert og ég fullyrði að okkur hefur orðið nokkuð ágengt, t.d. hvað varðar neyslu tóbaks. Það höfum við þó gert án þess að banna einstakar tegundir tóbaks. Við höfum ekki bannað píputóbak eða vindla eða neftóbak og við höfum ekki bannað einstakar tegundir af reyktóbaki. Ég hef ekki heldur orðið var við það í stefnumiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að þannig sé gert ráð fyrir að draga úr tóbaksneyslu eða áfengisneyslu með því að banna einstakar tegundir heldur fyrst og fremst með því að beita hvers konar áróðri gegn neyslunni almennt og varnaðarorðum varðandi þá hættu sem heilsufari og félagslegum aðstæðum fólks stafar af neyslunni.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði reyndar einnig eða hún sagði, ef ég hef náð því rétt niður, að hún lýsti eftir áfengismálastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég hef kannski ekki mikið meira um það að segja en það sem ég hef þegar lesið upp. Auðvitað höfum við á undanförnum árum markað ákveðna stefnu í þessu efni, en það nýjasta sem ríkisstjórn eða stjórnvöld hafa sent frá sér eða sett á blað í því efni er einmitt sú skýrsla sem ég las upp úr og er samin að tilhlutan hæstv. fyrrv. ráðherra.

Þm. lýsti því að vísu yfir líka að hún teldi að með því sem hér væri að gerast væri um að ræða verulega breytingu. Auðvitað er það rétt að það er breyting á áfengislöggjöf, ef af verður, og það er breyting á því hvernig menn þurfa þá að bregðast við, hvernig heilbrigðisyfirvöld þurfa að bregðast við, en það er í raun ekki breyting á þeim markmiðum á einn eða neinn hátt sem hér hafa verið sett fram og sem ég hef lesið. Það er ekki breyting hvað varðar það áhersluatriði, sem ég tel að sé mikilvægast, að heilbrigðisyfirvöld vinni í samvinnu við alla þá aðila sem hafa bindindi á stefnuskrá sinni og að við reynum með þeim ráðum sem tiltæk eru, eins og með verðstýringu og með hvers konar fræðslustarfi, að draga úr neyslu áfengis og tóbaks eins og þessi markmið kveða á um.

Ég vil líka ítreka að frv. sem hér er til meðferðar hefur ekki verið tekið fyrir af ríkisstjórninni eða verið rætt þar sérstaklega og ríkisstjórnin hefur ekki sett fram sem slík skoðun eða afstöðu til þessa máls. Það hygg ég að eigi líka við um flesta, kannski alla þingflokkana, að þeir hafi ekki tekið málið fyrir eða gert það á þann hátt að það væri tekin flokksleg afstaða til frv. eða málsins í heild.

Mig langar, herra forseti, að lokum að ítreka það, sem ég nefndi áðan varðandi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, að eftir því sem mér er best kunnugt af gögnum hennar er hvergi lagst gegn sölu einstakra áfengistegunda né bjórsölu sérstaklega sem leið að markmiði um heilbrigði allra árið 2000. Það er ekki talað um að banna einstakar tegundir áfengis eða einstakar tegundir tóbaks eins og ég vitnaði reyndar til áðan en er nú kannski óskylt þessu máli. Ég vil líka taka það fram að á dögunum var í heimsókn hjá okkur í tengslum við heilbrigðisþingið aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, dr. Halfdan Mahler, og í viðræðum við hann lét hann í ljós undrun sína á þessum aðstæðum, sem hér ríktu, þessu bjórbanni hér á landi, og að fólk skyldi ekki geta keypt drykk með lágu áfengisinnihaldi og vera skikkað með lagasetningu til að kaupa sterkari og hættulegri áfenga drykki ef það á annað borð ætlaði sér að kaupa áfengi. Þetta sagði hann í samtölum sem ég átti við hann og ég veit að hann lét þessa skoðun sína í ljós við fleiri vegna þess að þetta mál var til umræðu mjög þá eins og eðlilegt má teljast þar sem þetta var til umfjöllunar í þinginu og menn vildu gjarnan heyra afstöðu þessa fulltrúa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á þessu einstaka máli.

Að lokum tel ég að heilbrigðisvandamálin verði ætíð til staðar þegar áfengi er annars vegar. Það er upplýst og vitað og ég vil ekki gera lítið úr því og reyndar undirstrika að ég var mjög sammála þeim þáttum sem fram komu í máli síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv., um þann vanda og þá vá sem heilbrigðismálum stafar af áfengisneyslu og einnig það, sem kom fram hjá þeim hv. þm., að ég býst við að þegar mæla á tekjur og útgjöld verði sá reikningur ekki ríkissjóði í hag. Ég hygg ekki. Ég hygg að það sé rétt hjá henni þó ég hafi í sjálfu sér ekki neinar tölur um það fyrir framan mig. Ég óttast því miður eða álít að við munum ekki með því að breyta áfengislöggjöfinni bæta stöðu ríkissjóðs ef á heildina er litið. En ég undirstrika hitt, að ég tel að það sé hlutverk heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda að fræða og upplýsa þjóðina og svo sérstaka áhættu- og markhópa hennar um áhrif og hættur tengd áfengisneyslu, þ.e. sjúkdóma, slys og félagslegt böl sem kann að leiða af áfengisneyslunni, svo og lög og reglur sem um hana gilda og standa að nauðsynlegum stoðaðgerðum og þá auðvitað einnig meðferð, eins og við höfum reyndar gert og gerum í ríkum mæli, vegna misnotkunar á áfengi.

Ég held, herra forseti, að ég láti þetta nægja. Ég vona að ég hafi svarað spurningunum sem til mín var beint og læt þetta nægja um þau viðhorf sem ég álít að heilbrigðisyfirvöld hljóti að verða að hafa að leiðarljósi í þessu máli.