02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5353 í B-deild Alþingistíðinda. (3560)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Eins og ég tók fram í upphafi fundar var ætlun mín að ljúka umræðu um þetta mál í dag og þau mál sem á dagskrá eru og það leit lengi vel út fyrir, þess vegna hóf ég fund kl. 6, að henni mundi ljúka fyrir kvöldmat. En þar sem nú eru þegar þrír á mælendaskrá er sýnt að henni lýkur ekki fyrir kvöldmat og ég vil af ástæðum sem snerta starfslið þingsins ekki halda starfsliði hér á kvöldmatartíma ef kvöldfundur er. Það er kvöldfundur í Ed. og ég hafði hugsað mér að halda áfram fundi kl. 9, en ég vonast til að umræður þurfi ekki að dragast á langinn í þessum málum við 1. umr. málsins og við getum losað þetta mál frá. Ég held að það sé vegna starfa þingsins allra hluta vegna best að koma þessu máli til nefndar aftur þannig að nefndin geti fengið það til meðferðar. Ég hyggst því freista þess að halda kvöldfund til að þurfa ekki að eyða tíma þingsins í þetta mál á næstu dögum. Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Austurl. segir. Það eru mikilvæg mál fram undan á morgun og föstudaginn sem við þurfum að hafa gott samstarf um að koma fram. Það er ekki mögulegt að halda kvöldfund á föstudag, ég vil taka það fram, vegna þess að hið árlega boð til starfsfólks þingsins er það kvöld.