02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5353 í B-deild Alþingistíðinda. (3561)

293. mál, áfengislög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. forseta að athuga þessa ákvörðun enn betur í þeirri von að hún sé ekki alveg endanleg því að það er afar sérkennilegt ef svo mikið liggur á að koma máli sem nefnd flytur til þeirrar sömu nefndar aftur til þess að hún geti athugað það að það þurfi að halda kvöldfund þegar hv. þingdeildarmönnum veitir hreint ekki af að búa sig undir þá miklu umræðu sem vafalaust verður hér á morgun. Þar er um mál að ræða sem þurfa að koma til lokaafgreiðslu mjög fljótlega og afar margir í þessu landi eiga mikið undir því að þar sé vel að verki staðið. Menn eiga á því fullan rétt að þingmenn gangi að því starfi vel vakandi og vel vinnufærir. Ekki efast ég um og hef reyndar séð það að menn hafa unnið, kannski misjafnlega vel, kvöld eftir kvöld og jafnvel fram á nótt hér í þingi, en þá hefur þar verið um mál að ræða sem bráðlegið hefur á að koma í gegnum þingið. Hér er verið að tala um mál sem biðja á nefndina að athuga betur og ég sé ekki betur en hún geti gert það - hún flytur það sjálf - jafnvel þótt þessari umræðu sé ekki lokið. Það e;ru að vísu nokkur atriði sem þarf hreinlega að upplýsa, a.m.k. að því er varðar mína beiðni um orðið og vafalaust er það svo um fleiri hv. þm. En ég verð að segja að mér þykir gagnrýni vert að halda kvöldfund við 1. umr. máls sem nefnd flytur til að koma því til hennar til baka þegar málið er ekki bundið við ákveðin tímamörk eins og er um þau stóru mál sem verið er að ræða í Ed.