02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5356 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæltist til þess áður en fundi var frestað fyrir kvöldmatinn að menn tækju saman höndum um að reyna að koma þessu máli úr 1. umr. og til nefndar og ég var ekki sá fyrsti sem mæltist til þess. Það höfðu margir ræðumenn gert í umræðum í dag. Ég hef þegar lagt til að málið fari til allshn. og held mig að sjálfsögðu við þá tillögu. Ég er alveg reiðubúinn að ræða efnislega það sem hér hefur komið fram, bæði hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni, að allshn. sé vanhæf til að fjalla um þetta mál. Það eru skoðanir sem ég get ekki fallist á. Ef það á að vera verðið sem þarf að greiða fyrir að málið komist strax til nefndar er ég ekki tilbúinn til þess að borga það. Satt að segja heyri ég ekki mikið sáttahljóð í hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Ég held að við verðum einfaldlega að halda áfram efnislegri umræðu um þetta mál. Það eru enn þá nokkrir þm. á mælendaskrá og ég geri ráð fyrir að þeir vilji fá að tala. Við skulum bara halda því áfram.