02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5369 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

293. mál, áfengislög

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Fyrir mig sem varaþm. hafandi ekki hlustað á bjórumræður hér á hv. Alþingi fyrr hafa þetta verið ákaflega fróðlegar umræður og margt þar komið fram og gæti ég annars vegar sem viðskiptamál og hins vegar sem heilbrigðismál og þá datt mér í hug hvort ég mætti nefna einnig kosningamál einstakra þm., sem láta niðurstöður skoðanakannana ráða afstöðu sinni, því að í fáum málum hafa jafnoft verið gerðar skoðanakannanir og fáum málum virðist vera jafnerfitt að standa gegn og þessu máli.

Nú ætla ég ekki beinlínis að segja af og á um það hver mín afstaða er en ég kemst ekki hjá því að nefna að á sínum tíma, eins og hv. alþm. Ragnhildur Helgadóttir vitnaði til, átti ég þess kost að vera æskulýðsfulltrúi ríkisins nokkurn tíma og m.a. átti ég þar sæti í nefnd á vegum forsrn. sem fjallaði um átak gegn áfengis- og vímuefnum. Seta mín þar og kynni mín af störfum þeirrar nefndar hafði vissulega áhrif á mig. Annars hefði ég verið tilfinningalaus í alla staði, að heyra þau rök sem þar voru lögð á borð fyrir því hvað víndrykkjan er skaðleg á margan máta og hvers konar böl hún hefur leitt yfir þessa þjóð sem og aðrar þjóðir.

Það má líka hugsa um útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála sem okkur óar við. Við vorum að loka fjárlögum. Það vantar alls staðar fjármagn til að fylla upp í þarfir þjóðfélagsins og ekki á það síst við um heilbrigðismálin sem bæði taka til sín verulegt fjármagn eða um 40% þeirra fjármuna sem Alþingi úthlutar og enn virðist vanta þar mikið á til að endar nái saman.

Margir halda því fram að vínneylsa komi ekki öðrum við en þeim sem hana stunda. Það minnti mig á að núna fyrir tveimur eða þremur dögum kom inn um lúguna hjá mér, sem og líklega mörgum öðrum, beiðni um það frá SÁÁ eða Vogi eða einhverjum álíka samtökum, sem eru góðra gjalda verð í alla staði, að fá að taka út mánaðarlega af mínu Visakorti eða Euro-korti ákveðna upphæð til styrktar þessu málefni og ég má segja að í hverri einustu viku er sérstakt happdrætti í einum fjölmiðlinum hérna sem beinlínis er ætlað að styrkja þetta málefni. Ef þetta eru ekki fjármunir þjóðarinnar sem fara í þetta, þá veit ég ekki hverjir fjármunir þjóðarinnar eru.

Ég hef ekki enn heyrt eða sannfærst um nein rök sem telja að bjórinn dragi úr áfengisneyslu, hvorki hér né annars staðar. Mér hefur verið hugsað til þess undanfarna daga að það er ekki langt síðan talað var um mörg sprengjutilfelli á einum ákveðnum stað hér í byggðarlaginu og þó að þar hafi eitt byggðarlag skorið sig úr er þetta víðar þekkt. Þarna eru unglingar nær undantekningarlaust að verki. Mér er líka hugsað til þess að ég hef undanfarin fjögur ár átt sæti í Kvikmyndaeftirliti ríkisins og séð þar margar ofbeldismyndir. Mér er líka hugsað til þess að heyra má fréttir í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum, nánast af hvaða landshorni sem er, fréttir af ránum, vopnaburði og vopnasöfnum unglinga. Þar kennir ýmissa grasa, hnífa og hvers konar vopna annarra sem okkur sem erum orðnir fullorðnir óar við að séu yfirleitt í heimahúsum. Þá eru skemmdir á eigum o.s.frv. sem hljóta að vekja umhugsun hjá okkur, burt séð frá allri bjórumræðu, hvert við erum að stefna og hvað okkar unglinga vantar og hvað það er sem gerir þetta svona nú á síðustu dögum. Ef það er ekki hlutverk Alþingis að reyna að finna út úr því veit ég ekki hverra hlutverk það er öðrum fremur.

Ég heyrði líka á fundi sem ég var á um daginn að í Bandaríkjunum væri veltan í eiturlyfjunum meiri en veltan í kvikmyndaiðnaðinum og poppbransanum til samans. Í Evrópulöndunum væri velta þessara eiturlyfja í sömu löndum meiri en fjárlög landsins. Þetta hlýtur líka að kalla okkur til umhugsunar. Það er ekki langt síðan, og það var þegar ég var æskulýðsfulltrúi, að ég var á fundi með mönnum, m.a. séra Jóni Bjarman sem var fangaprestur þá, nýkominn frá veru sinni í Danmörku. Þá var hann að nefna það að við ættum gott að vera ekki enn farin að sjá sorann í þessum málum, hvernig hann gæti verstur orðið. Samt sem áður læðist að mér sá grunur að séum við ekki þegar farin að sjá hann, þá hilli í að hann komi upp á yfirborðið. Það hlýtur að vera skylda okkar allra hugsandi manna og okkar sem erum að hvetja þjóðina til þess að kjósa okkur, velja okkur inn á Alþingi, til þess að ráða sínum málum að hugleiða þessi mál. Við hljótum líka að þurfa að taka afstöðu til þeirra.

Í nefnd þeirri, sem ég gat um fyrr að ég hefði átt sæti í á vegum forsrn. og ráðuneytisstjóri heilbrrn. stýrði, um varnir gegn eiturefnum og vímuefnum hvers konar, var m.a. Þórarinn Tyrfingsson sem er læknir á Vogi. Hann sagði það, ég má fullyrða að ég man það rétt, að hann vissi þá ekki um eitt einasta dæmi þess hjá mönnum sem voru orðnir þrúgaðir af eiturlyfjaneyslu að áfengið hefði ekki verið byrjunarpunktur. Þessi virti læknir sagði að hann vissi ekki um eitt einasta dæmi þar sem menn væru komnir út í eiturlyfjaneyslu og áfengið hefði ekki verið byrjunarpunktur. Vera má að menn þverskallist við öllu svona. Ég tel samt sem áður að það sé þörf fyrir okkur að taka ráðleggingum hvort sem við heitum alþm. eða eitthvað annað.

Hæstv. fyrrv. heilbrmrh. beindi til mín spurningum um fræðslu og álit mitt á henni miðað við þá reynslu sem ég hafði af því að vera æskulýðsfulltrúi ríkisins. Ég heyrði þá oft talað um að þörf væri á fyrirbyggjandi aðgerðum og sífellt var talað um fræðslu og fræðslu og aftur fræðslu. Ég ætla ekki að gera lítið úr fræðslunni, en mér var oft spurn: Hverja á að fræða og hverjir eiga að fræða og um hvað? Og hvenær er fræðslan orðin áróður og hvenær er fræðslan orðin auglýsing? Þetta voru þær spurningar sem ég gat ekki svarað. Ég er alveg viss um að það er ekki sama hver heldur á þegar fræðslan fer fram né heldur hverjir koma til með að meðtaka hana í hvert skipti.

Mér varð líka að hugsa til þess í dag að áður en þetta mál sem nú er á dagskrá var tekið fyrir lá hér frammi frv. um sálfræðinga, um starfsréttindi þeirra. Þarna er ein ákveðin stétt að biðja um að verða sérfræðingar eða hafa leyfi til þess að kalla sig sérfræðinga í einhverri ákveðinni grein. Ég veit að fjölþætt reynsla þm. er mikil og þm. hafa víða komið við í þjóðfélaginu. En samt er það svo að við hljótum að þurfa að taka og hlusta á reynslu annarra manna í mörgum, mörgum málum. Alla vega er það svo um mig að þó ég hafi víða farið um í þjóðlífinu tel ég sjálfsagt og eðlilegt að reyna að hlusta á reynslu þeirra manna sem vita best um ákveðna málaflokka, alla vega vilja meina best. Og mig langar til að vitna hér í grein. Það hefur oft verið vitnað til greinar sem Tómas Helgason skrifaði í Morgunblaðið 1. mars sl. og Tómas Helgason er prófessor í geðlækningum við Háskóla Íslands, okkar æðstu menntastofnun. Hann er forstöðumaður geðdeildar Landspítalans. Mig langar til að lesa upp tvö atriði úr grein þessa manns. Hann segir svo í greininni, með leyfi forseta:

„Það er skylda lækna að beita þekkingu sinni og reynslu til gagns fyrir sjúklinga sína og þjóðfélagið í heild til að koma í veg fyrir sjúkdóma og ótímabæran dauða. Í ljósi þessa ákváðu 16 af 20 prófessorum læknadeildar Háskóla Íslands að vara alþm. og aðra við þeim hættum sem íslensku þjóðinni er búin af frv. sem lagt hefur verið fram á Alþingi til að heimila framleiðslu og sölu á áfengu öli. Fyrir þessu eru mjög sterk rök sem engir sem láta sig heilsufar þjóðarinnar og forvarnir varða geta gengið fram hjá. Allir læknar við meðferðarstofnanir SÁÁ og við vímuefnaskor geðdeildar Landspítalans hafa tekið í sama streng.“ Ef þetta er ekki ljós sem alþm. eiga að hafa í huga þegar þeir taka ákvörðun um slíkt mál sem þetta veit ég ekki hvað er hægt að gefa okkur að leiðarljósi.

Og Tómas Helgason segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Allar ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hníga að því að ekki skuli leyfa framleiðslu og sölu á áfengu öli hér á landi. Í öllum þróuðum löndum hefur á síðustu árum verið unnið að því að draga úr áfengisneyslu. Aðgerðir sem gætu verkað í gagnstæða átt eins og t.d. mundu fylgja auknu áfengisframboði í formi bjórs mundu gera okkur að viðundri. Það er liðin tíð að upplýst fólk geri grín að því sem gert er til að koma í veg fyrir of mikla áfengisneyslu.“

Það má vel vera að þeir sem standa í þessum ræðustól og eru með varnaðarorð gegn því frv. sem hér er til umræðu eigi ekki bjarta framtíð í prófkjörum eða öðru slíku þegar líða tekur að kosningum. En hafa verður það og mér segir svo hugur um að einhverjir komi til með að meta það að menn vari alla vega við þeim hættum sem færustu menn á sviði þessara mála benda alþm. á og ég skammast mín ekki fyrir það að taka í slíkum tilfellum meira mark á orðum slíkra manna en yfirborðsþekkingu minni sem getur verið að sjálfsögðu haldlítil.

En ég vildi að lokum beina því til formanns hv. allshn., 2. þm. Reykn., að tekið yrði upp í nefndinni að ef tölulegar staðreyndir sýna að tilkoma bjórsins muni auka áfengisneyslu Íslendinga á næstu tveimur til þremur árum, ef þetta frv. verður samþykkt, að tekið yrði inn í frv. sólarlagsákvæði þess efnis að sala bjórs yrði bönnuð frá og með einhverjum tíma, t.d. eftir þrjú ár.

Ég læt þessu lokið, herra forseti.