02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5372 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég færði það í tal við forseta við upphaf efnislegrar umræðu um þetta mál hér í kvöld að ég óskaði eftir því að hæstv. dómsmrh. yrði tilkvaddur og mætti hér. Þetta gerði ég til þess að verða ekki borinn þeim sökum að ég viljandi á elleftu stundu heimtaði hann hingað á fundinn og stæði svo eins og þvara í stólnum þar til hann birtist.

Nú er það svo að ég sé ekki hæstv. dómsmrh. og þykir mér það mikið alvörumál. Ég vil þess vegna gera hlé á máli mínu og óska eftir svari frá forseta hvers vænta megi. (Forseti: Ég lét aðvara hæstv. dómsmrh. og einmitt nú gengur hann í salinn.) Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. er genginn í salinn.

Um áramótin gerðust þau tíðindi að nokkrir Íslendingar urðu fyrir því að skaða sig við meðferð á tívolíbombum. Það hefur ekki komið fram hvort þeir voru drukknir eða ódrukknir þegar þau óhöpp urðu, enda skiptir það e.t.v. ekki höfuðmáli í stöðunni, heldur hitt að dómsmrh. brást við af festu í málinu og óskaði eftir rannsókn. Og það sem meira er, hann tekur ákvörðun um það að láta banna slíkar sprengjur, hvorki meira né minna. Málið er ekki rætt í hinum háu sölum þingsins, hvort það sé skerðing á persónufrelsi að menn megi ekki sprengja tívolíbombur á gamlárskvöld. Það er tekin ákvörðun um það að skerða persónufrelsi manna og banna bomburnar. Það er ekki nóg með að hann ætli að hafa vit fyrir þjóðinni, hann tekur líka ákvörðun um að hafa vit fyrir þinginu.

Ég er ekki að rengja hans ákvörðun eða hans niðurstöðu. Ég er aðeins að undirstrika það með þessum hætti að það er ekkert hik á hæstv. dómsmrh. að taka þessa ákvörðun. Hann lætur rannsaka málið, en hann tekur ákvörðunina. Mig langar til að varpa einni spurningu að dómsmrh. í þessu sambandi. Hvað telur hann að skaðinn sem þeir einstaklingar urðu fyrir og íslensk þjóð vegna tívolíbombanna sé mikill, metinn í peningum? Ég veit að sumt verður aldrei metið í peningum og ég veit að hæstv. dómsmrh. misvirðir það ekki við mig þó að ég spyrji á þennan hátt.

Nú sitja menn á kvöldfundi og margur er hneykslaður yfir því að hér skuli vera menn sem vilji taka um það ákvörðun hvort leyft verði að brugga og selja áfengt öl hér í landinu. Þeir eru sakaðir um að vilja hafa vit fyrir fjöldanum. Það sé nánast hroki og stærilæti sem standi á bak við slíkar ákvarðanir.

Ég óska eftir því að spyrja hæstv. dómsmrh. um fleiri atriði. Það er fyrst til að taka: Hefur honum verið boðið að gera grein fyrir sinni afstöðu hjá allshn.? Þessi málaflokkur heyrir undir hæstv. dómsmrh. Það er vitað að það á eftir að hafa veruleg áhrif á löggæslu í landinu hvernig að þessu verður staðið. Hér hafa ráðherrar staðið breiðir ef menn hafa dirfst að flytja tillögur í þeirra málaflokki og tekið því illa. Eða er svo komið í því stjórnarsamstarfi sem nú er að menn telji að ástæðulaust sé að menn ræðist við innbyrðis, þeir sem standa að ríkisstjórninni?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það hefur oft gerst að fangageymslur lögreglunnar hafa fyllst hér í Reykjavík vegna drykkju sem gripið hefur um sig. Það er óhrakið að það er vitað að frv. sem er á dagskrá mun leiða til meiri drykkju í landinu. Enn spyr ég hæstv. dómsmrh.: Hefur hæstv. dómsmrh. sett sínum starfsmönnum fyrir að undirbúa áætlun um það hve mikið þurfi að stækka fangageymslur á Íslandi verði frv. að lögum? Ég vona að það verði ekki tekið upp aftur að poka menn ef þeir gerast ölóðir eins og gert var í gamla daga þegar ekki var aðstaða til að geyma þá í fangageymslu.

Ég spyr einnig hæstv. dómsmrh. að því hvort hann telji að frv., ef að lögum verður, auðveldi framkvæmd þeirra umferðarlaga sem tóku gildi 1. mars. Í þeim umferðarlögum er m.a. kveðið á um skyldu manna til að láta vita ef þeir telja að einhver hafi sest undir stýri og sé drukkinn. Menn geta sjálfir lent í skaðabótamáli hafi þeir látið slíkt afskiptalaust. Hefur hæstv. dómsmrh. látið meta það, ef frv. verður að lögum, hvaða áhrif það gæti haft á það hvort menn mundu aka ölvaðir í ríkara mæli en gert er í dag?

Mér er ljóst að sumir telja gjörsamlega ástæðulaust að spyrja að þessum hlutum. Ég held hins vegar að hæstv. dómsmrh., sem er ungur maður og galvaskur og ég ber fyllsta traust til, geri sér grein fyrir því hvílíkt alvörumál um er að tefla þar sem er umferðarmál hjá þessari þjóð og það vandamál sem við glímum við, að draga úr limlestingu og dauðsföllum í umferðinni.

Ég vildi einnig gjarnan að hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir því hver afstaða hans er til frv., hvort hann telur rétt að það sé samþykkt, hvort hann telur að það skipti engu máli hvort það er samþykkt eða það sé látið ógert að samþykkja það eða hvort hann telji að það sé gott innlegg í umferðarmál Íslendinga og bæti starfsaðstöðu lögreglunnar í landinu við að halda hér eðlilegu ástandi. Ég óska jafnframt eftir því að hæstv. dómsmrh. svari því hvort afbrot á Íslandi að hans mati tengist áfengisnotkun í ríkum mæli eða ekki.

Ég geri nú hlé á því að spyrja hæstv. dómsmrh. nema einnar spurningar til og hún er: Hvað telur hann að dagsvistun hjá manni sem hefur orðið fyrir þeirri óhamingju að verða dæmdur til fangelsisvistar kosti í dag? Ég tel mér nefnilega skylt að kynna þingheimi hvað það kostar að hafa sjúklinga á nokkrum stöðum sem hér hafa komið inn í umræðuna og snerta áfengismál. Með leyfi forseta langar mig að lesa upp örfáar tölur:

Heildardaggjald á hvern sjúkling á Vogi er 4178 kr., á Sogni 1952, á Staðarfelli 1993, í Hlaðgerðarkoti 1767, í Víðinesi 1538 og kannski er rétt að gefa upp svo sem eitt sjúkrahús til samanburðar og þar vel ég sjúkrahúsið í Stykkishólmi, 6034 kr.

Það gerðist fyrir stuttu síðan að þm. vissi að hann var að fara utan í opinberum erindagerðum til þess að dvelja erlendis í um vikutíma við störf og vissi að hótelkostnaðurinn á viðkomandi stað var á milli 4 og 5 þús. kr. á dag og honum ofbauð. Honum ofbauð þessi kostnaður. Því geri ég þetta að umræðuefni að mér er ljóst að hann mun styðja það bjórfrv. sem hér er lagt fram og ég varð ekki var við það í umræðum um fjárlög að hann fölnaði neitt við þó að hann vissi hvað þetta kostar, að stunda með mannlegum hætti hjúkrunarstörf fyrir drykkjusjúka í þessu landi, með mannlegum hætti vegna þess að Danmörk eða Bandaríkin telja sig ekki hafa efni á því að borga þennan hótelkostnað fyrir þá einstaklinga sem þurfa að dvelja á hliðstæðum stofnunum.

Nú er mér ljóst að mjög margir sem eiga við áfengisvandamál að stríða dvelja annars staðar en á þessum stöðum og þessi upplestur segir lítið um það. En ég vil bæta því við að laun, eins og t.d. læknanna, eru ekkert inni í þessum kostnaði. Þau eru þar fyrir utan. Svo tala menn fjálglega, sumir hverjir, um að þeir séu ekki stuðningsmenn þess að leggja á háa skatta. Það sé nánast illviljað félagshyggjufólk sem hafi áhuga á slíku. Með samþykkt frv. sem hér liggur fyrir blasir það hins vegar við að annað tveggja gerist, skattar munu stórhækka í landinu eða menn taka ákvörðun um það að hætta að koma mannlega fram við það fólk sem á við áfengissýki að stríða. Það er ekki nema tvennt til. Hvers vegna finnst mér eðlilegt að þetta sé tekið fyrir hér og nú? Vegna þess að það kom fram í ræðu hv. 13. þm. Reykv. að eitt af því sem væri að í áfengisvenjum Íslendinga væri það að menn litu ekki niður á drykkjumenn. Það var lausnin. En hv. 13. þm. Reykv. er vafalaust að sinna miklu þarfari verkefnum en að fylgjast með umræðum um frv. sem er þó skilgetið afkvæmi frv. sem hv. 13. þm. Reykv. stóð að flutningi á. Það má líka bæta því við að meðgöngutíminn var mjög stuttur frá því að það afkvæmi komst í tæri við þá flm. sem ákváðu að fylgja núv. frv.

Ég mun nú óska eftir því, herra forseti, af því að ég tel að það valdi ekki neinum vandræðum að hæstv. heilbrrh. komi í salinn. Það er mjög brýnt að hans málflutningur verði ögn skýrari því að vissulega munu hans orð vega nokkuð þungt hér og ég trúi því ekki að hann hafi yfirgefið húsið. Bæði er honum ljóst að hans skylda sem þm. er að sjálfsögðu að vera hér við (Forseti: Hæstv. heilbrrh. er í húsinu og ég lét hann vita.) og einnig hefur hann tekið þátt í þessari umræðu og það virði ég vissulega við hann.

Ég tel að rit dr. Tómasar Helgasonar prófessors, sem sent hefur verið öllum þm., sé þess eðlis að það sé vanvirða við heilbrigða skynsemi ef menn ekki taka afstöðu til þess hvort þar sé rétt skýrt frá eða hvort menn telja að þar sé um rugl að ræða. Það er ekki nema tvennt til. Annaðhvort fer prófessorinn með rétt mál eða þá að í hans gögnum eru rangar upplýsingar og þetta get ég nú illa tekið fyrir nema hæstv. heilbrrh. komi hér í salinn. (Forseti: Hæstv. heilbrrh. mun áreiðanlega koma eftir skamma stund.) Já, ég fagna því en vek athygli forseta á því að það er mjög óþægilegt að spyrja hann meðan hann er fjarverandi og mundi trúlega leiða til þess að ég yrði að endurtaka það sem ég segði. En svo að maður orði það eins og sagt var í feluleik í gamla daga er hann trúlega orðinn heitur því að hér hefur gengið í salinn hv. 6. þm. Norðurl. e. og oft hefur verið stutt á milli þeirra félaga.

Ég tel að þá sé rétt, fyrst hæstv. heilbrrh. er genginn í salinn, að vekja athygli hans á samskiptum Halldórs Snorrasonar og Haraldar konungs Sigurðarsonar. Ég vænti þess að hæstv. heilbrrh. minnist þess að Halldór var sá maður með Haraldi Sigurðarsyni sem minnst brá við voveiflega atburði og tók flestu með ró sem á gekk. Einu tók hann ekki með ró og því tel ég rétt að rifja það upp.

Halldór var stafnbúi Haraldar konungs Sigurðarsonar og stafnbúa bar að láta vita ef hann taldi eitthvað varhugavert við þá siglingu sem konungsskipið sigldi. Og hann kallar til konungs og biður hann að sveigja, ég man nú ekki hvort heldur var til hægri eða vinstri, og reyndar brá stýrimaður þegar við og varð við tilmælum Halldórs því að hann var ekki vanur að gefa út fyrirmæli nema þau ættu rétt á sér. Konungur gaf fyrirmæli um að rétta skipið við á nýjan leik og aftur kallaði Halldór. Og stýrimaður breytti stefnunni, en konungur lét enn leiðrétta til þess upprunalega. Þá strandaði skipið. Og þá varð konungur reiður og taldi það ekki nógu gott hjá sínum stafnbúa að skipið hefði strandað, en hafði þó í engu tekið mark á hans orðum.

Það fer ekki á milli mála að dr. Tómas Helgason er stafnbúi Íslendinga í dag í því sem snýr að geðheilsu og einnig þeim málum sem snerta áfengissýki og viðureignina við hana. E.t.v. vita menn það ekki, en um langt árabil hefur afvötnun á drykkjusjúkum mönnum farið fram á Kleppi, hótelinu við Sundin. Þangað var farið með drykkjusjúka menn í afvötnun og lyfjameðferð til þess að bjarga þeim, gjarnan þegar þeir voru komnir með delerium tremens og voru sjálfum sér og umhverfinu hættulegir.

Nú hefur stafnbúinn gefið út sína viðvörun í bréfi sem hann er búinn að senda öllum þingheimi. Og spurning mín til hæstv. heilbrrh. Guðmundar Bjarnasonar er einföld: Hlíti hann ekki fyrirmælum stafnbúans í málinu, tel ég að hann eigi ekkert undanfæri annað en að reka hann frá störfum. Því að ef svo er komið að menn treysta ekki stafnbúum sínum þá er öll sigling skipsins í stórkostlegri hættu og það vænti ég að hann geri sér ljóst að fordæmið frá siglingu Haralds konungs Sigurðarsonar er óbrigðult dæmi um, enda mat Halldór það svo að eftir að konungur hafði ekki tekið mark á orðum hans, þá óskaði hann eftir að taka við stjórn á öðru skipi og jafnframt að koma til Íslands. Og sagan segir að með brugðnu sverði hafi hann staðið yfir rekkju konungs og krafið hann um málann sem hann átti inni áður en hann hélt til hafs og sigldi heim til Íslands. Hann efaði það ekki að þeirra samskipti, sem áður höfðu verið góð, gátu ekki lengur átt rétt á sér.

Ef hæstv. heilbrrh. telur að það sem Tómas Helgason prófessor segir í þessu riti séu staðlausir stafir, sem ekkert mark sé takandi á, þá hlýtur það að vera skýlaus krafa að hann setji annan yfir þennan málaflokk og taki við. Hitt er svo spurning hvort ráðherra hefði traust þingsins á eftir.

Ég hef varpað hér fram alvarlegum hlutum. Og mér er ljóst að hversu mjög sem ræðumenn hér í kvöld munu halda sig við efni þeirrar umræðu sem hér er á dagskrá, þá munu trúlega flestir fjölmiðlar þjóðarinnar bera það á þá að þeir standi hér bara fyrir málþófi. Það verður það sem fjölmiðlarnir munu bera á þá. En mér er nokk sama. Ég tel að jafnvel hv. 2. þm. Reykn. sé orðið það ljóst að það var lítið gæfuspor að standa að því að gerast fyrsti flm. þess frv. sem hér er flutt. Og satt best að segja er það nú svo að vegna þeirrar forustu sem honum hefur verið falin hjá sínum þingflokki, sem jafnframt er stærsti stjórnmálaflokkur Íslands og hv. 1. þm. Vestf. hefur orðað svo að sé sterkasta aflið í stjórnmálum Íslands, þá hlaut hann að gera sér grein fyrir því að ákvörðun hans sem formanns þingflokksins að taka þá afstöðu að ganga í fylkingarbrjósti til þessarar orustu væri ákvörðun um það að ganga í skrokk á eigin mönnum, að ganga í skrokk á eigin mönnum og meta lítt friðinn. Auðvitað eigum við sem erum í öðrum stjórnmálaflokkum ekkert upp á hann að klaga í þessu efni. En hinir hljóta að spyrja sjálfan sig: Hvers vegna vildi hann ekki leyfa mönnum í Sjálfstfl. að takast á um þetta mál, flm. og þeim sem voru á móti? Hvers vegna tekur hann þá afstöðu að ganga fram fyrir skjöldu og stefna þannig ákveðið að því að ráðast gegn þeim sem við 1. umr. um upprunalega frv. höfðu lýst hér skoðunum sínum?

Herra forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér lokaorðin í áliti prófessorsins vegna þess að það gerðist hér áðan að þm. sem var í ræðustól, greip í tómt þegar hann leitaði að gögnum í sínum fórum til þess að minnast á útreikninga Þjóðhagsstofnunar. Þá hef ég lesturinn, með leyfi forseta:

„Lokaorð. Eins og sjá má af framansögðu eru næg fræðileg rök til þess að stjórnvöld leggist gegn öllu sem getur hugsanlega leitt til aukinnar áfengisneyslu. Allar ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hníga að því að ekki skuli leyfa framleiðslu og sölu á áfengu öli hér á landi. Í öllum þróunarlöndum hefur á síðustu árum verið unnið að því að draga úr áfengisneyslu. Aðgerðir, sem gætu verkað í gagnstæða átt, eins og t.d. munu fylgja auknu áfengisframboði í formi bjórs, munu gera okkur að viðundri. Það er liðin tíð að upplýst fólk geri grín að því sem gert er til að koma í veg fyrir of mikla áfengisneyslu. Margir líta hýru auga til þess sparnaðar sem við höfum náð með því að leyfa ekki eina mjög eftirsótta tegund áfengis og halda heildarneyslunni þannig niðri.

Þegar síðast var flutt frv. um breytingu á áfengislögum til þess að leyfa framleiðslu og sölu á áfengu öli gerði Þjóðhagsstofnun áætlun um hve áfengisneyslan mundi aukast mikið ef frv. yrði samþykkt. Áætlun Þjóðhagsstofnunar var eins og sést á myndinni að búast mátti við að áfengisneysla reiknuð í hreinum vínanda ykist um þriðjung frá því sem hún var á árinu 1984. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þróunin verði önnur en Þjóðhagsstofnun áætlaði. Samkvæmt reynslu annarra og tiltækum heimildum má búast við því að heildarneysla áfengis aukist verulega og að öll vandamál, sem tengd eru áfengisnotkun og ofnotkun, muni aukast a.m.k. í hlutfalli við neysluna ef það frv. sem nú liggur fyrir um breytingu á áfengislögum verður samþykkt.“

Það er og fróðlegt fyrir þá ráðherra sem hér eru að hugleiða það að sama stofnunin og sló því föstu að áfengisneyslan mundi aukast um þriðjung sér um efnahagslega ráðgjöf fyrir þessa ríkisstjórn sem m.a. boðar að viðskiptahalli Íslendinga við útlönd verði 10 milljarðar á þessu ári. Og til þess að reyna að draga úr þenslu hefur hæstv. heilbrrh. samþykkt að 20 millj. kr. framlag í K-byggingu skuli skorið niður. Hvað ætli þurfi að skera mikið niður ef kostnaður Íslendinga af áfenginu eykst um þriðjung?

Ég vil gera það að mínum lokaorðum að ég vænti þess að hæstv. ráðherrar sjái sóma sinn í að svara þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar og vænti þess að þeir geri það nú í kvöld þó nokkuð sé áliðið, því að þá gefst mér tími til að hugleiða þeirra svör þar til 2. umr. hefst um þetta mál.