03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5396 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

267. mál, jöfnuður í verslun við einstök lönd

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins benda á það aftur sem stendur í þessari fsp.: „Hyggjast ráðherrar gera eitthvað til að jafna þann óhagstæða mun sem er á innflutningi Íslendinga frá allmörgum löndum og útflutning þeirra þangað?" Hér er um mjög almenna spurningu að ræða og ef hv. þm., í þessu tilviki hv. fyrirspyrjandi Ingi Björn Albertsson, vill fá ítarlegt svar um einstök mál finnst mér það vera lágmark að ætlast til þess að fsp. séu settar þannig fram að það sé auðvelt að skilja við hvað er átt. Hitt er svo annað mál að það kom ýmislegt fram í upphafsorðum hv. fyrirspyrjanda um hvað það var sem hann raunverulega átti við og hefði e.t.v. verið auðveldara ef það hefði komið fram beint í fsp. eða einhverjar útskýringar komið á henni áður en svarað var.

Auðvitað er það þannig að ef á að jafna útflutning og innflutning verður það að koma við þá sem flytja inn og neytendur í landinu og það verður að vera ívilnandi fyrir útflutninginn. Það verður að styrkja útflutninginn og gera erfiðara fyrir neytendur og innflytjendur að flytja svo mikið inn. Ég skildi hv. þm. Inga Björn Albertsson þannig og hv. þm. Albert Guðmundsson reyndar einnig að þeir teldu að þetta ætti allt að gera með öfugum hætti. Það ætti að greiða fyrir innflutningi og alls ekki að leggja nokkrar byrðar á almenning. (AG: Spurningin er skýr.) Ja, mér er ekki nokkur leið að skilja þetta, hv. þm. Albert Guðmundsson. Það er sjálfsagt vegna þess að ég er svona tregur í þessum málum, enda er það rétt að ég hef ekki stundað innflutning og hef ekki hugsað mér að gera það.