03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5397 í B-deild Alþingistíðinda. (3593)

267. mál, jöfnuður í verslun við einstök lönd

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Örstutt athugasemd. Ég vildi benda hv. fyrirspyrjanda á það og einnig hv. 5. þm. Reykv. að fáar þjóðir eiga meira undir því en Íslendingar að jafnkeypisregla í viðskiptum milli einstakra landa gildi ekki sem markmið í alþjóðaviðskiptum. Við erum hér með einhæfan útflutning og eigum allt okkar undir því að það líðist almennt að eitt land selji öðru meira en það kaupir frá því, að frjálsræði ríki í fjölþjóðaviðskiptum. Við flytjum t.d. miklu meira út til Bandaríkjanna en við kaupum þaðan. Við höfum talið okkur hentugra að flytja inn frá Evrópu en flytja út til Bandaríkjanna um langan aldur. Þetta er gott fyrirkomulag og við eigum síst þjóða að verða til þess að óska eftir því að við hverfum aftur til millistríðsáratímabilsins þar sem jafnkeypisreglan var ríkjandi, en það er andinn sem vakir í fsp. þeirri sem hér er rædd og athugasemdum hv. 5. þm. Reykv.