03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5397 í B-deild Alþingistíðinda. (3594)

267. mál, jöfnuður í verslun við einstök lönd

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég held að hæstv. viðskrh. sé fullljóst af hverju viðskipti eru við Bandaríkin eins og þau eru í dag. Það er vegna þeirrar tollastefnu sem hér ríkir og það er margbúið að gagnrýna það. Hins vegar vil ég segja að ef spurningarnar eru svona óskaplega óljósar fyrir ráðherrana verður náttúrlega að umorða þær betur. Þetta fer að vísu í gegnum síu Helga Bernódussonar, en ef það þarf að stafa þetta eitthvað sérstaklega fyrir þá til þess að þeir skilji að það er verið að kalla eftir þeirra hugmyndum, hvað þeir ætli að gera í þessu máli, eru þeir í rauninni að krefjast þess hér að menn leggi fram fsp. og gefi þeim hugmyndirnar líka í spurningunni. Þeir eru ekki skarpari en það, blessaðir mennirnir.