03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5397 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

305. mál, útgjöld vísitölufjölskyldu

Fyrirspyrjandi (Unnur Sólrún Bragadóttir):

Herra forseti. Kaup og kjör eru líklega það sem fyrst og síðast brennur á fólki. Það hafa verið farnar ýmsar leiðir til að sanna það fyrir Íslendingum að sé einn maður fátækur og annar ríkur séu þeir að meðaltali efnaðir. Að mati margra virðist almenningur eiga að lifa á útreikningum þeirra, á meðalráðstöfunartekjum, meðalneyslu og meðalsparnaði þó svo það sé ekkert tillit tekið til misskiptingar teknanna eða vinnuálagsins sem að baki þeim býr. Þetta kom berlega í ljós við síðustu kjarasamninga. Þá töldu þessir reiknimeistarar, sem svo mjög höfðu hrósað sér af auknum meðaltekjum landsmanna, það nánast landráð að fara fram á kjarabætur til starfsfólks í grunnframleiðslunni.

Sannleikurinn er að útreikningurinn á hækkuðum meðaltekjum landsmanna sýnir ekkert annað en aukna misskiptingu, að í landinu eru annars vegar þeir sem búa við allsnægtir og hins vegar þeir sem búa við nauðþurftir. Atvinnurekendur reyna allar leiðir til að sannfæra þjóðina um að það sé skilyrði fyrir bættum hag að launin hækki ekki. Við vitum nú þegar að ófaglærðir á Íslandi hafa mun lægri dagvinnutekjur en tíðkast í nágrannalöndum okkar, en það segir okkur ekki alla söguna. Þjóðhagsstofnun hefur reglulega reiknað út hver séu heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar svokölluðu. Þar er gengið út frá ákveðnum þörfum. Ef bera á saman launakjör milli landa er nauðsynlegt að taka inn í samanburðinn hvað sá neyslupakki kostar í viðmiðunarlöndum því það er kaupgetan en ekki krónufjöldinn sem segir til um kjörin.

Og því spyr ég hæstv. viðskrh.: Hver væru útgjöld íslensku vísitölufjölskyldunnar ef hún keypti reiknaðar þarfir sínar í Svíþjóð, í Danmörku, í Englandi og í Vestur-Þýskalandi?