03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5400 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

305. mál, útgjöld vísitölufjölskyldu

Fyrirspyrjandi (Unnur Sólrún Bragadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra viðleitni hans til svars, sem mér fannst að mörgu ófullnægjandi, og með tilvísun til hv. 13. þm. Reykv., þeirra orða sem hún viðhafði áðan, verð ég satt að segja að lýsa því að mér finnst undarlegt að þetta hafi ekki verið kannað miðað við alla þá útreikninga sem fyrir liggja.

Svörin voru margþættuð eða rökstuðningur þess að það væri ekki hægt að svara þessari spurningu. Eitt svar var á þann veg að svona samanburður ætti hreinlega ekki rétt á sér vegna þess að neysla manna væri mismunandi eftir löndun. Það er rétt þó svo að ég telji að í þessum löndum, sem ég taldi þarna upp til samanburðar; svipi neyslu þessara þjóða mjög til okkar neyslu. Ef það kæmi í ljós eins og mig grunar að þessar reiknuðu þarfir okkar kosti minna í viðkomandi löndum en þær kosta okkur hér sýnir það okkur ótvírætt að við fáum ekki bara færri krónur fyrir vinnu okkar heldur fáum við líka minna fyrir þær krónur sem við fáum. Það gæti kannski leitt okkur til þeirrar spurningar hvort álagning hér væri ekki óeðlilega há.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þennan rökstuðning hæstv. ráðherra en þakka honum fyrir.