03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5401 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

307. mál, kosningarréttur Íslendinga erlendis

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Fyrir réttu ári héldu námsmannafélög og Íslendingafélög á Norðurlöndunum fundi í Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Gautaborg og buðu fulltrúum allra framboða til alþingiskosninga að kynna þar stefnu sína og fræðast um þau mál sem Íslendingum á erlendri grundu liggja þyngst á hjarta. Þetta var ákaflega fróðleg og skemmtileg ferð og margt sem bar á góma. Eitt af því var kosningarréttur Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Eins og þingheimur veit er kosningarrétturinn lögum samkvæmt bundinn við 18 ára aldur, íslenskan ríkisborgararétt og lögheimili hérlendis eða hafa átt það á síðustu fjórum árum talið frá 1. des. næstum fyrir kjördag. Þessi tímamörk munu koma allmisjafnlega niður á löndum okkar erlendis. Ástæður þessa eru m.a. þær að mishart er gengið eftir því að menn tilkynni búsetu eftir því hvaða lönd eiga í hlut. Milli Norðurlandanna er þetta allt í föstum skorðum meðan fólk kemst upp með meiri losarabrag vegna dvalar í ýmsum öðrum löndum. Með það eru landar okkar á Norðurlöndum heldur óhressir að vonum. Svo er heldur ekki alveg sama hvað menn eru að bardúsa þar ytra því að námsmönnum líðst að dveljast þar lengur en fjögur ár án þess að missa kosningarrétt hér heima og er sú túlkun gjarnan nokkuð frjálsleg og rúm sem reyndar er mjög gott, enda er oft erfitt að gera greinarmun á t.d. skólanámi og námi í verklegum efnum.

Þetta er þá í fyrsta lagi spurning um lengd þess tíma eða þann árafjölda sem menn halda kosningarrétti hérlendis þótt þeir flytjist búferlum um skeið eða m.ö.o. hvort tímamörkin eru ekki of þröng í kosningalögunum.

Í öðru lagi eru svo aðstæður manna og möguleikar til að neyta réttar síns því að í mörgum tilvikum er það slík fyrirhöfn að fólk veigrar sér við að leggja hana á sig nema áhuginn sé þeim mun meiri og trúin heitari.

Bæði þessi atriði mætti lagfæra ef vilji er fyrir hendi og ástæður fsp. minnar á þskj. 613 eru einmitt þær að kanna vilja hæstv. dómsmrh. í þessu efni. Fsp. er í þremur liðum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hversu margir Íslendingar búsettir erlendis gátu ekki neytt kosningarréttar hér á landi í síðustu kosningum?

2. Hverjar voru ástæður þess?

3. Hefur dómsmrn. áform um að bæta stöðu þessa fólks?"