03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5405 í B-deild Alþingistíðinda. (3606)

307. mál, kosningarréttur Íslendinga erlendis

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Í tilefni af svörum hæstv. dómsmrh., þar sem hann sagði að margir felldu sig ekki við að fólk sem væri búsett erlendis um einhvern tíma gæti haft áhrif á stjórnmál hérlendis eða þróun mála, langar mig vegna reynslu minnar að vekja athygli á því að flestir Íslendingar sem fara utan í nám eru fullveðja fólk. Margir hafa mótaðar stjórnmálaskoðanir þegar þeir yfirgefa land sitt, en dvelja kannski lengur en þeir ætluðu. Í mínu tilfelli urðu það 13 ár þó ég hafi ætlað að verða fjögur. Í því landi þar sem ég bjó, í Bretlandi, hafði ég ekki kosningarrétt né aðrir sem svipað var ástatt um. Það hvarflaði ekki að mér eða neinum öðrum sem ég þekkti að fórna ríkisborgararétti mínum íslenskum til að fá kosningarrétt á Bretlandi þannig að um kannski níu ára skeið gat fólk í minni stöðu hvergi kosið. Það varð eins og börn á nýjan leik. Það gat hvergi haft áhrif á það þjóðfélag sem það bjó í með sínum kosningarrétti, með pólitískri þátttöku. Ég vil líka vekja athygli á því að flestir Íslendingar í Bretlandi sem ég þekkti á þessum tíma fengu blöð send að heiman, fylgdust náið með og höfðu samskipti við Íslendinga sem stöðugt komu í heimsókn. Þeir voru þannig fjarvistum um tíma, en flestir hugðu á heimkomu og flestir hafa komið heim þó árin yrðu fleiri en þeir héldu. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fólk geti beitt sér á heimaslóð, jafnvel þó fjarvistir banni um einhvern tíma, og vek athygli á því.

Og það er annað í þessu. Margt af þessu fólki er við nám. Það verður fyrir mikilli örvun meðan það er erlendis og það hefur takmarkað tækifæri til þess einmitt að senda jákvæða strauma til heimalandsins. Einn farvegur fyrir slíkt er að taka þátt í kosningum til að hafa mótandi áhrif á þjóðlífið til að koma nýjum hugmyndum heim meðan það enn dvelst erlendis.