03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5405 í B-deild Alþingistíðinda. (3607)

307. mál, kosningarréttur Íslendinga erlendis

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Mér fannst hann vera jákvæður og skilningsríkur og hafa hug á að leiðrétta þetta mál, sem ég tel mjög mikilvægt, vegna þess, eins og fram hefur komið hjá þeim sem tekið hafa þátt í þessum umræðum og sem ég þakka fyrir þeirra innlegg, að réttur fólks til að kjósa er ákaflega mikilvægur réttur og heilagur. Ég fann það á því fólki sem ég hitti í þessari fundarferð, sem ég minntist á áðan, að því er verulega sárt um þennan rétt. Sumir virtust líta á þetta sem ákveðna höfnun héðan að heiman og það er það að vissu marki. Þessi ákvæði, svo og misjafnar reglur og formsatriði eftir löndum valda og viðhalda mismunun sem er auðvitað afleit.

Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera tvennt og mér heyrðist í máli hæstv. ráðherra hann vera sammála því. Við eigum að lengja þann tíma sem liðinn má vera frá búsetuskiptum, fjölga árunum, t.d. upp í átta. Ég held að það sé ekkert of langur tími. Og við þurfum að athuga hvernig hægt er að auðvelda fólki að neyta kosningarréttar síns erlendis. Það er auðvitað engin mynd á því að fólk þurfi að ferðast um óravegu til þess að kjósa hjá einhverjum ræðismanni sem hefur opna skrifstofu tvisvar sinnum í mánuði eða eitthvað því um líkt. Það er því mjög mikilvægt og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það eru of fáir kjörstaðir erlendis. Það þarf ekki eingöngu að fjölga þeim heldur hafa þá opna offar og lengur.

Það er alveg áreiðanlega þörf og ástæða til þess að kanna það með hvaða móti væri hægt að auðvelda fleiri íslenskum ríkisborgurum erlendis að neyta kosningarréttar síns og að mínum dómi er þetta mál sem stjórnarskrárnefnd hlýtur að taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar. Það má reyndar undarlegt heita ef aukin tækni getur ekki hjálpað okkur í þessu efni eins og svo mörgu öðru, en þess má geta að sums staðar erlendis er póstþjónustan betur nýtt til þessara hluta en við gerum ráð fyrir í okkar lögum og er kannski ástæða til að íhuga það vandlega.

Það ætti að vera auðvelt að taka á þessum málum í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndum, eins og hv. 13. þm. Reykv. tók fram. Við eigum margvísleg samskipti við þá. Nú er þing Norðurlandaráðs fram undan og ég hvet fulltrúa okkar til að hafa þessi mál í huga í störfum sínum í framtíðinni. En fyrst og fremst er þetta mál í höndum dómsmrn. og stjórnarskrárnefndar og ég skora á þessa aðila að gleyma ekki að fjalla um rétt þeirra íslensku ríkisborgara sem af einhverjum ástæðum dveljast alllengi erlendis.

Staðreyndin er sú að flestir flytja aftur heim til Íslands með dýrmæta reynslu og þekkingu sem nýtist ekki aðeins þeim sjálfum heldur einnig oft landi og þjóð til góðs.

Þess má svo kannski geta til fróðleiks að lokum og upplýsingar að um áramótin 1986–1987 munu 3532 Íslendingar hafa verið búsettir í Svíþjóð og það má vera til marks um hug þeirra til ættarlandsins að aðeins ellefu munu hafa sótt um sænskan ríkisborgararétt á árinu 1986 og á 20 árum, þ.e. 1967–1987, gerðust aðeins 187 Íslendingar sænskir ríkisborgarar þrátt fyrir mikinn straum Íslendinga milli þessara landa vegna náms og starfa.