03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5406 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

307. mál, kosningarréttur Íslendinga erlendis

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Auðvitað á það í grundvallaratriðum að vera stefnan að greiða fyrir því að Íslendingar sem eru búsettir erlendis um stundarsakir fái neytt kosningarréttar síns. Um það hygg ég að sé enginn ágreiningur. Hitt er svo það að margt af þessu fólki, sem er inni í þeirri tölu sem hér var nefnd, 10 500, er ég sannfærður um að hefur engan áhuga á að neyta kosningarréttar síns og gerir það ekki þess vegna. Það er svo sem ósköp skiljanlegt að fólk sem er flutt til langframa en einhverra hluta vegna hefur kosið að hafa lögheimili hér geri það ekki. Menn verða að líta líka á þessar tölur með því hugarfari. En ég held hins vegar að það sé tími til kominn að við tökum reglurnar um utankjörstaðaatkvæðagreiðslu til rækilegrar endurskoðunar og tökum þá m.a. mið af þeim reglum sem Norðurlandaþjóðirnar nota þar sem þetta er allt miklu einfaldara, auðveldara og að ég held fljótvirkara og gerir það að verkum að fleiri geta neytt kosningarréttar síns. Ég held að það sé kannski kjarni málsins.