02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

60. mál, iðnaðarlög

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka þær umræður og þann áhuga sem hefur komið fram hjá hv. deildarmönnum þótt auðvitað séu skoðanir skiptar um efni þessa máls og er það afar skiljanlegt. Það er ekki ætlun mín að hefja almennar umræður um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi eða fjárfestingar íslenskra aðila í nágranna- og viðskiptalöndunum. Það er miklu stærra mál en svo að ástæða sé til þess vegna þess frv. sem hér liggur fyrir, en það sem hv. 7. þm. Reykv. nefndi aðallega í sínu máli er skýrsla sem var lögð fram á síðasta þingi. Það er verið að vinna úr þeirri skýrslu, eins og ég gat um í minni framsöguræðu, og þegar frv. birtist um þau efni, sem eru fjölmörg og flókin, gefst nægur tími til að ræða almennt um stefnuna í þessum efnum.

Ég hef reynt að grafast fyrir um hvers vegna það ákvæði sem nú er verið að reyna að lögfesta aftur datt út úr lögum á sínum tíma. Í raun hafa engar haldbærar skýringar komið fram. Mér er næst að halda að um mistök hafi verið að ræða, ekki síst í ljósi þess að vitað er að þetta ákvæði í lögunum, sem hafði verið í lögunum allt frá þriðja áratugnum, var talið vera ein af forsendum þess að við gætum gengið í EFTA á sínum tíma.

Vegna orða hv. þm. um hvort þetta sé stjfrv. stutt af ríkisstjórninni skal tekið fram að engin mótmæli hafa komið fram svo að ég viti nema síður sé um að þetta frv. nái fram að ganga og frv. er auðvitað stjfrv.

Það hafa komið fram fsp. hér, m.a. frá hv. 6. þm. Reykv. og reyndar frá hv. 7. þm. þess kjördæmis enn fremur, um hvenær þessu ákvæði yrði beitt. Ég vil aðeins segja það, sem stendur í athugasemdunum með frv., að hér er fyrst og fremst átt við það þegar um nýsköpun er að ræða, þ.e. þegar iðnfyrirtæki, fyrirtæki sem þurfa iðnrekstrarleyfi, eru að framleiða nýjar vörur, yfirleitt með nýrri tækni, t.d. líftækni, og þurfa á samstarfi við erlenda aðila að halda, aðila sem ráða yfir markaðsþekkingu og jafnvel tækniþekkingu þannig að samstarfsfyrirtækið geti verið íslenskt fyrirtæki en þurfi ekki að vera danskt fyrirtæki, sænskt, amerískt eða breskt. Ég held að það sé mikils virði fyrir okkur Íslendinga, ef við ætlum að fylgjast með, að átta okkur á því að lagareglur mega ekki koma í veg fyrir að fyrirtæki geti stofnast um sölu og markaðsfærslu á ákveðnum vörutegundum sem eru framleiddar hér á landi verði útlend fyrirtæki vegna þröngsýni í íslenskum lögum.

Það er alveg rétt til getið hjá hv. 6. þm. Reykv. að eitt af þessum fyrirtækjum er Lýsi hf. sem hugsanlega gæti átt samstarf við erlent fyrirtæki sem ég kýs að nefna ekki í þessari ræðu minni, enda hef ég ekki heimild til þess því að það mál er enn þá á undirbúningsstigi. Það mál hefur hins vegar verið kynnt nokkrum ráðherrum og ég get sagt að ráðherrarnir eru sammála því að það beri að reyna að koma málum þannig fyrir að fyrirtækið gæti orðið íslenskt fyrirtæki en ekki fyrirtæki sem verður vistað í öðru landi.

Það getur vel verið að hv. 6. þm. Reykv. hafi miklar áhyggjur af því að núv. iðnrh. fari ekki vel með vald sitt ef hann fær þessa heimild til að veita undanþágu. Ég held að ég geti huggað hv. þm. með því að þetta vald verður ekki misnotað. Þetta ákvæði var í lögum í meira en 50 ár svo að það er ekkert nýtt lagaákvæði sem verið er að tala hér um. Ég kannast ekki við að það hafi orðið vandræði vegna þessa lagaákvæðis þegar það var í lögum.

Það sem rekur á eftir mönnum að lögfesta þetta atriði, sem auðvitað er rétt og kom fram hjá hv. þm. að er hluti af miklu stærra máli, er að það liggur á í vissum tilvikum að geta staðfest að fyrirtæki sem okkur þykir æskilegt að geti starfað hér á landi fái til þess heimild.

Sú umræða sem hér fer fram er í raun og veru umræðan um að hve miklu leyti við eigum að fá erlenda aðila til að taka þátt í áhættustarfsemi hér á landi eða hvort við eigum áfram að afla lánsfjár yfirleitt með ríkis- eða bankaábyrgðum til að setja á stofn framleiðslufyrirtæki hér á landi. Í mínum huga eigum við að reyna á sem flestum sviðum að eiga fyrirtækin ein, en stundum kann að vera okkar hagur að um samstarfsverkefni sé að ræða. Þá tek ég fram að mér finnst koma fyllilega til greina að Íslendingar eigi jafnframt í fyrirtækjum sem starfa annars staðar, ekki síst ef um er að ræða fyrirtæki sem kunna skil á tækniþekkingu og markaðsþekkingu.

Hv. 7. þm. Reykv. gat nokkuð um Norðurlandasamstarf á þessu sviði og sagði frá skýrslu sem gefin hefur verið út og heitir Industrisamarbete och direkta investeringar. Það er rétt að sú skýrsla kom út snemma á þessu ári. Fjármálaráðherrar og iðnaðarráðherrar Norðurlandaþjóðanna hafa tekið afstöðu til skýrslunnar og undirstrika það, sem er meginniðurstaða skýrslunnar, að Norðurlandaþjóðirnar og ráðherrarnir munu beita sér fyrir því að einfalda löggjöfina og greiða fyrir því að fjárfestingar geti gengið yfir landamærin. Þetta kemur ekkert á óvart. Það er einmitt þetta sem er að gerast í öllum löndum í kringum okkur innan EFTA. Þetta var rætt á fundum OECD. Þetta er talinn vera meginstyrkur Evrópubandalagsins sem er að verða einn mikilvægasti markaður okkar. Auðvitað getum við ekki setið eftir í þessum efnum ef við ætlum að halda uppi lífsskilyrðum sem eru sambærileg við þau sem gerast og ganga í okkar nágranna- og viðskiptalöndum. Ég vil aðeins minna á það að í ýmsum löndum í þriðja heiminum gerðist það á ákveðnu tímabili að heimamenn lögðu mest upp úr því að reka útlendinga og fjölþjóðafyrirtæki af höndum sér og óskuðu eftir því í nafni þjóðernishyggju að ráða fyrir þessum fyrirtækjum sem yfirleitt voru fyrirtæki á sviði frumframleiðslunnar. Fjölþjóðafyrirtækin drógu sig þess vegna út úr þessari starfsemi en byggðu afkomu sína fyrst og fremst á tækniþekkingunni og markaðsfærslunni sem þeir síðan seldu þessum fyrirtækjum. Þetta varð til þess að miklu minna af þeim ágóða, sem þó gat verið fyrir hendi, lenti í höndum þessara ríkja og flest þessara ríkja eða a.m.k. mörg hver hafa nú séð að sér í þessum efnum og efna til samstarfs sem auðvitað hlýtur að byggjast á gagnkvæmum hag, annars vegar heimaríkisins og hins vegar þeirra fyrirtækja sem öðrum fremur hafa sérhæft sig í markaðsfærslu eða hafa yfir að ráða góðri tækniþekkingu. Aðeins með slíku samstarfi getum við vænst þess, hér á landi eins og alls staðar annars staðar, að við verðum þátttakendur í því að bæta lífskjörin, og ég býst við því að hv. stjórnarandstæðingar, þeir þm. sem hér töluðu, geti tekið undir þau orð að full ástæða sé til að halda áfram að bæta lífskjör hér á landi.

Í þessari skýrslu, sem hv. 7. þm. Reykv. gat um, er sem sagt mjög skýrt kveðið á um hver stefnan sé hjá ráðherrunum — hvort sem það eru menn sem eru sósíaldemókratar og verða innan tíðar nokkurs konar flokksbræður hv. 7. þm. Reykv. þegar hann er búinn að lemja í gegnum landsþingið hjá sér breytingum á stefnunni. En það vita allir að hann hefur nú tekið sinnaskiptum. Einn morguninn vaknaði hann upp við það að hann var orðinn krati, þannig að hann getur þá, ef það huggar hann eitthvað í þessu efni, áttað sig á því að sósíaldemókratarnir í Noregi og Svíþjóð, þ.e. hinir sósíaldemókratarnir, eru sammála þessu, sammála íhaldsmönnunum. Og kannski fer það svo eftir nokkurra nátta svefn að hv. 7. þm. Reykv., Svavar Gestsson, fer alla leið. Og auðvitað er alltaf gaman að því þegar mönnum fer fram. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Kallarðu það framfarir?) Ég kalla það framfarir þegar hv. þm. tekur sinnaskiptum. Ég læt hinni spurningunni ósvarað.

Það sem hins vegar gerðist á fundi í Osló fyrir rúmri viku síðan var að þetta sjónarmið var enn endurnýjað og á það var lögð mikil áhersla að áfram yrði unnið að því á grundvelli löggjafar hvers lands fyrir sig að gera hana einfaldari og greiða fyrir því að fjármagn geti farið þannig á milli landa. Þetta mál mun örugglega verða tekið upp á Norðurlandaráðsfundinum í Osló sem haldinn verður í mars nk. og ég skora á hv. þm. að fylgjast vel með þeim umræðum sem þá fara þar fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu öllu lengri. Ég tel að öll aðalatriði málsins hafi komið fram. Þetta er aðeins lítill hluti þess máls sem hér hefur verið rætt um og ég bið hv. þm. að greiða götu þessa máls. Almennar umræður um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi geta menn geymt sér því að frumvörp þar að lútandi hljóta að koma inn á þingið eftir nokkra mánuði og þá geta menn skemmt sér við langar ræður.