03.03.1988
Sameinað þing: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5425 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Frsm. atvmn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 620 frá atvmn. um till. til þál. um úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu:

„Nefndin hefur rætt tillöguna á fundum sínum og kallað til viðræðu fulltrúa frá Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns, Rafmagnsveitum ríkisins og Orkustofnun.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela iðnrh. að gera ráðstafanir til úrbóta í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu.“ Undir nál. rita Valgerður Sverrisdóttir, formaður, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, fundaskrifari, Eggert Haukdal, Guðmundur H. Garðarsson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Geir Gunnarsson.

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi fram varðandi þetta mál að þarna er sérstaklega átt við Þistilfjörð og Þórshöfn og svæðið þar í kring, þ.e. austan Öxarfjarðarheiðar. Á síðasta ári var lokið við 66 kw. línu frá Laxárvirkjun að Kópaskeri sem var mikilvæg og nauðsynleg framkvæmd og íbúum á því svæði, þ.e. vestan Öxarfjarðarheiðar, mikils virði hvað afhendingaröryggi snertir og full ástæða til að nefna líka það sem vel er gert.