03.03.1988
Sameinað þing: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5427 í B-deild Alþingistíðinda. (3634)

265. mál, launabætur

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Þetta mál var á dagskrá síðasta fundar Sþ. og flutti þá 1. flm., hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, framsögu um þetta mál. Ég er 2. flm. þessarar till. og vil leyfa mér að svara þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á tillöguna frá Kristínu Halldórsdóttur hv. 10. þm. Reykn.

Ég átti von á að sá flokkur sem hún starfar fyrir, Kvennalistinn, mundi fagna þessari till. á þeim forsendum að kjör hinna lægst launuðu hafa verið fyrir borð borin og sérstaklega við gerð síðustu kjarasamninga, en við fengum ekki þann stuðning sem við bjuggumst við úr þeirri átt og harma ég það mjög.

Í málflutningi hv. þm. kom ýmislegt fram og þá sérstaklega að þessi tillaga feli í sér uppgjöf, uppgjöf að því leyti til að við viljum að ríkisvaldið komi inn í og greiði fyrir fólk sem á lágum launum er styrk því til framfæris. Ég er ekki sammála því að þarna sé um uppgjöf að ræða heldur er skylda þjóðfélagsins að styðja við bakið á þeim sem lægst hafa launin og sem geta ekki bjargað sér í þjóðfélaginu. Nákvæmlega sama er með þetta og almannatryggingar og fleira, að það fólk sem nýtur almannatryggingabóta getur ekki séð fyrir sér og þess vegna kemur ríkisvaldið inn í. Í þessu tilviki er ekki um slíkt að ræða heldur að það er vinnandi fólk sem þarna á í hlut, en aðstæðurnar í þjóðfélaginu eru þannig að það getur ekki lifað af þeim launum sem það vinnur fyrir.

Að vísu er ég alveg sammála hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur í því að auðvitað eiga þessar greiðslur að koma frá atvinnurekandanum en ekki ríkinu. En því miður eru aðstæður þannig nú að verkalýðshreyfingunni hefur ekki tekist að koma því þannig fyrir að laun yrðu hækkuð meira en raun ber vitni og tekur tillit til þeirra greina sem verst eru staddar, fiskvinnslunnar í landinu, við sína viðmiðun.

Þá vaknar sú spurning: Hvað á að gera svo að þetta fólk hafi til hnífs og skeiðar? Við svo búið verður ekki unað. Að greiða til baka frá ríkisvaldinu er ein lausn og sú lausn sem liggur beinast við í okkar huga, þm. Borgarafl. Í fyrsta lagi að færa upp skattleysismörk og síðan að borga óráðstafaðan persónufrádrátt til baka. Ég held að þetta kerfi sé mjög hentugt og leiði til þess að þeir sem á lægstu laununum eru fái lifað og verði jafnframt hvati á ríkisvaldið til að þrýsta á um að lægstu tekjur hækki og þrýsti þannig á atvinnureksturinn.

Það sem þessi till. felur í sér er ekki að þetta þurfi að vera til eilífðarnóns, en vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru teljum við þetta vera rétt.

Það kom fram í máli hv. þm. að það hljóti að vera krafa að fólk geti haft ofan í sig af átta stunda vinnudegi. Ég er alveg sammála því að það hlýtur að vera okkar markmið þegar til lengri tíma er litið, en það eru ekki þau teikn á lofti að svo geti verið. Að lögleiða lágmarkslaun tel ég ekki vera þá lausn sem dugar því staðan er þannig, miðað við það sem maður sér og heyrir og finnur, að ýmsar greinar útflutningsatvinnuveganna eru ekki í stakk búnar til að greiða hærri laun en því miður nú á sér stað. Hækkum við launin upp í 40 þús. eða 50 þús., sem æskilegt væri, mundi það kippa stoðunum undan þessum atvinnurekstri. Að sjálfsögðu má gera þá kröfu til ríkisvaldsins að það búi þannig um hnútana að þessum útflutningsatvinnugreinum verði sköpuð rekstrarskilyrði og þær geti borið upp þessar tekjur, en þá þarf að verða stefnubreyting af hálfu ríkisvaldsins.

Það sem ég vildi bæta við er það að núna eru atvinnugreinar mjög missterkar til að bera uppi laun og sumar greinar, bæði í verslun og þjónustu, geta borið miklu hærri laun en aðrar og þá sérstaklega útflutningsatvinnuvegirnir og svo samkeppnisiðnaðurinn. Þarna skapast visst ójafnvægi á milli og væri æskilegt að breyta þessu þannig að peningar séu fluttir milli þessara greina. Mundi ég telja mjög æskilegt að ríkisvaldið tæki frá þessum þáttum, sem betur eru settir og sem grasserað hafa á undanförnum árum, og færði yfir til hinna svo að hækka mætti laun. En um það er ekki að ræða hér heldur er það sem þessi till. gegnir út á það að almennt verði skattleysismörk hækkuð og ónýttur persónufrádráttur greiddur til baka.

Ég held að þetta sé, eins og fram kom í máli hv. 1. flm., eina raunhæfa tillagan sem fram hefur komið á þessu þingi til að bæta kjör hinna lægst launuðu og í svipinn sé ég ekki hvernig það ætti að gerast með öðrum hætti.