03.03.1988
Sameinað þing: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5431 í B-deild Alþingistíðinda. (3636)

265. mál, launabætur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hlustaði ekki á sumar þessar ræður. Ég var orðinn svangur, það verður að segja hlutina eins og þeir eru, og veit því ekki hver sagði hvað. En það hljóta allir að skilja að 31 500 kr. á mánuði, miðað við þá dýrtíð sem er í landinu, er ekki bjóðandi neinum. Það er á hreinu. Og þegar blasir við að allar líkur a.m.k. benda til þess að víða sé minnkandi atvinna þannig að það eru minni líkur en hefur verið til þess að fólk geti bætt laun sín með yfirvinnu, hvað er þá til ráða? Er það ekki alveg þrautreynt að með samningum næst þetta ekki vegna þess, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að það fer upp allan launastigann og það bara breikkar bilið?

Ef hv. þm. telja sig ekki geta farið þá leið sem þáltill. segir fyrir um verða hinir sömu að benda á aðra færa leið, að mínu mati, vegna þess að þetta er þing og þjóð til vansa. Maður er að heyra að þriggja herbergja íbúð sé á bilinu 27 og upp yfir 30 þús. á mánuði, leigukjörin á henni, og það sé ekki hægt að fá hana fyrir minna. Hvernig á þetta fólk að komast af? En á sama tíma er stór hluti af þjóðinni á mjög góðum launum. Mismunurinn er vaxandi ár frá ári. Og svo eru hv. þm., hverjir sem það hafa verið, en ég heyrði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, 1. flm. þessarar till., að segja: Það er verið að gefast upp. - Ég held að það sé verið að gefast upp ef menn ekki gera eitthvað í málinu. Þá eru menn að gefast upp.

Ég held að það væri ráð, ef það er ekki hægt að fá samstöðu um eitthvað svona, og ég er ekki að segja að þetta sé eina leiðin, alls ekki, að menn tækju sig saman og ræddu málin og reyndu að finna leið út úr þessum ógöngum. Þetta eru ógöngur. Þetta er okkur til skammar. Það er verið að borga sumum yfirvinnu sem er hér um bil eins mikil og þessir samningar hljóða upp á, það vitum við, kannski meira. Og síðan er lágtekjufólkinu boðið upp á þessi laun. Krónutöluna í sjálfu sér þýðir ekkert að horfa á heldur hvað er hægt að fá fyrir þessar krónur.

Ég veit að það er neyð t.d. að setja lög um að lágmarkslaun eigi að vera svona og svona. Það var gert t.d. í Bandaríkjunum og sjálfsagt víðar. En hvað á að gera? Er það leið? Geta menn komið sér saman um það? Ég vil auglýsa eftir því hér og nú að hv. þm. ræði þessa tillögu á þeim nótum að þeir bendi á einhverjar lausnir í málinu og síðan verði rætt hvað er hægt að koma sér saman um í þessu máli.