02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

60. mál, iðnaðarlög

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þær skýringar sem hann gaf í framhaldi af ræðum okkar hv. 6. þm. Reykv. og mín hér áðan, en vil engu að síður leyfa mér að fara nokkrum orðum um svör hans.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að hæstv. ráðherra umgangist þetta mál með nokkurri léttúð. Þó að hann geti vafalaust gefið yfirlýsingar fyrir sína hönd þá er það nú þannig að ekki eru verulegar líkur á því að hann verði iðnrh. um alla framtíð. Á því gætu orðið uppstyttur. Og jafnvel þó að hann hyggist fara vel með þetta vald, sem hér er verið að nefna, þá er ekki þar með sagt að það verði ævinlega svo. Hættan er auðvitað sú að þó að menn séu aðeins að tala um örfá fyrirtæki í dag, þá er í raun verið að opna fyrir stórfljót sem varla verði við ráðið, jafnvel þó að varkár iðnrh. ætti í hlut.

Fyrir allmörgum árum kom hér til umræðu frv. til l. um staðfestingu á samningum Íslands og Swiss Aluminium. Þar var lögð á það áhersla, bæði af Framsfl, og Alþb., að sá samningur yrði ekki að lögum nema að undangengnu þjóðaratkvæði vegna þess að hér væri svo stórt mál á ferðinni, stórt grundvallarmál, sem gæti opnað fyrir erlenda eignaraðild að fyrirtækjum hér í stórum stíl á þeim árum sem þá fóru í hönd. Því var svarað af talsmönnum Sjálfstfl. og Alþfl. á þeim tíma að hér væri um að ræða eitt einstakt mál sem hefði ekkert með að gera atvinnurekstur útlendinga á Íslandi að öðru leyti.

Auðvitað fór það engu að síður svo að í kjölfar þessara laga hafa verið samþykkt margvísleg lög á undanförnum árum sem hafa opnað útlendingum leið að íslenskum atvinnurekstri og fjármálalífi. Nýjasta dæmið í þeim efnum eru lögin um Útvegsbankann, sem voru samþykkt hér á síðasta þingi, og í lögunum um viðskiptabanka er sá möguleiki fyrir hendi að útlendingar geti verið þar minnihlutaaðilar að uppfylltum vissum skilyrðum.

Ég tel að þetta frv., sem hæstv. iðnrh. mælir fyrir, sé á sömu braut. Það er verið að opna fyrir það í stórauknum mæli, ef svo verkast vill, að útlendingar eigi hér aðild að fyrirtækjum og ég tel það misráðið og skammsýni að vera að opna lögin í svo veigamiklum mæli, jafnvel þó að fyrirtæki eins og Lýsi hf. eigi í hlut. Ég tel að á slíkum málum eigi að taka með sérstökum hætti þegar þau berast stjórnvöldum, en ekki eigi að brjóta niður löggjöfina með þeim hætti sem hér er verið að gera ráð fyrir.

Í öðru lagi er alveg ljóst að ef álhringur vildi setja niður fyrirtæki hér á landi og sættir sig við það verð á raforku og skattafyrirkomulag sem hér er að öðru leyti, óskaði með öðrum orðum ekki eftir sérlögum um sína starfsemi af neinu tagi, þá gæti iðnrh. skv. þessu frv. opnað fyrir slíka starfsemi jafnvel stóriðjuaðila hér á landi. Það er alveg ljóst. Iðnrh., sem væri tillitslaus við þingið og teldi brýnt að ná þessu máli fram, gæti á grundvelli þessara litlu lagabreytinga í rauninni sagt sem svo: „Setjið niður stóriðjuver hér á landi“, vegna þess að lögin um iðnað frá 1978 segja:

„Lög þessi taka til rekstrar hvers konar iðnaðar í atvinnuskyni. Til iðnaðar telst bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður, hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki sem notuð eru og hvaða vörur eða efni sem framleidd eru.“ Þetta er alveg ótvírætt.

Ég tel þess vegna að hér sé um að ræða miklu stærra mál en hæstv. iðnrh. vill vera láta. Hér er tillaga um valdaframsal Alþingis. Valdaframsal Alþingis til framkvæmdarvaldsins. Og það er ekki nýtt í tíð þessarar ríkisstjórnar sem heldur áfram á sömu braut og sú fyrri í þessum efnum. Fyrri stjórn ákvað að menn mættu ekki veiða fisk öðruvísi en að spyrja um leyfi með sérstökum hætti. Fyrri stjórn setti skriffinnskureglur í landbúnaði sem eiga engan sinn líka í samanlagðri skriffinnskusögu Íslendinga og er þá langt til jafnað. Núna er lagt til að iðnrh. eigin hendi geti, án þess að spyrja þingið, ákveðið hvaða erlend fyrirtæki koma hér við sögu í iðnaðarrekstri á Íslandi. Ég tel að hér sé uppi tillaga um valdaframsal Alþingis til framkvæmdarvaldsins þó að þetta frv. láti lítið yfir sér. Og ég skora á hv. þm. stjórnarliðsins sem hér eru að íhuga mjög vel þau grundvallaratriði okkar atvinnu- og efnahagsmálaskipunar sem þetta frv. snertir. Það getur vel verið að ástandið sé orðið þannig í stjórnarflokkunum að menn hendi frá sér svona frumvörpum rétt eins og að drekka úr vatnsglasi, án þess að velta því fyrir sér hvaða rök liggi þar á bak við, án þess að athuga um leið að þetta snertir allt atvinnulífið í landinu eins og það leggur sig. Það getur vel verið að hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni og Halldóri Blöndal þyki það allt í besta lagi að iðnrh. fái að vaða inn með frv. af þessu tagi, frv. sem lítur sakleysislega út, án þess t.d. að velta því fyrir sér hvaða áhrif svona frv. í framkvæmd, ef að lögum verður, gæti haft fyrir atvinnulíf, segjum á Suðurnesjum eða í Norðurlandskjördæmi eystra. Ég held að það væri fróðlegt fyrir þessa menn að reyna að setja frv. eins og þetta í eitthvert almennt samhengi við atvinnuþróun og atvinnulíf í landinu. En ég mótmæli, herra forseti, þessari tillögu um valdaframsal sem hér er á ferðinni.

Í þriðja lagi, herra forseti, var það einkar athyglisvert sem hæstv. iðnrh. sagði, að lagasetningin 1978 hafi verið mistök. Hverjir ætli hafi nú staðið aðallega að þessari lagasetningu 1978? Það er náttúrlega hæstv. þáv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen. Það er nefnd manna úr iðnaði, atvinnurekstri og fulltrúar verkafólks einnig, Björgvin Frederiksen, Páll S. Pálsson, fulltrúi Félags ísi. iðnrekenda, Sigurður Kristinsson samkvæmt tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, Axel Gíslason samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga, Guðmundur Þ. Jónsson samkvæmt tilnefningu Landssambands iðnverkafólks, Sigurður Guðgeirsson samkvæmt tilnefningu ASÍ. Voru þessir menn — og Alþingi með samhljóða atkvæðum — að samþykkja mistök vorið 1978? Ég tel að það sé mjög eðlilegt að núv. forusta Sjálfstfl. fari yfir ýmsa þætti er varða sögu þess flokks. En að slá því föstu að allur þessi hópur, allur hópurinn hafi samhljóða atkvæðum haft rangt fyrir sér og gert tóma vitleysu vorið 1978, það er of stór biti í senn — jafnvel fyrir varaformann Sjálfstfl.

Herra forseti. Ég kann vel að meta hæstv. iðnrh. En ég segi það alveg eins og er að ég tek undir það sem fram kemur í svipnum á hv. þm. Halldór Blöndal sem var þetta: Það getur verið að hann hafi meiri yfirsýn, eða hitt þó heldur. (Gripið fram í: Þetta voru nú viðbrögð þm.) Þetta var að vísu túlkun á því sem mér sýndist á hv. þm. sem hafði gaman af því að velta þessu fyrir sér og bera saman annars vegar hæstv. iðnrh. og hins vegar þessa snillinga úr forustu atvinnulífs Sjálfstfl. á undanförnum árum og áratugum. Ég hygg að segja megi að ástæða sé til að draga það í efa að hæstv. iðnrh. geti á einu bretti sagt að þeir hafi verið að gera tóma vitleysu. Og ég hygg að hæstv. iðnrh. sjái það sjálfur þegar hann hugsar málið.

Í fjórða lagi kom það fram í ræðu hæstv. iðnrh. að hann teldi að þetta ákvæði væri einkar saklaust vegna þess að sams konar ákvæði hefði verið í lögum 1921–1971. Þá hefði það nú ekki valdið neinum óskunda. Út af fyrir sig er það allt rétt. En síðan hefur margt breyst. Síðan hefur það verið að gerast að fjármagnstilflutningar á milli landa eru miklu opnari núna en þeir voru á þessum árum þannig að

það er fullkomin fjarstæða að bera saman þessa hálfu öld, 1921–1971, við þann tíma sem við búum á í dag. Um þetta vitna óyggjandi tölur sem ég ætla að nefna, með leyfi hæstv. forseta.

Talið er að erlend fjárfesting í heiminum hafi einmitt árið 1971 verið 160 milljarðar bandaríkjadala, en sambærileg tala fyrir árið 1984 hafi verið 600 milljarðar bandaríkjadala. Hér er m.ö.o. um að ræða fjórföldun á þessu 15 ára tímabili. Þessi vöxtur í erlendri fjárfestingu á þessum 15 árum er miklu hraðari en vöxtur þjóðarframleiðslu á áttunda áratugnum í aðildarríkjum OECD. Miklu hraðari vöxtur í þessari erlendu fjárfestingu. Uppspretta þessa erlenda fjármagns er nær ölI í aðildarríkjum OECD. Stærsti hlutinn kemur frá Bandaríkjunum eða um 40% af þessum 600 milljörðum bandaríkjadala. Frá Bretlandi koma tæp 12% og talið er að samanlagt nemi hlutdeild sex annarra ríkja um 40% af beinni erlendri fjárfestingu. Þessi ríki eru Vestur-Þýskaland, Japan, Sviss, Holland, Kanada og Frakkland.

Einnig hefur verið kannað til hvaða ríkja þetta fé rennur og þá kemur í ljós að 3/4 hlutar þess fara til iðnríkja Vesturlanda og að langstærstum hluta til Bandaríkjanna. Aðeins fjórðungur fjárins fer til svokallaðra þróunarríkja og á síðustu árum hefur hlutfallið raskast mjög þróunarríkjunum í óhag og erlendri fjárfestingu hefur í auknum mæli verið beint til aðildarríkja EBE eða Evrópubandalagsins og Bandaríkja Norður-Ameríku.

Hverjir eru eigendur þessa fjármagns? Að langstærstum hluta svokölluð fjölþjóðafyrirtæki og er fjárfesting þeirra að 1/4 hluta í vinnslu ýmiss konar jarðefna, annar fjórðungur fjárfestingar þessara fyrirtækja fer til bankatrygginga og annarrar þjónustustarfsemi, en helmingurinn fer í framleiðsluiðnað. Það er sem sagt alveg ljóst að það er vaxandi hreyfing á hinu alþjóðlega fjármagni í þessum efnum og þess vegna ástæða til þess fyrir okkur að athuga mjög vel okkar gang áður en tekin er um það ákvörðun að hleypa þessu frv. í gegn sem veitir iðnrh., hver svo sem hann er, jafnmikil völd og í frv. felast.

Hæstv. iðnrh. tók þannig til orða að þetta væri að gerast í öllum löndum og ef við ætluðum að halda í við aðrar þjóðir í lífskjörum, þá yrðum við að gera eins og aðrar þjóðir. Þetta er auðvitað alveg óskapleg röksemd að hlusta á þegar þess er gætt að við erum hér annars vegar í fyrirsvari fyrir þjóð sem telur 250 þúsund manns og hins vegar erum við að tala um viðskiptasambönd, fríverslun og jafnvel frjálsa fjármagnsflutninga gagnvart löndum sem eru með mörgum sinnum fleiri íbúa, 50 millj., 100 millj., og ríkjabandalög sem hafa miklu sterkari stöðu en við. Það er engu líkara stundum, þegar þessir frjálshyggjumenn eru að tala, eins og hæstv. iðnrh. sem vill báknið burt eins og kunnugt er, en að þeir haldi að þeir búi í milljónatuga þjóðfélögum. Og af því að þetta hafi gefist vel í Hong Kong eða Vestur-Þýskalandi eða Bandaríkjunum eigi að gera nákvæmlega eins hér í þessu landi. Auðvitað er engin ástæða til þess fyrir okkur að vera með neina minnimáttarkennd gagnvart þjóðum sem telja milljónatugi en við skulum samt ekki haga okkur eins og við séum í fyrirsvari fyrir efnahagskerfi þar sem milljónatugir hafa um árabil á þróuðum, svokölluðum frjálsum markaði, tekist á um dreifingu vöru, þjónustu og framleiðslu lífsgæða. Það er algjör fjarstæða að ætla sér að setja þarna jafnaðarmerki á milli.

Ég vara þess vegna mjög eindregið, herra forseti, við þessu frv. Ég verð ekki í þinginu næstu daga þannig að ég mun ekki fjalla um þetta sérstaklega sjálfur fyrir hönd míns flokks en ég vænti þess að frv. verði hér um nokkurt skeið, því verði tryggð vönduð meðferð. Ég er sannfærður um að þingdeildarmenn vilja allir leggja sig fram um það. A.m.k. vil ég segja við hæstv. iðnrh. af minni hálfu: Mér dytti ekki í hug að flýta mér að afgreiða frv. jafnvel þótt ég fengi beiðni um það frá Lýsi hf.