03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5478 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það má segja að hér á Alþingi Íslendinga ríki nokkuð óvenjulegt ástand. Til umræðu er frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum en jafnframt yfirlýst að þessar aðgerðir eru vegna rekstrarstöðu grundvallaratvinnuvega okkar, þeirra sem tilvera þessarar þjóðar og útflutningur okkar til útlanda grundvallast á.

Í fyrsta lagi sýnist mér sem núv. ríkisstjórn taki þessi mál ekki nægilega alvarlega. Mér vitanlega er ekki sú stríðshætta þessa stundina í heiminum að það geti verið brýnna hjá forsrh. að vera staddur úti í Evrópu en að vera hér heima og sinna þeim verkum sem honum ber skylda til. Þegar ég segi þetta undirstrika ég það einnig að mér hefði ekki þótt óeðlilegt þó að ráðherrar Framsfl. væru hér einnig við í kvöld.

Það sæmir ekki að skamma þann ráðherrann, hæstv. fjmrh., sem talar fyrir málinu og heldur uppi málsvörn. Það væri svona álíka og ef prestur færi að skamma viðstadda fyrir lélega kirkjusókn.

Fram kom hjá hæstv. fjmrh. að efnahagsaðgerðir þyrfti að gera í tíma en það gengi illa ef þær væru gerðar of seint og þessar efnahagsaðgerðir eru gerðar of seint. Það er það fyrsta. Efnahagsaðgerðirnar þurftu að koma í nóvember í haust eða október. Það er liðin tíð að nokkur geti leikið þann leik að blekkja þessa þjóð um það hvenær gjaldeyririnn er seldur nálægt sannvirði og hvenær hann er seldur undir sannvirði. Það er búið að skapa óeðlilegt útstreymi á gjaldeyri allan þennan tíma.

Þá langar mig að vekja athygli á örfáum grundvallaratriðum. Aðalatriði hverrar ríkisstjórnar hlýtur að vera að hafa heildaryfirsýn yfir það sem hún er að gera og hér hefur þessa heildaryfirsýn því miður skort. Viðskiptahallinn á seinasta ári var 7 milljarðar. Hér tala menn um það að þetta sé fyrsta skrefið og að menn séu að hamla á móti viðskiptahalla við útlönd. Orðalagið að hamla er úr sjómannamáli og þá gjarnan um það að menn eru að róa skipinu aftur á bak og það sýnist mér ekki skila því sem um er að ræða.

Nú er spáin hjá Þjóðhagsstofnun að viðskiptahallinn verði 8–10 milljarðar. Það er svona álíka tala og tekjurnar af öllum saltfiski sem við seldum á seinasta ári. Ég tel að viðskiptahalli við útlönd sé smáþjóð meiri hætta en nokkuð annað og að reka grundvallaratvinnuvegi í þeirri gjaldeyrisöflun sem er frystingin á Bandaríkjamarkað með halla er hrein og klár ævintýramennska, að bjóða braskaraliði höfuðborgarsvæðisins upp á það að lána fjármagn með okurvöxtum en stilla þeim sem hafa sett fjármuni í undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar upp við vegg og ætlast til þess að þeir horfi upp á það að vera þjóðnýttir aftan frá, þ.e. látnir reka fyrirtækin þar til þau verða gjaldþrota. Gamla þjóðnýtingaraðferðin var þó mun heiðarlegri, að taka eignirnar og greiða fyrir þær. Ég er ekki búinn að átta mig á því til fulls hvort um óvitaskap eða vísvitandi stefnu er að ræða í þessum efnum. Í haust buðu hagfræðingar og viðskiptafræðingar þingmönnum á fund á Hótel Sögu þar sem rædd var staða þessara mála. Þar var m.a. staddur hv. 2. þm. Norðurl. v., sá sem hér situr í salnum í kvöld, og fullyrti þá að gengi íslensku krónunnar væri haldið uppi með handafli og það mátti heyra það á hans málflutningi að hann efaði mjög styrkleika þeirrar handar sem hélt genginu uppi. Efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar boðaði það aftur á móti að þessi stefna hlyti óhjákvæmilega að leiða til þess að veikustu fyrirtæki landsbyggðarinnar færu á höfuðið og afleiðingin yrði visst atvinnuleysi úti á landi. Þetta segi ég hér vegna þess að þetta bendir eindregið til þess að mönnum hafi verið fullkomlega ljóst hvert stefndi og hér væri ekki um óvitaskap að ræða, heldur væri þetta hin blákalda stefna sem fyrir þeim vekti.

Ég sá það í Morgunblaðinu í gær, að ég hygg, að vaxtakjör Landsvirkjunar hafi verið mínus 8% á því fjármagni sem hún hefur á vöxtum væri miðað við vísitölutrygginguna sem er á innlendu fé og árið 1987 lagt til viðmiðunar. Það er nánast óþolandi að horfa á það ár eftir ár að seðlabankastjóri Íslands, Jóhannes Nordal, sitji annars vegar í stjórn Landsvirkjunar og hagi þannig málum í vaxtakjörum þess fyrirtækis að það býr við allt önnur kjör en aðrir í þessu þjóðfélagi varðandi vaxtagreiðslur. Ef þetta væri hugsað út frá því hvað húsbyggjendur væru að greiða hefðu þeir raunverulega á seinasta ári verið aðgreiða 111/2% í vexti, þ.e. 31/2% ofan á þessi 8.

Ég hygg að það sé líka nánast einsdæmi að mönnum detti það í hug að selja orku án þess að hafa þá orkusölu í neinum takt við þróun í heiminum á hverjum tíma. Svo er komið að verðið á raforkunni til upphitunar er orðið það hátt að það borgar sig að kynda með olíu. Það er fyrst og fremst spurning um þjóðhollustu manna hvort þeir kúpla yfir í olíuna, einn, tveir og þrír, vegna þess að alþýðu Íslands blöskrar það að menn láti sér detta það í hug að það eigi að standa þannig að þessari sölu að raforkan sem offramboð er af á Íslandi sé verðlögð svo hátt að það sé hagkvæmara fyrir einstaklingana að nota olíu. Á þessu máli er á engan hátt tekið í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Ég tel því miður að allur trúverðugleiki að þetta dugi til þess að skapa hér eðlilegt ástand sé ekki til staðar. Ég tel að sú gengisfelling sem framkvæmd er skapi enn væntingar á þann veg að menn telji að gengið verði aftur fellt og ástæðan er sú að menn vita að frystingin verður rekin með tapi.

Þá er rétt að víkja að því hvort einhver teikn séu á lofti um það að fyrirsjáanlegt sé að hækkanir verði á erlendum mörkuðum á fiskafurðum Íslendinga. Mér er ekki kunnugt um að svo sé. Aftur á móti blasa ýmsir hlutir við sem benda til þess að það gæti verið að snúast á verri veginn. Þar vil ég geta þess að sá fiskur sem frystitogararnir íslensku hafa unnið og flutt til Bretlands er nú í verulegum birgðum í Bretlandi vegna þess að framleiðslan hefur verið miklu meiri en salan þar. Séu einhverjir hér inni sem haldi þess vegna að það sé hægt að leggja niður frystihúsin í landinu og taka bara upp frystitogara er það alger blekking. Það væri þá til þess eins að safna fiski upp í óseljanlegum birgðum í Bretlandi.

Ég gat þess hér í upphafi að ég teldi ekki sanngjarnt að ráðast á hæstv. fjmrh. í þessu máli því að hvað sem sagt verður um hans störf blasir það þó við sem staðreynd í þessari ríkisstjórn að hann hefur tekið á sig verulegar óvinsældir til að stuðla að því að ríkissjóður Íslands yrði rekinn hallalaust. Ég tel að það hljóti að vera virðingarvert ef ráðherrar hafa þrek til að haga þann veg störfum að þeir spyrji ekki að því hvort það sé vinsælt heldur hvort það sé nauðsynlegt. En því segi ég þetta hér og nú að mér finnst að heildarstefnan sem kemur fram í frv. sé ekki á þann veg að menn séu reiðubúnir að axla þá ábyrgð að gera það sem nauðsynlegt er. Þeir láti hrekjast í þeim straumum sem eru í mannlífi á Íslandi í dag.

Ég vil bæta þessu við: Það er mín skoðun að í gegnum tíðina hafi oftast nær verið auðveldara að stjórna Íslendingum þegar á móti blés en þegar byr var góður. Þess vegna tel ég að það hafi verið enn þá meiri skyssa að hafa ekki haft vit á að gefa íslenskri þjóð viðvörunarmerkin strax í haust þegar það blasti við að góðærið var búið.

Þá vil ég víkja að einu atriði þessa frv. sem ég hygg að verði til að ræna verulega því trausti sem sveitarfélög hafa á því að semja við ríkisvaldið. Meðan ríkisvaldið leikur þann leik að taka einhliða ákvarðanir um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga blasir við að sveitarstjórnarmenn muni ekki hafa traust á að taka við verkefnum út á tekjur í Jöfnunarsjóðnum. Þarna verða menn að temja sér vissar siðareglur. Auðvitað er valdið þingsins og ríkisstjórnarinnar, en engu að síður hygg ég að hver einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi hafi boðað að það ætti að gera sveitarfélögin sjálfstæðari og við gerum þau ekki sjálfstæðari meðan við leikum okkur að því að færa til fjármuni einn daginn inn í Jöfnunarsjóðinn og annan daginn út úr Jöfnunarsjóðnum. Það skapar öryggisleysi og vonlausan grundvöll fyrir sveitarfélögin til að starfa eftir.

Hins vegar blasir við í dag jafnframt að fjárhagsleg staða sveitarfélaganna á Íslandi er orðin mjög misjöfn. Hún er svo misjöfn að sum sveitarfélögin hafa fjármuni til að ráðast í það sem við getum kallað óskaverkefni sín. Önnur sveitarfélög ráða ekki við brýnustu verkefni sem þeim ber að sinna. Þess vegna hygg ég að undan því verði ekki vikist að setjast niður og skoða í grunn tekjustofna sveitarfélaga með það fyrir augum að ná þar meira samræmi á milli þeirra verkefna sem ríkið ætlar sveitarfélögunum og þess tekjustofns sem þau hafa.

Ég hef hér, herra forseti, leyft mér að gagnrýna verulega það stjfrv. sem hér liggur fyrir. Það er ekki að ástæðulausu að ég geri það vegna þess að ég treysti mér ekki til að horfa upp á þá stöðu að eigið fé flestra fyrirtækja á Vestfjörðum, sem eru burðarásinn í því mannlífi sem þar er, sé rústað með því móti að sjávarútvegsfyrirtækin hafi ekki eðlilegan rekstrargrundvöll. Ég tel að sú ríkisstjórn sem nú situr þurfi alvarlega að gera sér grein fyrir að það er mat margra hennar stuðningsmanna að þori hún ekki í upphafi síns kjörtímabils að taka svo fast á málum að trúverðugt sé er ákaflega ólíklegt að þeir hinir sömu stuðningsmenn telji að kjarkurinn fari vaxandi þeim mun nær sem líður kosningum. Þetta segi ég hér og nú vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur ærinn meiri hluta á Alþingi og hún getur ekki afsakað sig á nokkurn hátt með því að halda því fram að það sé stjórnarandstöðunni að kenna á einn eða neinn hátt ef mál þróast á annan veg.

Ég tel að það skref sem hér er stigið sé kannski í mörgum atriðum óumflýjanlegt og í rétta átt. En spurningin er sú, ef það er vindur á móti og þú ert að hamla og bátinn hrekur enn: Er þá ekki heildarniðurstaðan sú að hlutirnir séu heldur að þróast á verri veginn? Hefur reynslan verið sú af spám Þjóðhagsstofnunar að það sé algengt að þeir hafi spáð minni viðskiptahalla en raunin hafi orðið á? Þess finnast dæmi að svo hafi verið. En meginreglan er hin.