03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5481 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér erum við enn einu sinni til að tala um efnahagsmál. Við þurfum ekki að rekja það að fyrir jólin og í kringum áramótin var rætt mikið um efnahagsmál. Þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin ætlar að gera nú lá ljóst fyrir að þyrfti að gera þegar sl. haust. Í umræðum utan dagskrár 15. okt. sl. sagði ég m.a.: „Það er ljóst að mikill innflutningur þessa árs mun knýja fram gengisfellingu innan fárra mánaða. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki litið.“

Það var ljóst þegar sl. haust að fram hjá gengisfellingu yrði ekki komist. Gengisfelling síðasta haust upp á 5% hefði þýtt að þau mál hefðu verið í jafnvægi í dag.

Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur valið sér og kallað fastgengisstefnu er raunverulega tómt rugl. Hún stóðst aldrei og það kemur fram núna að nú er aðeins verið að lappa upp á hlutina því að gengið var löngu fallið. Það kom hér margoft fram í umræðum síðan í haust að svo var.

Í umræðum 22. des. sl. sagði ég m.a.: „Nú horfir illa við því raungengi krónunnar er mjög óhagstætt útflutnings- og samkeppnisgreinunum. Það er mjög alvarlegt að þjarma að þessum greinum og svo gæti farið að framleiðsla útflutnings- og samkeppnisgreinanna skerðist varanlega með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Og hvað gerir hún þá?"

Ég hef aðeins vitnað í tvö dæmi. Það lá opið fyrir öllum að þetta mundi gerast. Það þurfti enga hagspekinga til að sjá það.

Við höfum undanfarin ár orðið að lúta þeim lögmálum að gengi íslensku krónunnar ræðst ekki hér innan lands einvörðungu. Það ræðst líka af utanaðkomandi aðstæðum og það sást strax sl. haust að það var svo. Þegar við skoðum hvernig málin voru sl. haust getum við litið á skjal sem Seðlabanki Íslands hefur látið gera 26. febr. sl. þar sem gerð er úttekt á samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna og breytt til jafnstöðu við árið 1979. Þar kemur í ljós að á haustdögum var þessi staða mínus 4,8% eða um 5%. Vegna þess að þá var ekki gripið til þeirra aðgerða sem þurfti er staðan nú sennilega á milli 17,5% og 13,7%.

Hæstv. efnahagsmálaráðherra er farinn af landi brott og má því ekki vera að því að taka þátt í umræðum um efnahagsmál. Það er sjálfsagt svo að hann þorir ekki að senda hæstv. utanrrh. úr landi til að tala á fundi NATO. Hann er kannski hræddur um að utanrrh. segi eitthvað annað en honum líki. En við höfum fengið að heyra hvað hæstv. fjmrh. hefur um þetta að segja og við getum verið sammála því út af fyrir sig að það sé réttmætt að grípa til ráðstafana í efnahagsmálum, en þessar ráðstafanir munu ekki duga því ef við lítum á töfluna frá Seðlabankanum liggur ljóst fyrir að í sumar eða á haustdögum verður önnur gengisfelling af því að ríkisstjórnin greip ekki í taumana strax sl. haust. Það er því engum um að kenna öðrum en ríkisstjórninni sjálfri. Og ekki er fyrir að fara að efnahagsmálin standi illa vegna þess að það séu ekki hagstæð skilyrði. Við höfum aldrei haft hærra fiskverð, lægra olíuverð og góðan afla. Forsendur fyrir því að það sé hægt að reka góða efnahagsmálastjórn eru fyrst og fremst hjá ríkisstjórninni. Hún hefur brugðist í því eins og öllu öðru.

Einn helsti ráðunautur Sjálfstfl. um efnahagsmál hefur nú tekið sæti á þingi, hv. 2. þm. Norðurl. v. Hann sagði í grein sem raunar var vitnað í hér áðan:

„Ein meginorsök hárra raunvaxta á fjármagnsmarkaði þessa dagana er að genginu er haldið uppi með handafli. Þegar verð á erlendum gjaldmiðlum er orðið svo lágt að það er ekki lengur í takt við efnahagslegar forsendur leiðir slíkt af sér gífurlega aukningu á lánsfjárþörf fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Þessi aukna lánsfjárþörf setur svo þrýsting á allan fjármagnsmarkaðinn og heldur uppi háum vöxtum.“

Herra forseti. Þetta sagði hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég held að þetta sé rétt. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er boðað að það eigi að lækka vexti. En hvaða blekking er það? Er verið að lækka vexti? Það er ekki verið að lækka vexti. Það er aðeins verið að halda nafnvöxtum innan ákveðins ramma. Raunvextir eru frjálsir eftir sem áður þannig að ekki er um vaxtabreytingu að ræða. Það er ekki nokkur vafi á að þessi blekking hefur farið ágætlega í sumt fólk í fyrstunni því að það hefur ekki séð í gegnum þetta.

Þá er komið að því að hæstv. ríkisstjórn ætlar að fella niður eða endurgreiða uppsafnaðan söluskatt. Við umræður um fjárlög í þremur umræðum komum við í stjórnarandstöðunni oft inn á þetta og bentum á að fiskvinnslan væri þannig stödd að hún ætti að fá þennan söluskatt endurgreiddan en ekki að það væri farið með það eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum. Forustumenn ríkisstjórnarinnar þóttust vita betur og aðeins rúmum tveim mánuðum síðar hafa þeir vaknað af sínum svefni. Þeir hafa uppgötvað að þeir voru að gera enn eina vitleysuna fyrir rúmum tveim mánuðum.

Þá er það launaskatturinn sem þeir lögðu á sjávarútveg og samkeppnisiðnað. Við mótmæltum þessu harðlega og við í Borgarafl. höfum staðið mjög hart gegn öllum þessum skattahækkunum sem eru hinar mestu í sögu þjóðarinnar. Fyrir tveim mánuðum var ekki aldeilis vandi í sjávarútvegi. Hæstv. fjmrh. hélt að sjávarútvegurinn gæti borið þetta. Það var ekki nokkur vandi eftir allt þetta góðæri. En núna kemur hann og játar að hann hafi ekki vitað betur en svo að þetta hafi verið rétt hjá stjórnarandstöðunni. En það var gott að hann skuli geta komið með tillögur um að breyta hlutunum í takt við það sem við í stjórnarandstöðunni sögðum fyrir rúmum tveimur mánuðum og gott til þess að vita að hann skuli þó sjá, þó að það taki tvo mánuði. Það er kannski löng leiðin þarna upp.

En kjarninn í því að þeir ætla að hjálpa sjávarútveginum er þessi. Síðan á að breyta lánum í lengri lán í sjávarútveginum. Þetta lá allt fyrir fyrir rúmum tveimur mánuðum. Það hefði eins vel verið hægt að gera það þá.

Það er svo að þær ráðstafanir sem hér liggja fyrir hefði átt að gera sl. haust eins og ég kom inn á áðan. Það er og slæmt að hér skuli ekki vera formælendur frá Sjálfstfl. Þeir eru sennilega horfnir héðan úr þingsölum yfir höfuð. Þeir forustumenn sem eiga að tala í efnahagsmálum hverfa sem mest á braut, enda mun ekki vera beint þeim að skapi sú stefna sem ríkisstjórnin þeirra er að standa fyrir, enda eru þetta einhverjar þær verstu ráðstafanir sem hafa verið gerðar í efnahagsmálum í heildina frá upphafi þessa áratugs alla vega.

Í þessum ráðstöfunum er gert ráð fyrir því að Seðlabankinn muni tryggja rekstrarvandamál þeirra fyrirtækja sem þurfa á afurðalánafyrirgreiðslu að halda. Ég kom inn á þetta í haust með fsp. til hæstv. landbrh. um þessa hluti í sambandi við afurðalánin. Hæstv. landbrh. sagði þá að þetta væri allt í góðu gengi. En það er nú undirstrikað að svo hefur ekki aldeilis verið. Afurðalánin hafa ekki verið í þeim farvegi sem sagt var. Ég fagna því þó að ríkisstjórnin skuli taka á hlutunum eins og ég benti réttilega á og Seðlabankanum falið að tryggja að bændur fái 75% af verðmætum birgða. Við sjáum að tekið er á þessum vandamálum landbúnaðarins eins og ég talaði um í umræðum um fsp. þessar og ég fagna því mjög.

Þá er ráðstöfun í sambandi við olíuverð. Það er alveg dásamleg ráðstöfun. Þeir tala um að olíuverð eigi að lækka. En skyldi ríkisstjórnin ráða olíuverðinu? Hún hefur ekkert með innkaupsverð á olíu að gera, það ræðst af heimsmarkaðsverði. Og heimsmarkaðsverðið er lækkandi þannig að þetta gæti út af fyrir sig lækkað. En ég er þó efins um að það lækki eins og hér er sagt. Ég efa það.

Í morgun var samþykkt þál., og ríkisstjórnin hefur kannski ekki tekið eftir því, þess efnis að bensín skyldi verða blýlaust. Það þýðir að bensínverð mun ekki lækka eins og hér segir. Það sem stendur hér um lækkun á bensínverði eða olíuverði mun ekki standast hvað bensínið varðar þannig að sú ráðstöfun er markleysa.

Ég hafði gaman af að lesa um að þeir sögðust ætla að beita sér fyrir setningu laga um starfsmenntun verkafólks. Mikið er það dásamlegt þó ekki sé mikið sagt. Ég veit ekki hvort þeir ætla að styrkja Menningar- og fræðslusamband alþýðu. Það má vel vera að þeir ætli að gera það til þess að verkafólk geti aflað sér starfsmenntunar. Ég held ég verði að taka undir það sem hv. 18. þm. Reykv. sagði fyrr í kvöld. Þetta kemur sennilega verkafólkinu að litlum notum. Þetta kemur því ábyggilega ekki að miklum notum. Ég hef litla trú á því. Sú litla upphæð sem á að veita í þessu skyni nær ekki langt.

Mörg þau áform sem hér eru eru á þennan hátt. Ég vil taka til umræðu þann þátt að það á að lækka útgjöld til vegamála um 125 millj. kr. Þetta er líka blekking. Það er ekki verið að lækka ríkisútgjöld um 125 millj. Vegasjóður á sitt fé. Það er bundið þar. Það á sennilega að taka 125 millj. af vegafé til að nota til einhvers annars í fjárlögum vegna þess að vegaféð er bundið. Það er verið að blekkja. Ríkissjóður er að draga sér fé.

Og þá erum við komin að þeim þætti þar sem á að lækka framlög í Byggingarsjóð ríkisins. Það hefði þótt eitthvað ef stjórnarandstaðan hefði borið fram þessa tillögu eftir öll þau ósköp sem gengu á fyrir áramótin þegar þær litlu breytingar voru gerðar á húsnæðislögunum og við vorum ásakaðir um að við værum að stoppa allt húsnæðiskerfið með því að bera fram varanlegar tillögur í þessum málum.

Við í Borgarafl. fluttum ítarlegar tillögur, bæði um breytingu á núverandi húsnæðiskerfi, um húsbanka og varanlega lausn á þessum málum, sem hefði getað leyst þá klemmu sem núverandi ríkisstjórn er í og kemur sér ekki úr. Ég vona samt að þeir eigi eftir að flytja okkar tillögur þannig að þeir komi sér út úr þessum húsnæðisvanda. Það hefði verið eitthvað sagt ef við hefðum flutt tillögu um að skerða Byggingarsjóð ríkisins um 100 millj. kr. En það er formaður Alþfl., hæstv. fjmrh., sem flytur þessa tillögu og gegn mótmælum hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur. Og mig skal ekki undra það. Það er svo að þessi tekjulækkunaráform eru eins og dropi í hafið í fjárlögum þannig að ég geri ekki ráð fyrir að ríkið hefði farið á hausinn eða ríkissjóður þó þau hefðu staðið óbreytt.

Þá er það um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem á að fresta um ár. Ég sagði í atkvæðagreiðslu þegar þetta var tekið út af dagskrá, þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu, að ég vildi þá að sá lagabálkur væri afgreiddur þá þegar, þrátt fyrir að ég væri á móti honum eins og hann væri. Það var vegna þess að ég vildi að sveitarfélögin stæðu ekki frammi fyrir því, eins og þau standa núna, að vera búin að gera fjárhagsáætlun og standa svo frammi fyrir því að sú áætlun stenst ekki vegna þess að ríkisstjórnin svíkur þau loforð sem hún er búin að gefa. En þá er það að ég mun beita mér fyrir að það verði þó a.m.k. gerð lagfæring á nokkrum liðum sem voru felldir út af því að þetta lagafrv. var ekki samþykkt. Ég minni á Íþróttasjóð þar sem ekki hefur verið gengið frá þeim skuldum sem þar eru. Ég vonast til að það standi, sem var sagt í Alþingi fyrr þegar þetta var til umræðu, að þær tölur verði samþykktar sem þar voru nefndar, ef ég man 40 millj. Einnig þætti mér ekki óhönduglegt að við stæðum að hækkun til Félagsheimilasjóðs. Þetta er nauðsynlegt tel ég í þessu sambandi og vonast til að menn geti sameinast um það.

Hér hefur einnig verið farið svo að að það á að setja gjald á erlendar lántökur og á að tvöfalda það gjald. Þetta er ágætt út af fyrir sig. En ég held að þetta bjargi engu. Það er svo ef við tökum fyrirtæki sem eru í samkeppni við erlend fyrirtæki, og ég nefni fyrirtæki eins og Flugleiðir, ég nefni fyrirtæki eins og skipafélögin okkar, þau eru í samkeppni við erlend fyrirtæki sem eru með erlent fjármagn, þar sem vextirnir eru ekki meira en þetta lántökugjald, þá erum við að vega að þessum fyrirtækjum. Við erum að vega að þeim með þessu. Ég ítreka hér að ef við þurfum að fara í flugvélakaup eða skipakaup til vöruflutninga verðum við að sjá til þess að þau fyrirtæki fái ekki lántökugjald því að það er grundvallaratriði að þau fyrirtæki geti keppt við erlend fyrirtæki á þessum sviðum. Það gera þau ekki með lántökugjaldi. Ég þykist vita að hæstv. ráðherrar hafi lítt hugað að þessu.

Ég kom inn á vextina áðan og ég ítreka að vextir hafa ekkert lækkað. Það er því alveg út í hött að leggja þetta svona fram.

Ég vil einnig nota tækifærið til að benda á að hér hefur verið skorið niður framlag til K-byggingar Landspítalans. Þetta er verkefni sem hefur verið til umræðu í sölum þingsins í fjölda ára. Ég held að þessi niðurskurður sé algerlega ótímabær. Þetta eru svo litlir fjármunir að það hefði verið alveg ástæðulaust að ráðast á þessa litlu upphæð. Ég tel að læknarnir á Landspítalanum eigi eftir að láta heyra í sér varðandi þetta. Við höfum staðið mjög framarlega undanfarin ár í rannsóknum og lækningu á krabbameini og það er brýnt að þessi bygging komist upp.

Við höfum horft á að viðskiptajöfnuðurinn hefur vaxið dag frá degi út af því ranga gengi sem við höfum haldið uppi. Menn hafa haldið að þeir væru með svo sterkan gjaldmiðil hér að þeir þyrftu ekki að taka tillit til ytri aðstæðna. Bandaríkjamenn héldu lengi vel sumir hverjir að gengi á bandaríkjadollar gæti haldist hátt uppi þrátt fyrir að viðskiptajöfnuðurinn væri óhagstæður. Einn daginn vöknuðu þeir við það að svo gæti ekki gengið lengur og hvað gerðist? Dollarinn féll og féll og féll og þá sköpuðust jákvæðar efnahagslegar forsendur innan lands sem höfðu ekki verið um árabil því að það getur engin þjóð, alveg sama hvort það er smáþjóð eða stórþjóð, haft endalaust óhagstæðan viðskiptajöfnuð. Og mér er spurn: Ætlar Sjálfstfl. að standa að því að hafa óhagstæðan viðskiptajöfnuð öllu lengur?

Ég heyrði í talsmönnum Framsfl. sem lýstu sig ósammála þessu og ég get því tekið undir margt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan og hv. 1. þm. Vesturl. einnig. Ég held að það sé rétt sem þeir sögðu um þessi atriði. Það verður að vera svo að menn skynji hvað fjármál eru. Menn sem hafa aldrei komið nálægt því að vinna við fjármál, sem hafa ekki þurft að standa í því að sjá til þess að fyrirtæki, sem þeir reka, gangi, það sé ekki halli á rekstri þeirra, og hafa ekki þurft að standa í því að passa upp á hverja krónu í því sambandi eiga erfitt með að stjórna fjármálum þjóðar. Það er mikið grundvallaratriði að svo sé.

En hvað segja menn um þessar ráðstafanir t.d. úti á landi, menn í fiskvinnslunni? Í Vestfirska fréttablaðinu 25. febr. sl., með leyfi forseta, segir Einar Garðar Hjaltason um afkomu fiskvinnslunnar:

„Stjórnvöld eru að láta útflutningsatvinnuvegunum blæða út. Gengisbreyting er aðeins leiðrétting á efnahagslegri óstjórn. Gengið er löngu fallið. Með því að leiðrétta það ekki eru stjórnvöld að láta útflutningsatvinnuvegunum blæða út.“

Þetta var meðal margra orða sem Einar Garðar Hjaltason sagði í viðtali við blaðið um afkomu fiskvinnslunnar. Í sama blaði kemur fram að þorskafli er miklu meiri í janúar í ár en í fyrra á Vestfjörðum. Þetta þýðir það, eins og ég sagði áðan, að góðærið er enn þá og þær ráðstafanir sem er verið að gera núna eru vegna óstjórnar ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur ekki tekið rétt á þessum málum og hún hefur staðið sig illa í stjórn efnahagsmála. Hæstv. fjmrh. sagði í framsögu sinni í dag - hann orðaði það einhvern veginn þannig - að hæstv. forsrh. hefði skapað m.a. þennan vanda, þ.e. ríkisstjórnin sem var. Það er ekki gott að hæstv. efnahagsmálaráðherra skuli ekki vera hér til að svara því hvort það sé hans verk að efnahagsmálin skuli standa svona því að hæstv. fjmrh. hefur áður ráðist að hæstv. forsrh. og borið hann þeim sökum. Hann sagði að viðskiptahallinn væri afleiðing af stjórnleysi fyrrv. ríkisstjórnar. Ég get vel tekið undir þessi orð hæstv. fjmrh. Það er hluti af málinu.

Hæstv. fjmrh. réðist á nokkur sveitarfélög, sérstaklega Reykjavíkurborg, og lýsti því yfir að borgarstjórn þyrfti að draga úr framkvæmdum og vegna þess að hann hefði skert framlög til Jöfnunarsjóðsins hefði borgarstjórinn í Reykjavík þurft að lýsa því yfir að hann yrði að draga úr framkvæmdum. Ég get ekki tekið undir þessi sjónarmið vegna þess að bæjarstjórnir og borgarstjórn Reykjavíkur eiga að mega treysta því að ríkið standi við það sem það hefur lofað.

Viðskiptahallinn mun eiga að minnka um 3 milljarða við þessa aðgerð. En af 8, 10 eða 12 milljörðum eða hvað það er, hér hafa verið nefndar ýmsar tölur, er það auðvitað ekki nægilegt. Það verður að ganga þannig frá málum að viðskiptahallinn sé sem minnstur. Þegar við lítum til þess að ríkisstjórnin er að gera ráðstafanir í sjávarútvegi, þ.e. sá leikur hæstv. ríkisstjórnar að leggja á sjávarútveginn launaskatt fyrir áramótin og taka af honum þann söluskatt sem hann átti að fá endurgreiddan og gefa hann til baka núna og ætla að láta menn halda að þeir séu að hjálpa sjávarútvegi, þá er það náttúrlega blekking. Það er ekkert verið að gera þarna. Það er aðeins verið að gefa til baka það sem þessi atvinnugrein átti rétt á og hefði aldrei átt að taka. Það er ekki verið að játa annað en það að stjórn núverandi ríkisstjórnar á efnahagsmálum er algjörlega út í loftið. Þetta er rugl.

Nú flæða skattar yfir fólkið, bílatryggingarnar hækka langt fram úr því sem eðlilegt er. Það er lækkað verð á bílum og það er fjölgað bílum í landinu sem þýðir að að tiltölu til hefði verðið átt að lækka á tryggingunum. En hvað gerist? Bílatryggingar hækka. Menn eru núna að fá senda inn um lúguna heima hjá sér eignarskatta af íbúðarhúsinu sínu til viðbótar fasteignagjöldunum. Fyrir fólk sem býr í sínu eigin húsi er þetta óskaplega erfitt, sérstaklega fyrir þá sem eru komnir að lokum starfsaldurs. Þeir fá senda inn um lúguna háar upphæðir í eignarskattá af íbúðarhúsinu sínu. Þetta er langt frá því að geta talist eðlilegt. Ég held að sé tími til kominn að flytja brtt. þess efnis að eignarskatt á eigin íbúðarhúsnæði ætti ekki að vera heimilt að leggja á.

Það er greinilegt að stjórnarflokkana greinir mjög á í efnahagsmálum. Einn vill ganga veginn nógu langt og fella gengið, annar vill fara einhverja millileið í gengisfellingu og sá þriðji vill halda genginu óbreyttu. Hér hefur komið fram í umræðum að þessir þrír flokkar eru langt frá því að vera sammála, enda ekki von til, svo mikið er bilið í málefnauppbyggingu þessara flokka að það ætti ekki að geta gengið að þeir séu saman í ríkisstjórn.

Ég vil benda á að þessar ráðstafanir munu ekki endast, eins og ég sagði áðan, nema til sumars því þá mun ríkisstjórnin verða að grípa til nýrra ráðstafana. Ríkisstjórnin verður að fella gengið að nýju vegna þess að hún gerði það ekki í haust. Ég ítreka að úrlausn mála eins og hér hefur verið gerð er óviðunandi. Núverandi ríkisstjórn er raunverulega alveg máttlaus vegna þess að hún veit ekkert hvað hún vill gera og hver höndin er upp á móti annarri, enda eru þeir helst fjarri þingsölum þegar rætt er um efnahagsmál. Vilja helst fela sig í skúmaskotum.