03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5487 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Árni Johnsen:

Herra forseti. Örfá atriði í því máli sem hér er til umræðu.

Það var undarlega til orða tekið hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að gera athugasemd við skyldustörf hæstv. forsrh. í útlöndum en segja svo að sér þætti ekki óeðlilegt að ráðherrar Framsfl. sætu þennan fund í hv. deild. Ekki óeðlilegt, ekki eðlilegt. Kynlega til orða tekið en segir sögu um undanskot ábyrgðar í umræðum um viðamikið og flókið mál. Þó hefur hæstv. heilbrmrh. setið þennan fund í allt kvöld. (ÓÞÞ: Í hliðarsölum.)

Hv. þm. Alexander Stefánsson talaði um frestun á framkvæmd frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eins og hann væri saklausa lambið í hjörðinni og víst má til sanns vegar færa. En verkaskiptingarmálið er mál sem búið var að semja um við sveitarstjórnarmenn, rétta aðila sveitarstjórnarmanna, og þegar búið er að semja um mál eiga þau að standa. En það losnaði um strenginn hjá framsóknarmönnum og ákveðnir fulltrúar framsóknarmanna, eins og t.d. hv. 5. þm. Suðurl., voru með ótímabærar og illa ígrundaðar fullyrðingar til að skjóta sér undan ábyrgð. Og fleiri fylgdu í kjölfarið. Það er mergurinn málsins að mínu mati í þeirri niðurstöðu að málið hefur fallið á milli skips og bryggju eins og staðan er.

Ef það er einhverjum að kenna að þessu máli hefur verið frestað er það þeim framsóknarmönnum sem hafa verið að keppast við það út um allar grundir að skjóta sér undan ábyrgð, búa sér til sérstöðu á kostnað samherja sinna í ríkisstjórninni. Það er óeðlilega að verki staðið.

Þetta mál, sem hefur verið fjallað um m.a. í þessari umræðu, er stórmál, er framfaraspor og það er illt að það komist ekki til framkvæmda eins og það er. Hv. þm. Alexander Stefánsson vék að þeirri hugmynd að það væri ástæða til að skipa nú nýjar nefndir til að ná sáttum og áttum í málinu. En slíkt er auðvitað ekki hægt að bjóða sveitarstjórnarmönnum upp á. Það er í þessari stöðu úr því sem komið er kannski hægt að bjóða upp á að fresta framkvæmd málsins til næstu áramóta, en að semja við menn og segja síðan: Því miður, þetta var ekkert að marka, við skulum koma til leiks upp á nýtt, það auðvitað er fyrir neðan virðingu allra sem að þessu máli ættu að standa.