03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5488 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stenst ekki mátið að gera ofurlitlar athugasemdir við þann málflutning, sem hér hefur nokkuð borið á, að ógæfa sveitarfélaganna í landinu, sem er vissulega mikil, sé aðallega tilkomin vegna þess að frv. um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga náði ekki fram að ganga fyrir áramótin.

Ég held að það sé alveg ljóst að slíkur pappír breytir ekki miklu um tilvist sveitarfélaganna í landinu þegar þau búa við ríkisvald eins og nú stjórnar því að örlög sveitarfélaganna eru með svo margvíslegum hætti í höndum þeirra sem fara með fjárveitingarvaldið og ákvarða jafnvel möguleika sveitarfélaganna til skattheimtu hvað eigin tekjustofna varðar að það er heldur „billegur“ málflutningur að mínu mati að ætla að skjóta sér á bak við að það sé að vísu vont þetta með skerðingu Jöfnunarsjóðsins og mikil ógæfa fyrir sveitarfélögin og illu heilli hafi þau ekki fengið verkaskiptingarfrv. yfir sig.

Ég var í þeim hópi sem varaði einmitt við verkaskiptingarfrv., ekki síst út af því viðhorfi sem sveitarfélögin búa við, út af þeim aðstæðum sem þau búa við undir þessari ríkisstjórn og reyndar þeirri síðustu líka sem hefur alveg miskunnarlaust skorið niður tekjur þeirra, beitt hnefaréttinum á sveitarfélögin, stolið af þeim tekjunum sem lögum samkvæmt eru sveitarfélaganna. Við þær aðstæður og ríkisstjórn sem sýnir sig aftur og ítrekað í því að beita sveitarfélögin þannig valdi var ekki mjög trúverðugt fyrir sveitarfélögin að ganga að þeim pakka sem átti að bjóða þeim upp á fyrir áramótin. Og kemur það ekki einmitt í ljós hversu mikinn áhuga ríkisstjórnin hefur á velferð sveitarfélaganna þessa dagana? Þegar þessar efnahagsráðstafanir eru til umræðu telur ríkisstjórnin sig greinilega geta réttlætt að skerða lögboðnar tekjur sveitarfélaganna um hartnær 400 millj. kr. eins og ekkert sé. Ég held að það þurfi ekki frekari vitnanna við úr því að blessuð ríkisstjórnin treystir sér til þessa við þær aðstæður að fjölmörg sveitarfélög í landinu eru að reyna að koma saman fjárhagsáætlunum eða hafa verið að því undanfarna daga og það er alveg ljóst að staða þeirra er nú erfiðari en verið hefur um árabil, þegar gróin sveitarfélög, kaupstaðir sem hafa gegnum tíðina getað staðið í talsverðum framkvæmdum til viðbótar því að reka hina hefðbundnu þjónustu, ná nú engan veginn endum saman. T.d. sá kaupstaður sem hefur fóstrað hæstv. heilbrmrh. Það eru nú í raun og veru ekki falleg fósturlaun sem ríkisstjórnin sem hæstv. heilbrmrh. situr nú í geldur Húsavíkurkaupstað með þessum hætti sem er einn af fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni sem nær ekki endum saman, á varla fyrir rekstrinum hvað þá að tala um einhverjar framkvæmdir. Þannig er þetta víða úti um landið. Þegar frá eru dregin nokkur rík sveitarfélög á þenslusvæðinu er það yfirleitt reglan frekar en hitt að sveitarfélögin séu í kröggum og eigi varla fyrir sínum hversdagslega rekstri hvað þá framkvæmdum. Við þær aðstæður treystir ríkisstjórnin sér að taka af þeim tekjur sem nema - ja, ætli það séu ekki 1000 kr. á hvern íbúa í þessum sveitarfélögum. Ég held að sveitarfélögin megi við þessar aðstæður lofa guð fyrir að verkaskiptingarfrv. er strandað út af fyrir sig því þá gilda lögin í landinu að öðru leyti. Þar með gilda lögin um kostnaðarþátttöku ríkisins í ýmsum opinberum framkvæmdum og þá getur ríkisstjórn, sem kemur til valda, vonandi fljótlega, í landinu og hefur skilning á högum og þörfum sveitarfélaganna, reynt að greiða upp vanrækslusyndir þessarar og næstsíðustu ríkisstjórnar, þeirrar sem sat næst á undan þessari.

Það hefði legið öðruvísi við ef búið hefði verið að raska þessari verkaskiptingu, ef frv. eða sá hluti tillagna verkaskiptanefndanna sem átti að fara í gegn núna með frv. sem var til umræðu og liggur enn í hv. félmn. hefði náð fram að ganga. Þar var, eins og mönnum er kunnugt, verkefnunum vísað á Jöfnunarsjóð. Það var Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem átti að taka á sig auknar byrðar í raun eða úr honum átti að koma það fé sem bætti sveitarfélögunum upp auknar byrðar. Þá spyr ég aftur: Er mjög trúverðug, í ljósi þeirrar meðferðar sem Jöfnunarsjóður, þessi lögboðna eign sveitarfélaganna, lögboðni tekjustofn þeirra, fær, sú hugsun hæstv. ríkisstjórnar að vísa þessum verkum öllum þangað? Ég segi nei. Það er ekkert sem bendir til annars en að þessir heiðursmenn, sem fara með fjármálin í hæstv. ríkisstjórn, hefðu haldið áfram að skerða Jöfnunarsjóð eftir geðþótta og í næstu efnahagsráðstöfunum, sem munu koma á færibandi inn í þingið ef þessi ríkisstjórn hangir áfram á horriminni einhverja mánuði, verður auðvitað krukkað í Jöfnunarsjóðinn eftir hendinni. Það var nú ekki á vísan að róa með það fyrir sveitarfélögin að eiga von í einhverjum uppgjörsdeildum eða einhverjum sérdeildum Jöfnunarsjóðsins sem svo er skorin niður við trog að geðþótta hæstv. ráðherra. (Dómsmrh.: Hv. þm. styður greinilega frumvarpstillöguna.) Þar gat og getur ekkert bjargað hlutunum nema raunverulegt sjálfstæði sveitarfélaganna hvað tekjustofna varðar sem er virkt í reynd en ekki farið með að geðþótta misviturs ríkisvalds á hverjum tíma. Það er hið versta skipulag. Það verður engin mynd á samskiptum ríkis og sveitarfélaganna í landinu ef sá ósiður verður landlægur að ríkið beiti veikari aðilann í þessum samskiptum, sveifarfélögin, sífellt ofbeldi eins og viðgengist hefur undanfarin ár, af þeirri einföldu ástæðu að það vald, sem ríkið hefur gagnvart sveitarfélögunum, er mjög vandmeðfarið. Þar liggur lagasetningarvaldið og þar liggur fjárveitingavaldið. Þess vegna gengur það auðvitað ekki og það verður aldrei neitt lag og aldrei neitt traust á milli þessara aðila ef menn fara með vald sitt með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórnir hafa gert undanfarin ár. Það er hin mesta hneisa og þar verður að verða breyting á.

Ég ætla líka að ræða vaxtamál við hæstv. ráðherra Alþfl. sem hér eru staddir. Það er nefnilega þannig að þar ber vel í veiði þar sem er hæstv. viðskrh., yfirmaður bankamálanna, og hæstv. fjmrh. Nú bregður svo við að bönkunum er, eins og ég hef skilið það, samkvæmt tilmælum eða ávísun frá Seðlabankanum gert að lækka nafnvexti óverðtryggðra útlána og þá hlýða bankarnir því auðvitað. Þá er allt í einu orðið allt í lagi, bara einn góðan veðurdag upp úr þurru, þarf bara eina helgi til að skipa bönkunum fyrir um vextina. Og það er gert, bara hlýtt. Sömu menn, sem nokkrum dögum og vikum áður töldu hina mestu fjarstæðu að reyna að hafa áhrif á vaxtastigið í landinu með einhverjum miðstýrðum ákvörðunum af því tagi, depla nú ekki auga yfir því. Það kemur í ljós og kann að valda því hversu létt ákveðnir aðilar í hæstv. ríkisstjórn taka þessu að þetta vaxtahringl er hin argasta blekking og hefur engin marktæk áhrif á vextina í landinu vegna þess að raunvextirnir lækka ekki nokkurn skapaðan hlut. Þessar breytingar ná einungis til óverðtryggðra útlána og staðreyndin er sú að þau eru ekki til í bankakerfinu í dag því að ein höfuðástæðan fyrir gífurlegum gróða bankanna á síðari hluta sl. árs var sú að þeir fluttu öll sín útlán svo að segja úr óverðtryggðum yfir í verðtryggð lán. Ég hef skoðað niðurstöðutölur bæði frá bönkum og sparisjóðum sem ráku sjálfa sig með bullandi tapi fyrri hluta ársins, færðu svo lánin til með þessum hætti, héldu áfram að hafa innlánin óverðtryggð og með neikvæðum vöxtum, en færðu öll útlán yfir í verðtryggð lán og hliðstæðar skuldbindingar með háum raunvöxtum. Niðurstaðan varð auðvitað ofboðslegur vaxtamunur og þessi svikamylla er enn í gangi. Þetta er argasta blekking, sem hér er verið að halda að mönnum, og það eina sem vert er að skoða þarna eru ákvarðanir sem snerta afurðalánavexti eða vaxtamun í því sambandi. Ætla ég ekki að lasta þá viðleitni sem þar eru uppi.

En það sem er skemmtilegt í þessum efnum, herra forseti, er það að vaxtafrelsispostularnir kyngja því nú allt í einu án þess að verða sjáanlega flökurt af að skipa fyrir um vextina með þessum hætti. Ég vona að ég fari rétt með að þetta séu bein fyrirmæli sem byggja á lögum um Seðlabanka Íslands, þessi ákvörðun um að lækka nafnvexti óverðtryggðra fjárskuldbindinga. En vextirnir eru eftir sem áður allt of háir og þó að nafnvextir lækki pínulítið þegar verðbólgan lækkar á milli mánaða segir það ekki neitt um raunvextina, enda eru þeir enn allt of háir eins og allir vita.

Ég hef lagt fyrir hæstv. viðskrh., herra forseti, fsp. um þjónustugjöld bankanna. Illu heilli er nú ekki komið svar við þeirri fsp., enda er ég ekki að fara fram á og er ekki að segja að svo ætti að vera því það er stutt síðan sú fsp. kom fram, en ég held að það verði mjög fróðlegt þegar svar kemur við þeirri fsp. um þjónustugjöld bankanna undanfarin ár vegna þess að ég hef grun um að þá muni koma í ljós að á síðustu missirum hafi það ekki bara gerst að vaxtamunur í íslenska peningakerfinu og bankakerfinu hafi verið einhver sá hæsti í heimi heldur líka óheyrilegt okur á þjónustugjöldum bankanna sem mér segja fróðir menn að hafi hækkað von úr viti á undanförnum missirum. Bankarnir hafa sjálfdæmi í þeim efnum. Það er hluti af frelsinu margumfalaða. Fræg er hugdetta þeirra núna um áramótin að taka upp sérstakt þjónustu- og afgreiðslugjald eða hvað það nú hét á afurðalán til fyrirtækja. Mér voru sýndir norður í landi á ferð minni þar nú ekki alls fyrir löngu seðlar frá afurðalánadeildum bankanna þar sem búið var að bæta inn þessum nýja lið, þjónustu- og afgreiðslugjaldi, sem bankarnir ákváðu um áramótin að taka sér af öllum afurðalánum til atvinnulífsins, a.m.k. til sjávarútvegsins. Slíkt er vald þeirra og staða í þessum efnum að þeir þurfa ekki að hafa fyrir því að spyrja kóng né prest heldur einfaldlega skrifa þeir þetta á nóturnar, tilkynna fyrirtækjunum að þeir hafi ákveðið að taka af þeim þennan skatt. Svona er þetta allt saman. Svona er blessað frelsið. Það er fyrir suma. Alla vega nóg af því fyrir bankana þegar þeir þurfa að skammta sér hóflegan gróða sem gjarnan má hlaupa á tugum og hundruðum milljóna eftir því sem mönnum þykir fara vel.

Herra forseti. Þetta var um Jöfnunarsjóðinn og vextina. Síðan hafði ég hugsað mér að ræða pínulítið við hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni og þá er skaði að hér skuli ekki vera einhver talsmaður Sjálfstfl. því ég lít svo á að hæstv. heilbrmrh. geti svarað fyrir Framsfl. (AG: Ég skal svara fyrir hann.) Nú, tekur hv. þm. Albert Guðmundsson að sér að svara fyrir Sjálfstfl.? Ég efast ekki um að hv. 5. þm. Reykv. hefði ekkert á móti því sjálfur, en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að t.d. formanni Sjálfstfl. yrði ekki rótt þar sem hann hvílist nú úti í Brussel ef hann vissi að talsmaður Sjálfstfl. í efnahagsmálum á Alþingi héti Albert Guðmundsson. (VE: Þetta er misskilningur. Hann svarar fyrir sjálfstæðisstefnuna.) Já, það er þannig. Jæja.

En hvað um það. Ég hefði talið að það hefði nú ekki veitt af að þeir hefðu verið hér þeir hæstv. ráðherrar úr Framsfl. og Sjálfstfl. sem gegna fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. því mér finnst harla kyndugt að standa í þessari umræðu um efnahagsráðstafanir á sama tíma og fréttir færa okkur heim sanninn um að það er verið að fella út um allt land í atkvæðagreiðslum þá kjarasamninga sem eru höfuðröksemdin fyrir þessum ráðstöfunum. Hæstv. fjmrh. talaði algjörlega út frá því að forsenda þessara ráðstafana væri að kjarasamningarnir yrðu virtir eða eftir þeim yrði farið í hvívetna og þeir yrðu að fordæmi fyrir þann hluta vinnumarkaðarins sem á eftir að ganga frá sínum málum. Nú er það einfaldlega að brotna upp. Ég hygg að eins og mál stóðu einhvern tímann á ellefta tímanum hafi sjö af ellefu verkalýðsfélögum í landinu, sem búin voru að greiða atkvæði um þessa samninga, verið búin að fella þá og mörg kolfella þá þannig að þeir fengu fáein, sárafá atkvæði í mörgum félögum. Það voru einn og tveir og þrír menn sem greiddu atkvæði með þessum samningum á býsna fjölmennum fundum hjá ýmsum verkalýðsfélögum. Ef að stóru félögin, sem nú halda fundi í kvöld og eru að telja, væntanlega þessar mínúturnar, niðurstöður í atkvæðagreiðslum um samningana, fella þá einnig, félög eins og Eining á Akureyri, Hlíf í Hafnarfirði, Framsókn og fleiri, held ég að sé orðið alveg ljóst að þessir samningar eru ekki lengur sá grundvöllur sem talað var um og ýtt var úr vör með þegar þessar ráðstafanir voru kynntar hér í þinginu, fyrst af hæstv. forsrh. og síðan af hæstv. fjmrh.

Getur hæstv. forseti kannað hvort einhver sjálfstæðisráðherra sé nálægur, (ÓÞÞ: Hv. 1. þm. Suðurl. er hér og er ráðherraígildi þess flokks.) til að mynda hver gegnir fyrir hæstv. forsrh. og hvort sú æruverðuga persóna gæti lagt leið sína í þinghúsið? Mér finnst út af fyrir sig heldur bagalegt að hæstv. oddvitarnir skyldu þurfa að stökkva úr landi með þeim hætti sem raun ber vitni, en þeir eru að gegna ákveðnum erindum eins og allir vita og látum svo gott vera. En það gengur væntanlega þannig fyrir sig að þegar þeir fara úr landi taka aðrir hæstv. ráðherrar við þeirra embættum og gegna fyrir þá. Ég held að þeir ágætu menn ættu að sjá sóma sinn í því að sitja hér undir þessari umræðu ef þeim er annt um framgang frv. Ég ítreka því tilmæli mín til hæstv. forseta um að þetta verði kannað. (Forseti: Það munu vera tveir ráðherrar Sjálfstfl. sem eru ekki með varamann fyrir sig, en mér er sagt að iðnrh. sé á leiðinni til umræðunnar og mun hann þá svara fyrir ráðherra hans.)

Já, herra forseti. Ég þakka þessar upplýsingar og geri ráð fyrir því að það sé hæstv. iðnrh. sem gegnir fyrir hæstv. forsrh. Hér hef ég fengið upplýsingar, herra forseti, um að talningu er lokið í kosningu um samningana bæði hjá Einingu á Akureyri og Framsókn í Reykjavík og á báðum stöðum voru samningarnir felldir, kolfelldir á Akureyri og við Eyjafjörð með 348 atkv. gegn 109 og í Reykjavík felldir með 134 atkv. á móti 113. Í verkalýðsfélaginu Þór á Selfossi voru þeir kolfelldir með 70 atkv. gegn 4, en svo virðist sem í Hlíf í Hafnarfirði hafi þeir við endurtekna atkvæðagreiðslu verið samþykktir með einu atkvæði, 33 atkv. gegn 32, og hafa menn sennilega vandað sig við talninguna þar af gefnu tilefni.

Þetta eru upplýsingar, herra forseti, sem ég held að eigi fullt erindi inn í þessa umræðu, að Eining á Akureyri, sem er langstærsta verkalýðsfélag landsbyggðarinnar, hefur nú kolfellt samningana í atkvæðagreiðslu sem meira en 450 manns hafa tekið þátt í, hugsanlega talsvert fleiri því það kemur ekki fram í þessum upplýsingum mínum hvort einhverjir eða margir seðlar hafi verið auðir. Ég held að það sé þá ástæða til þess að við fáum svör um það hjá hæstv. fjmrh. og síðan hæstv. iðnrh., þegar hann kemur, hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst þá fyrir í framhaldi af þessu. Er meiningin að keyra þessar ráðstafanir í gegn og reyna að gera þær að lögum e.t.v. á morgun engu að síður, þrátt fyrir þessa niðurstöðu, þrátt fyrir að samningarnir séu lausir að því er virðist hjá verulegum meiri hluta þeirra félaga sem að nafninu til stóðu á bak við samningagjörðina hjá Verkamannasambandi Íslands? Við vitum að Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband verksmiðjufólks og verslunarmannasamtökin eru í samningum og mér sýnist alveg ljóst að öll þessi mál fari meira og minna á skrið við þessa niðurstöðu. Ég minni á að í kjarasamningi þeim sem undirritaður var af vinnuveitendum og Verkamannasambandinu nú fyrir nokkrum dögum eru fyrirvarar þess efnis að þar komi næsta sjálfkrafa inn allar þær hækkanir sem aðrir aðilar kunna að ná inn í kjarasamningum. Það þýðir að á næstu dögum gætu líka þeir samningar, þó þeir hafi verið samþykktir af einhverjum aðilum, breyst. Ég hygg að hæstv. ríkisstjórn skuldi þinginu svör um að hve miklu leyti þetta breyti þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar þegar þessar efnahagsráðstafanir voru gerðar og hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst þá fyrir í framhaldi af því. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. geti svarað þessu að einhverju leyti, herra forseti, en að öðru leyti fer ég fram á að umræðunni ljúki ekki og henni verði frestað þangað til hæstv. iðnrh. er kominn í þinghúsið og geti þá einnig svarað fyrir hönd þess stjórnarflokks sem var fjarstaddur umræðuna þegar ég bar fram mínar spurningar.