03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5496 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er tæplega þess virði að tala meira í þessu máli. Dómur þjóðarinnar berst inn svona í áföngum frá hinum ýmsu stöðum þar sem atkvæðagreiðslur eiga sér stað í verkalýðsfélögunum. Þjóðin er að segja sitt álit á þeim efnahagsráðstöfunum sem ráðherrarnir reyna af veikum mætti en mikilli karlmennsku að verja og jafnvel láta skína í að heiður þeirra sem sérfræðinga sé að veði ef við ekki trúum þeim.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég er hissa á þeirri blekkingu og því blekkingatali sem hvað eftir annað kemur frá hæstv. dómsmrh., hæstv. viðskrh., hæstv. ráðherra sem er fyrrv. ráðgjafi margra ríkisstjórna sem aldrei gerðu réttar ráðstafanir. Það er engin ástæða til að ætla að hans vinna í ríkisstjórninni verði neitt áreiðanlegri en hún var þegar hann var ráðgjafi ríkisstjórna, m.a. ríkisstjórnar sem ég sat í.

Hann talar um lækkun á alls konar vísitölum og bendir á hinar margþættu ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og að þær séu nú að bera árangur. Ja, guð almáttugur. Tollalækkanirnar hafa sín áhrif, en aðrar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar voru ekki komnar til þegar tollalækkanirnar voru farnar að virka og hæstv. ráðherra er að vitna í tímabil sem er áður en viðbótarráðstafanir voru gerðar þannig að þegar ein ákveðin ráðstöfun er gerð til lækkunar eins og tollalækkunin og ef maður tekur þær einar og bíður ekki eftir öðrum ráðstöfunum er þetta rétt mál sem hæstv. ráðherra fer með en að öðru leyti er það ekki rétt.

Og hvaða ráðstafanir eru svo þetta? Hvaða ráðstafanir eru þetta? Ráðstöfun sem er farin að virka núna, er að hækkun útgjalda ríkisins er úr rúmum 40 milljörðum eins og var 1987 í 65 milljarða fyrir árið 1988, eða um 20 milljarða á milli ára. Ætlar ráðherra að halda áfram að telja þjóðinni trú um að slíkar útgjaldahækkanir hjá ríkinu séu til þess að lækka vísitölur? Til þess svo að stefna ríkisstjórnarinnar í fjármálum um hallalausan ríkissjóð nái fram að ganga þarf að auka innheimtu af fólkinu í landinu um 20 milljarða frá því sem var árið áður til að ná tekjunum frá 43–44 milljörðum upp í 65–66. Ætlar hæstv. ráðherra að halda áfram að segja að sú hagfræði sem gildir fyrir heiminn allan sé þessi, að það lækki vísitöluna að hækka tilkostnað? Ætlar ráðherra að segja að endurgreiðsla á söluskatti sem var ákveðið að fella niður til undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar lækki vísitöluna? Ætlar ráðherra að segja að 1% launaskattur lækki vísitöluna? Ætlar ráðherra að halda áfram að segja að lánsfjárlög, sem voru óraunhæf þegar þau voru samþykkt hér, hafi lækkað vísitöluna? Allt þetta er verið að taka til baka núna. Nú kemur hæstv. ríkisstjórn og segir: Við skulum greiða til baka söluskattinn til sjávarútvegsins eins og stjórnarandstaðan ráðlagði. Við skulum hætta að taka launaskattinn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar eins og stjórnarandstaðan ráðlagði. Ég held að þið ættuð að ganga lengra eins og stjórnarandstaðan ráðlagði því það er eitt eftir enn þá. Það er matarskatturinn. Ég held að þið ættuð að hætta við að færa ríkissjóðshallann inn í eldhúsin til fólksins.

Nei, kæru vinir í ríkisstjórn. Þið eruð búnir að skapa slíka sundrung í kringum ykkur í öllum málum. Hér var rifist þvers og kruss af stjórnarliðum við gerð fjárlaga. Hér var engin samstaða og ekki voru einu sinni allir ráðherrarnir sammála og ég gat um það að fjárlögin væru þingmannafrv. en ekki ríkisstjórnarfrv. vegna þess að ráðherrarnir voru ekki sammála um að leggja þau fram.

Nú kemur nýtt stjórnarfrv. fram og það kemur í ljós í dag að einn ráðherra til viðbótar við hæstv. félmrh. hefur gert athugasemdir við framlagningu efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar, hæstv. samgrh., þannig að þetta frv. er heldur ekki ríkisstjórnarfrv. Þetta getur ekki verið stjfrv. ef ráðherrarnir eru ekki sammála. Þetta er þess vegna þmfrv. og þess vegna sé ég enga ástæðu til þess, þó svo að þetta sé svokallaður bandormur og í verkahring hæstv. forsrh., sem er efnahagsmálaráðherra, að hann leggi það fram en ekki annarra ráðherra. Það er engin samstaða í ríkisstjórninni um að leggja þetta frv. fram í þeirri mynd sem frv. er.

Þið hafið skapað sundrungu í stjórnarliðinu. Þið hafið skapað sundrungu í flokkunum ykkar og þessi sundrung endurspeglast um allt þjóðfélagið og besta dæmið er Dagsbrúnarfundurinn fyrir nokkrum dögum. Hann er spegilmynd af ástandinu sem þið hafið skapað því þar var greitt atkvæði um ykkar verk sem átti að vera smiðshöggið á það meistarastykki sem samningarnir voru og er nú fellt um land allt. Síðustu fréttir sem ég hef er að fimm félög hafi samþykkt, níu hafi fellt samningana. Það er réttara sagt tíu vegna þess að tvær atkvæðagreiðslur fóru fram í Hafnarfirði og ég vil túlka fyrri atkvæðagreiðsluna sem fellur á jöfnu - 32 gegn 32 er niðurstaða, það er fellt á jöfnu. Ég,efast um að seinni atkvæðagreiðslan sé lögleg. (OÞÞ: Það gilda nú sérlög fyrir Hafnarfjörð í þessum efnum.)

Kjarabaráttan hefur harðnað að þeim punkti að síðasta lota, síðasti fundur atvinnurekenda og launþega, stóð yfir í 30 klukkutíma rúmlega. Og hver var niðurstaðan? Hún var 13% hækkun segja sumir þegar allt er tekið til. Formaður Verkamannasambandsins segir að hægt sé að teygja það upp í 20%. Varla hafði blekið komist á samningana úr pennum þeirra sem stóðu í þeim þegar Vinnuveitendasambandið rekur tunguna framan í verkalýðshreyfinguna með því að starfsmaður Vinnuveitendasambandsins lætur hafa eftir sér að þessir nýgerðu samningar hefðu minni kaupmáttarskerðingu í för með sér en aðrir samningar sem hafa verið gerðir. M.ö.o., þeir vissu að þeir voru að gera samninga sem þýddu kaupmáttarskerðingu að óbreyttu. En hvað skeður þá? Þá skeður það að ríkisstjórnin gerir sínar efnahagsráðstafanir, ráðstafanir sem eru þá samkvæmt bókinni, samkvæmt hagfræðinni sem dugar í öllum löndum. Hverjar eru þær?

Númer eitt: 6% gengislækkun. Hafið þið hagfræðingar góðir, hæstv. ráðherrar, reiknað út hvað 6% gengislækkun þýðir? Hafið þið reiknað það út, þó að við reiknum enga tolla inn í? Ef við reiknum bara vörugjald sem er yfirleitt á öllum vörum, ef við reiknum söluskattinn sem er á öllum vörum, ef við reiknum hækkandi fraktina sem er í dollurum reiknuð og ef við reiknum álagninguna sem kemur inn í vöruverðið, þá eruð þið búnir að taka, með þeirri aðgerð einni, samningana til baka, eða niðurstöður kjarasamninganna af fólkinu áður en þeir koma til hækkunar fyrir fólkið. Þessu til viðbótar koma svo hinar ráðstafanirnar, þannig að það er langt umfram það sem fólkið var að semja um sem þið takið til baka. Ég óska ykkur til hamingju, jafnaðarmenn, svokallaðir.

Ég hef látið hafa eftir mér, og ekki að ástæðulausu þegar svona er haldið á málum, að það er köld nótt í stjórnmálum á Íslandi. Það er köld nótt. Það er köld hönd sem leiðir í dag. Ég vil halda því fram á sama hátt og ég hef haldið því fram frá fyrstu ráðstöfunum þessarar ríkisstjórnar að gengið væri fallið. Ráðstafanirnar gerðu allt dýrara í dag en það var í gær og svona hefur það haldið áfram þessa mánuði sem ríkisstjórnin hefur setið. Ég hélt því fram í hvert skipti sem ég tók þátt í umræðum um efnahagsmál að gengið væri fallið. Það er ekki hægt að hafa hækkandi verð á vörunni innan lands en halda krónunni niðri út á við. Þið fóruð rangt að, drengir mínir. Þess vegna segi ég, og ég held því fram með sama rétti og sömu rökum og ég talaði um gengið, að ríkisstjórnin er fallin. Hún er ekki til sem slík. Ríkisstjórnin er ekki til. Það eru hins vegar til menn í ráðherrastólum. Það eru til menn sem eru spenntir í ráðherrastólana og þeir fara ekki svo fljótt úr þeim. Það er allt annað að sitja í forstjórastól eða vera forstjóri. Eitt er að þykjast vera og annað er að vera.

Ég hef talað um ósamkomulag í sambandi við fjárlagagerðina og í sambandi við yfirleitt öll stjórnarfrv., og ekki síst þessar efnahagsráðstafanir. Hvernig var það í utanríkismálunum? Hæstv. núv. utanrrh. kemur með sína stefnu. Hæstv. fyrrv. utanrrh. gerir athugasemd við hana. Þriðji aðili að ríkisstjórn blaðrar eins og óviti erlendis um nýja utanríkisstefnu sem aldrei hefur verið rædd hér á Íslandi og Alþingi hafði ekki hugmynd um. Síðan standa upp hver af öðrum úr öllum stjórnarflokkunum og gera athugasemdir þvers og kruss. Engin samstaða um neitt. Síðan koma húsnæðismálin. Umræðan er í gangi.

Þar er talað þvers og kruss, hvergi samstaða. Kaupleigufrv. virðist ekki hafa verið lagt fyrir flokkana, segja tveir flokkar. Ráðherra segir að það sé ekki rétt. Athugasemdir koma fram og til baka. Þetta ósamlyndi milli ráðherra, milli stjórnarþm., hefur speglast í þeim umræðum sem hafa verið um efnahagsmál í kvöld og allan tímann sem þau hafa verið á dagskrá. Það er þessi sundrung sem gerir ykkur ófæra sem ríkisstjórn, sem endurspeglast úti í þjóðfélaginu. Það er vont. Það er mjög vont.

Ég var á fundi fyrir nokkrum dögum. Þar stóð upp einn ágætur maður. Hann gat um það að við ættum svona hvað líður að fara að átta okkur á hinu falda valdi í þjóðfélaginu. Ég vissi og veit hvað hann meinar. Ég giskaði á það og giskaði rétt, en þið verðið að finna það út sjálfir. Hvar liggur þetta falda vald í íslenskum stjórnmálum? Hvar liggur þetta falda vald sem hefur vald yfir peningunum, vald yfir þjóðarframleiðslunni sem kemur í veg fyrir að fólkið í landinu geti lifað af átta stunda vinnutíma fimm daga vinnuviku? Hvað hafið þið verið að gera, jafnaðarmenn, í 70 ár þegar ástandið er þannig í þjóðfélaginu 1988? Ekki þýðir að koma því yfir á herðar síðustu ríkisstjórnar. Það eru allar ríkisstjórnir, bæði þessi og aðrar, jafnsekar.

Einn ágætur þm. benti mér á, og ég vona að ég muni það rétt og þurfi ekki að sækja mín gögn á borðið mitt, að eins og á stendur, þegar talað er um síaukinn viðskiptahalla, er stór hluti af viðskiptahallanum vaxtagreiðslur íslenska ríkisins. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs, sagði þessi ágæti þm. mér í dag, eru 4800 millj. kr., 4 milljarðar og 800 þús. kr. Allur tekjuskattur þjóðarinnar er 4 milljarðar 630 millj. kr. Miðað við að verkamaður hafi 40 þús. kr. á mánuði eru þetta 10 þús. ársverk verkamanna. Hvað er að? Ætlið þið að segja að þetta sé allt fyrrv. fjmrh. að kenna? Er það leiðin út úr vandanum fyrir hæstv. núv. fjmrh.? Það er billeg leið.

Nei, við erum rík þjóð. Það vantar ekki peninga. Þjóðarframleiðslan sýnir það. En hvort hægt er að ná samkomulagi í þessum fámenna hópi sem er u.þ.b. 250 þúsund hræður sem eiga að skipta þjóðarauðnum á milli sín á þann hátt að þeir sem fá mikið í dag haldi áfram að fá mikið, bara að hinir fái nóg til að borða fyrir. Þjóðin þarf að brjóta niður það afl, það falda afl, sem vinnur fyrir sjálft sig en hefur í 70 ár ekki náð árangri fyrir fólkið. Í 70 ár hefur ekkert skeð sem hefur gefið fólkinu nægilegt brauð fyrir átta stunda vinnudag. Við skulum taka okkur saman og skammast okkar fyrir það. Það er kominn tími til. Þá kviknar kannski ábyrgðartilfinning, en ekki fyrr.

Hv. 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hefur eflaust mestu reynsluna af þeim sem hér eru inni í verkalýðsmálum og samningamálum og hún er að reyna, við skulum segja á lokastigi starfsævi sinnar, að miðla okkur af sinni reynslu. Og hún segir: „Mín reynsla er sú að kjarabaráttan vinnst ekki í gegnum kjarasamninga.“ Og hún hefur langa reynslu. „Það verður að vinna þá baráttu í gegnum löggjafann.“

Hæstv. forsrh. tók vel undir þetta og þá tillögu sem hún hefur mælt fyrir hér sem lausn á þessum vanda sem við höfum verið að glíma við og sumir hafa verið í skipulögðum fylkingum að glíma við í 70 ár eða lengur án árangurs. Ef einhver hugur er bak við tal ykkar kemur það í ljós þegar atkvæði verða greidd um þá tillögu sem hér liggur fyrir vegna þess að hún sagði mér líka að hennar gamla félag, Sókn, hefur innan sinna vébanda eitt um 46–48 þús. kr. stöðugildi fyrir matreiðslukonu en ég þekki ekki starfslýsingu hennar að öðru leyti. En þessar konur hafa getað komist hæst í ein 46–48 þús. kr. laun á mánuði. Vitið þið það að samningarnir sem við erum að gera við verkamenn núna gefa þeim lág laun, lægstu laun 31 400 kr. á mánuði fyrir átta stunda vinnudag? Þegar ástandið er orðið þannig að tveir bílar, sem ég hef fyrir mig og mína konu og eru að verða 9 ára gamlir, kosta mig tæplega þingfararkaupið í mánuð í tryggingum eingöngu. Svo sitjið þið hér og segið: Við erum að gera fólkinu gott, þegar þarf tæplega 100 þús. kr., heilt mánaðarkaup þm., til þess að tryggja tvo gamla ameríska bíla. Þið hrópið húrra fyrir því að það skyldu nást kjarasamningar út á efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem gefa fólki von um 31 400 kr. í mánaðarkaup. Erum við að verða vitlaus, eða hvað? Hver lifir af þessu? Verkamaður sem þrælar allan mánuðinn og fær sínar 31 400 kr. samkvæmt taxta sem verið er að biðja þá um að samþykkja. Hann gæti ekki borgað tryggingargjald af öðrum bílnum mínum fyrir árið. Hvað er að ske í þessu þjóðfélagi?

Já, hæstv. fjmrh. talaði um að þessi ríkisstjórn - á enskri tungu mundum við líklega segja „The“ með stórum staf til frambúðar þegar talað er um þessa ríkisstjórn - hefði verið með aðhaldsaðgerðir. Hvaða aðhaldsaðgerðir hefur þessi ríkisstjórn verið með? Hún hefur ekki verið með eina einustu aðhaldsaðgerð. Ég kalla það aðhaldsaðgerð að skera niður kostnað, að draga úr þessu og draga úr hinu. Ég kalla það ekki aðhaldsaðgerð að auka útgjöld ríkissjóðs úr 43 milljörðum í 65 milljarða og fara svo í vasa fólksins og kalla það aðhaldsaðgerð. Það er hægt að segja að það sé aðhaldsaðgerð vegna þess að þið hafið tekið allt sem fólkið var með á milli handanna. Það má segja að það sé aðhaldsaðgerð. Þið eruð hissa á því að viðskiptajöfnuður skuli vera eins og hann er. Ég hélt að hæsta tala sem ég hefði nokkurn tíma heyrt væri 10 milljarðar en þegar hæstv. forsrh. talar hér fyrir efnahagsráðstöfunum talar hann um 14 milljarða og vegna þessara aðhaldsaðgerða verði það ekki nema 101/2 milljarður og svo er deilt um hvort það eru 8 eða 10 milljarðar. Mér er sama hvort er. Það er nógu vont hvort sem það eru 8 eða 10 milljarðar sem eftir standa þegar búið er að gera þessar svokölluðu aðhaldsaðgerðir. Það skiptir bara engu máli. Við erum jafnt á hausnum. En aðhaldsaðgerðirnar eru það að taka meiri peninga frá fólkinu. Það er verið að eyða meiru og taka meira frá fólkinu. Það eru aðhaldsaðgerðirnar. Eru það aðhaldsaðgerðir gagnvart ríkinu að skera svo niður Jöfnunarsjóðinn að nú, eftir að þessi bandormur er samþykktur, eru allar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga um land allt úr jafnvægi? Ja, þvílíkar aðhaldsaðgerðir. Þetta eru heimskupör frá a til z. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar eru gegn fólkinu en ekki fyrir fólkið. Þetta er gegn fólkinu. Þá segi ég, hvar liggur hið falda vald? Hvernig í ósköpunum geta menn verið hissa á því, þegar fólkið fær loksins tækifæri til að láta í ljós sitt álit á aðgerðunum, að það hafnar þeim? Það þarf enginn að vera hissa á því. Þakkið þið guði fyrir að það er ekki kosið um þetta leyti.

Nei, ég held að við í stjórnarandstöðunni getum verið ánægð með það að á suman hátt er verið að taka til greina, þó seint sé, ráðleggingar sem við lögðum mikla áherslu á við gerð fjárlaganna. Það var mjög talað um að stjórnarandstaðan væri með málþóf vegna þess að við vorum í góðri meiningu og í góðri trú um að við værum að vinna á heilbrigðan hátt af fullri sanngirni. En það var kallað málþóf þangað til núna að þessir háu herrar koma með efnahagsráðstafanir sem var hægt að líkja við það að þeir kæmu skríðandi til baka til brottfararstaðar. Þeir hefðu betur gert þessar ráðstafanir þegar þeir fengu ráð og þegar þeir höfðu samstöðu um að gera þær.

Virðulegur forseti. Ég endurtek að það er eflaust til lítils að tala hér þó að við gerum það. Annað fólk hefur ekki möguleika á því að koma hingað og segja það sem því í brjósti býr og þess vegna tala ég eins og talað er við mig, eins og fólkið talar sín á milli. Það kemur kannski illa við einhverja, en fólkið hefur ekki aðgang að þessum ræðustól. Fólkið hefur aðgang að atkvæðakössunum í félögunum í dag. Það er eini vettvangurinn þar sem fólkið getur svarað fyrir sig í dag og það er að því.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti.