03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5508 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. kom í ræðustól áðan og var með réttu nokkuð gramur yfir því að ég hefði engan ljósan punkt séð á fjarveru hæstv. forsrh. Þetta voru að sjálfsögðu mistök af minni hendi því sá ljósi punktur sem ég hafði ekki fært í tal en má öllum ljós vera er að inn á þingið er kominn galvaskur Vestmanneyingur með sérstöðu á margan hátt. En það var ekki skynsamlegt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að hefja umræðu um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga því að til þess hefði hann þurft að vera á þingi og fylgjast með því sem var að gerast.

Ég hafði enga fordóma gagnvart þeim hugmyndum, þegar þær lágu fyrir, að fara í þessa verkaskiptingu. Hins vegar veit ég að mörg sveitarfélög veltu fyrir sér hvort það mætti treysta því sem sagt væri að sett yrði af fé í Jöfnunarsjóðinn. En þegar kom í ljós að ef sveitarfélögin ættu að sjá um tónlistarkennsluna ætti að láta þau hafa 50 millj. til þess en ef ríkið ætti að sjá um tónlistarkennsluna yrði að útvega 70 millj. eins og menntmrn. boðaði, þá brá mér dálítið því þarna kom fram að verið var að brjóta mjög gamla kenningu Biblíunnar: Þú skalt ekki hafa tvo mæla í húsi þínu. Gyðingakaupmenn höfðu löngum þá reglu að hafa tvo mæla, annan þegar þeir keyptu varning og hinn þegar þeir seldu og það virtist sem þær leikreglur hefðu verið hafðar þegar menn voru að meta hvort sveitarfélögin ættu að sjá um hlutina eða ef ríkið sæi um þá.

Þá er rétt að vekja í örfáum orðum athygli á því að ég hef aldrei sagt að það væri nauðsynlegt að fella gengið. Ég hef aftur á móti undirstrikað og undirstrika það enn að það þurfi að vera rétt skráð. Ég kalla það ekki rétt skráð gengi sem þarf að halda uppi með handafli. Ef gengið er rangt skráð, t.d. of hátt, eru afleiðingar þess að það verður miklu meiri innflutningur til landsins, minni iðnaðarframleiðsla í landinu og framleiðslusvæðin lenda undir í samkeppni við þjónustusvæðin í landinu. Það verður ekkert jafnvægi í fjármálalífi landsins sem heildar. Og það er það sem við höfum upplifað. Það hefur verið botnlaus þensla á þjónustusvæðunum en kyrrstaða á framleiðslusvæðunum. Til þess að framleiðsluatvinnuvegirnir geti greitt þau laun sem sanngjarnt er verða þau að búa við rétta skráningu á gengi og gengið er því aðeins rétt skráð að hægt sé að reka hraðfrystiiðnaðinn í þessu landi hallalaust því hann er undirstaðan ef menn vilja horfa á þessi mál af sanngirni. Ég vil bæta því við að ef menn ætla sér að viðhalda sjálfstæði þessarar þjóðar verða menn líka að vera menn til að setja stefnuna á að viðskiptin við útlönd séu hallalaus. Það getur orðið einhver sveifla, en meginstefnan hlýtur að vera sú að viðskiptin verða að vera hallalaus.

Það er hægt að kvarta yfir því að það þurfi að greiða afborganir upp á 6,5 milljarða, en það getur aldrei réttlætt viðskiptahalla upp á 10 og e.t.v. meira. Menn verða líka að vera sjálfum sér samkvæmir hvað þetta snertir. Segjum sem svo að menn taki ákvörðun um að halda skuldunum svipuðum og ætli sér að láta framleiðsluna innan lands vaxa og ná þannig jöfnuði á nokkrum árum. Gott og vel. Það getur verið markmið út af fyrir sig. En hvernig ætla menn þá að réttlæta að halda áfram með glórulausan viðskiptahalla við útlönd? Það verður ekki varið og ég trúi því ekki að þingmenn eða ráðherrar telji að slíkur búskapur sé til fyrirmyndar.