03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5511 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði reyndar ekki ætlað mér að taka þátt í 1. umr. um þessar ráðstafanir, enda hv. 18. þm. Reykv. búinn að gera það fyrir hönd okkar kvennalistakvenna, en svona fer með góðu áformin og það var reyndar ræða hæstv. fjmrh. sem varð til þess að ég ákvað að taka til máls.

Mér fannst hann tala eins og hann hefði hreint ekki hlustað á eða alla vega ekki nægilega vel málflutning þeirra sem hafa tekið þátt í umræðum um þessar efnahagsráðstafanir og kom reyndar með ýmsar furðulegar og jafnvel froðulegar skýringar á þessum ráðstöfunum og hvernig þeim verður háttað. Hann kvartaði yfir því að gagnrýnendur væru ekki sjálfum sér samkvæmir. Hann talaði t.d. í sambandi við gengislækkunina og orðaði það þannig að gagnrýnendur þessara ráðstafana kvörtuðu yfir því að hún væri ekki nógu mikil.

Ég vil andmæla þessu. Hæstv. ráðherra hefur augljóslega ekki fylgst mjög vel með öllum þessum umræðum. Kvennalistinn hefur sannarlega ekki gagnrýnt að hún væri of lítil, (Gripið fram í.) of lítil já, heldur höfum við einmitt haldið því fram að hún væri of mikil. Alla vega lýsti ég því yfir í ríkissjónvarpinu að hún væri of mikil með tilliti til hinna hófsömu kjarasamninga sem hæstv. ríkisstjórn tiltekur sem forsendur fyrir öllum sínum aðgerðum. Hv. 18. þm. Reykv. orðaði það eitthvað á þá leið að það hefði heyrst m.a. meðal stjórnarliða að þessi gengisfelling hafi ekki verið nægilega mikil. Hún var alls ekki að vísa til þess að við hefðum haldið þessu fram. Ég vil taka þetta fram vegna þess að mér fannst þetta vera rangtúlkun hjá hæstv. fjmrh.

Hann fjallaði um nokkrar þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hyggst gera til að skera niður útgjöld og það er þá m.a. í sambandi við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hæstv. ráðherra fjallaði um á harla einkennilegan hátt. Hann minnti á gagnrýni stjórnarandstæðinga og hafði greinilega ekki fylgst með því á hverju sú gagnrýni var byggð. Hún var byggð á því að þetta mál hefði ekki verið nægilega vel undirbúið. Þó að hæstv. ráðherra telji að Samband ísl. sveitarfélaga sé mjög sammála þessum aðgerðum og eins og átti að framkvæma þær eru það ekki allir sveitarstjórnarmenn í landinu. Það hefur sannarlega komið fram að frv. hafði ekki fengið nægilega góða umfjöllun meðal sveitarstjórnarmanna og það var m.a. á þeim forsendum sem við vorum andvíg því að þessu yrði komið á nú. Okkur þótti ekki tryggilega frá þessum málum gengið og m.a. alls ekki nægilega undir byggt hvernig sveitarfélögin ættu að standa undir þáttum sem þau ættu að taka að sér. (Fjmrh.: Styður Kvennalistinn frestun málsins?) Já.

Nú tekur hæstv. ríkisstjórn til baka það fé sem átti að standa undir þessum skiptum án þess að taka að sér allt sem vísað var til sveitarfélaganna. Ég vil minna á dagvistarheimilin. Sá liður var skorinn niður í fjárlögum þannig að það er enginn liður í fjárlögum sem heitir Stofnkostnaður dagvistarheimila. Það hlýtur hæstv. fjmrh. að vita um. (Dómsmrh.: Það er tekið inn, 60 millj.) Ekki stendur það í þessu frv. Jæja, þá skulu bara hæstv. ráðherrar koma upp og sannfæra mig um að þetta sé í góðu lagi og að sveitarfélögin fái tekjur frá ríkinu til að standa undir uppbyggingu dagvistarheimila. (Fjmrh.: Nei, það er búið að fresta þeim öllum í heild sinni.) Já, það er öllu frestað. En hver á að standa undir byggingu dagvistarheimila? (Fjmrh.: Ríkið.) Það stendur ekki í þessum ráðstöfunum, að ég sjái. Það stendur ekki í frv. sem við erum að fjalla um. (lðnrh.: Í grg. um 60 millj.) Herra forseti. Mér finnst dálitið erfitt að standa í samræðum við alla ráðherrana í einu. (Forseti: Má ég biðja hæstv. ráðherra að hafa hóf á frammíköllum.) Er ekki ágætt að þeir komi bara og skýri þetta því að það er svo illa fram sett hjá þeim að það er ekki hægt að skilja það í fljótu bragði alla vega.

Það var fjallað hér um vegamálin og skýring hæstv. fjmrh. á því hvernig sá niðurskurður kæmi niður var algerlega út í loftið að mínu mati því það var eins og hann tryði því að þessar 125 millj. kr. yrðu sparaðar allar í Reykjavík og trúi nú hver sem vill.

K-byggingin yrði ekkert mál. Sá niðurskurður sem yrði til K-byggingar kæmi sér ekkert svo afleitlega fyrir þá. Það yrði bara smáfrestun. Ég er ekki viss um að forstjóri Ríkisspítalanna sé alveg sammála því. Hann kom á fund fjh.- og viðskn. Ed. og er haft eftir honum í nál. minni hl. að byggingin sé þegar orðin þremur árum á eftir áætlun. Hann minnir á þátt hæstv. iðnrh. sem hafi barist fyrir því að fá hækkun á framlögum til K-byggingarinnar upp á 50 millj. kr. Hann hafi náð fram 20 millj. kr. með miklu harðfylgi. Nú sé það allt tekið aftur. En hæstv. iðnrh. útskýrir kannski eða kemur að því hér í umræðum hvernig hann lítur á þau mál.

Þá var lyfjakostnaðurinn. Vissulega veldur áhyggjum hvernig á að vera hægt að spara 30 millj. kr. á þeim lið eins og ekkert sé. Hæstv. ráðherra kynnti lauslegar hugmyndir í því efni og það átti ekki að koma við sjúklinga að neinu leyti. Þetta virtist eiga aðeins að koma fram í því að læknar mundu fækka lyfjaávísunum sínum. Það er þá eins og að það komi ekkert við sjúklinga. Ætli þessar lyfjaávísanir séu þá allar bara út í loftið? Þetta hefur reyndar oft verið til umræðu eða alla vega nefnd starfað að því lengi, vafalaust fleiri en ein, að finna einhver ráð til að skera niður kostnað vegna lyfja og læknismeðferðar. Það hefur ekki gengið betur en svo að þær tillögur hafa ekki litið dagsins ljós, en kannski hafa hæstv. ráðherrar fundið ráð til þess að fá þær tillögur fram og framkvæma. En mjög var erfitt að átta sig á því í máli hæstv. ráðherra hvernig það yrði framkvæmt.

Í sambandi við þær fréttir sem hafa verið að berast utan úr þjóðfélaginu held ég að þeir atburðir sýni að hæstv. ríkisstjórn sé í harla litlu sambandi við fólkið, litlum tengslum við fólkið í landinu og átti sig alls ekki á undiröldunni sem er að velta kænunni þeirra eða hvolfa þjóðarskútunni. Menn tala hér og tala, þ.e. hæstv. ráðherrar, eins og þeir hafi fundið sannleikann og haldi öllum þráðum í hendi sér og höfða til ábyrgðartilfinningar launafólks. Þeir séu aldeilis búnir að gera sitt í ríkisstjórninni og nú velti allt á skynsemi launafólksins. Efnahagslífið er að þeirra dómi nú undir því komið að almennt launafólk láti yfir sig ganga að leiðtogar þeirra semji um smánarupphæðir fyrir fulla vinnu. En hæstv. ráðherrar hafa reiknað skakkt. Fólkið sættir sig ekki við þetta lengur. Því er nóg boðið. Og ábyrgðin er á herðum ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan stóð saman eins og einn maður hér í vetur og reyndar með góðum tilstyrk hv. þm. Karvels Pálmasonar gegn því óhæfuverki að leggja 25% söluskatt á matvæli sem er einhver heimskulegasta aðgerð sem hæstv. ríkisstjórn gat fundið upp á. Ekki bara vegna þess að hún er árás á heimilin í landinu heldur einnig vegna þess að hún var verðbólguhvetjandi og storkun við launafólkið. Þetta sögðum við aftur og aftur og réðum hæstv. ráðherrum heilt, að þetta skyldu þeir ekki gera. Við vöruðum við afleiðingunum. Þið hlustuðuð ekki og tókuð ekki ráðum okkar og viljið enn ekki viðurkenna hversu rangt þetta var. En það sem er siðferðislega rangt getur ekki verið pólitískt rétt, sagði William Gladstone, og þið frömduð pólitískt glapræði með því að leggja þennan matarskatt á.

Það er einmitt vegna þessara röngu aðgerða sem fólk er nú að rísa upp og hafna þeim smánarsamningum sem hæstv. ráðherrar hönnuðu með „prestastéttinni“ í Garðastrætinu. Og þið getið ekki látið eins og það sé ekkert að gerast. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því sem er að gerast núna sem afleiðing af þessum samningum. Það er gífurleg reiði í fólki. Það er réttmæt reiði og hún beinist ekki síst að hæstv. ríkisstjórn sem hefur gleymt að halda sambandi við fólkið í landinu og talar nú af alvörugefinni ábyrgð um hóflega og sanngjarna samninga. En hæstv. ráðherrar hafa annaðhvort gleymt því eða aldrei vitað það eða hafa ekki áhuga á að kynna sér hvernig er að reyna að lifa af slíkum launum sem var verið að semja um.

Ég held að það sé tími til kominn að reyna að stokka upp og gera eitthvað í þessum málum. Ég held að það sé tími til kominn að fulltrúar löggjafans og framkvæmdarvaldsins, fulltrúar verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, reyni að stokka upp þetta kerfi og finna leiðir út úr þeim ógöngum sem við erum komin í. Það er alveg sama hvaða ráðstafanir á ráðstafanir ofan eru gerðar. Þær bjarga ekki lágtekjufólkinu. Og það er auðvitað til algerrar skammar að láta slíka misskiptingu auðsins viðgangast í þessu þjóðfélagi sem er þrátt fyrir allt ríkt. Eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði: Það þarf enginn að vera hissa á því að fólkið skuli vera að láta álit sitt í ljós með því að fella þessa samninga sem eru auðvitað alger smán og eru gerðir í skugga matarskatts. Og það er ekki bara matarskatturinn. Það líður varla svo dagur að lágtekjufólk sé ekki löðrungað með blautri tusku þegar fjölmiðlarnir skýra frá einni fréttinni af annarri um kjör hinna og annarra í þjóðfélaginu, fréttum af ótrúlegu launabili og fréttum af mönnum í trúnaðarstöðum sem rífast eins og krakkar í sandkassa og þveitast landanna á milli til að rakka hver annan niður. Og ótrúlegar launatölur eru dregnar fram í dagsljósið. Það er upplýst um sextánfaldan launamun sem ekki er óalgengur. Það er allt þetta sem safnast saman og veldur þessari gífurlegu óánægju fólks sem er nú að sýna hug sinn í atkvæðagreiðslum.

Mér finnst einhvern veginn eins og hæstv. ráðherrar þurfi að tengja og hefðu kannski átt að tengja áður en þeir hófu síðustu ráðstafanagrautargerð.