04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5521 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. minni hl. hefur nú verið fremur hart keyrt í nefndarstörfum og raunverulega ekkert tóm gefist til að gaumgæfa þá pappíra sem gestir okkar hafa fóðrað okkur með né að melta þær upplýsingar og spádóma sem heyrst hafa og heyrðust á nefndarfundi í morgun.

Eitt er þó orðið aldeilis morgunljóst og þurfti reyndar ekki nefndarfund til, nema þá til að skrá orðrétt eftir þjóðhagsstjóra, að engin spá er betri en forsendurnar. Og sakar ekki að bera hagfræðing fyrir því. En það er einmitt það sem segir okkur að þessar ráðstafanir muni ekki leysa þann vanda sem þeim er ætlað.

Það sakar heldur ekki að minna á annað gullkorn sem segir að stjórnviska sé sú list að ráða fram úr einni kreppu með því að stofna til annarrar, en það er einmitt það sem margir sjá út úr þeim ráðstöfunum sem staðfestar eru í frv. þar sem með þeim er verið að reyna að velta vanda sjávarútvegsgreinanna yfir á sveitarfélögin að miklum hluta.

Ég þarf kannski ekki að hafa mörg orð um frv. nú í 2. umr. Viðhorf og afstaða okkar kvennalistakvenna hefur þegar komið fram. Við erum samþykkar því að aðgerða var þörf til að létta róðurinn í sjávarútveginum. Við erum samþykkar því að nauðsynlegt sé að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt að fullu í sjávarútvegsgreinunum og samkeppnisgreinum iðnaðarins og við erum að sjálfsögðu samþykkar því að taka launaskattinn til baka, enda vorum við andvígar því að leggja hann á. Við erum einnig samþykkar því að fresta breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þótt við vonum sannarlega að með því sé málið ekki drepið. En það var okkar skoðun frá upphafi að til þeirrar aðgerðar þyrfti að vanda betur og gefa sveitarfélögunum lengri aðlögunartíma. Við erum því hlynntar að þessar breytingar verði undirbúnar með hliðsjón af því að þær taki gildi um næstu áramót og þá í góðu samkomulagi við fulltrúa sveitarstjórna um allt land.

Hins vegar sjáum við ekki réttlæti þess að skerða Jöfnunarsjóðinn í tengslum við þessa frestun svo sem gera á. Hann var svo sannarlega skertur fyrir og það er ljóst að með þessu er mörgum sveitarfélögum gert afar erfitt fyrir og það er ekki síst með tilliti til þessa sem við höfum leyft okkur að segja að með þessum aðgerðum öllum sé verið að reyna að velta vanda sjávarútvegsgreinanna yfir á sveitarfélögin. Það verður bersýnilega afar erfitt fyrir sveitarfélögin að bregðast við þessum niðurskurði þar eð þau hafa vafalaust að miklu leyti nú þegar bundið það ráðstöfunarfé sem þau töldu sig hafa til reksturs og framkvæmda á þessu ári. Það er því hætt við að mörg þeirra verði að reyna að leysa sín mál með dýrum lánum og þannig mun sá vandi vinda upp á sig.

Það var vissulega þungt í bæjarstjórum Kópavogs og Hafnarfjarðar sem komu á fund nefndarinnar í morgun. Þeim var þungt í hug til ríkisvaldsins og töluðu mikið um alvarlegan trúnaðarbrest milli ríkis og sveitarfélaga í landinu. Það orð heyrðist aftur og aftur á fundi nefndarinnar í morgun, trúnaðarbrestur. Þeir sögðu svigrúm lítið í bæjarfélögum sínum til að mæta þessari atlögu ríkisvaldsins að tekjustofnum þeirra. En það er ekki eini vandinn sem sveitarfélögin þurfa að kljást við þar eð breytingar á tekjuskattslögunum með upptöku staðgreiðslukerfisins hafa valdið þeim vissum óþægindum og breytt stöðu mála og innkomu tekna. En það er kannski annar handleggur sem ekki verður tekinn fyrir núna.

Það er rétt að taka fram að vitaskuld gafst ekkert ráðrúm til að kanna viðhorf og afstöðu neinna fulltrúa minni sveitarfélaganna, en það er enginn vafi á að þeirra vandi verður ekki minni að vöxtum.

Því miður gaf borgarstjórinn í Reykjavík sér ekki tíma til að koma á fund nefndarinnar þrátt fyrir að óskað væri eftir því. Ekki síst hefðum við kosið að heyra viðhorf hans með tilliti til eindreginna tilmæla um samdrátt í framkvæmdum á vegum sveitarfélaga, en til þess töldu fyrrgreindir bæjarstjórar, þ.e. í Kópavogi og Hafnarfirði, engin efni í sínum bæjum. Hins vegar má af fréttum ráða að Reykjavíkurborg hafi frekast möguleika á slíkum samdrætti og er þá fyrst að minna á marengs-toppinn á Öskjuhliðartönkunum að ógleymdu ráðhúsi og vafalaust fleiri framkvæmdum sem gaman hefði verið að ræða nánar við borgarstjóra. En hann mátti ekki vera að því að koma á fund fjh.- og viðskn. í morgun.

Við kvennalistakonur höfðum miklar áhyggjur af niðurskurði til húsnæðismála og óttuðumst að afleiðingar þess niðurskurðar yrðu svikin loforð sem að sjálfsögðu hefðu þá einfaldlega þýtt harmleik fyrir fjölda manns. Fulltrúar Húsnæðisstofnunar, sem komu á okkar fund í morgun, telja að svo verði ekki. Þeir hafi skilið eftir svigrúm sem dygði til að mæta þessum niðurskurði. Hins vegar sögðu þeir að þessi niðurskurður mundi bitna á framkvæmdalánum vegna byggingar íbúða fyrir aldraða og er það hörmuleg niðurstaða þar sem ástandið í þeim málum er ekki svo björgulegt að á þann lið mætti ganga. En í þeim flokki, þ.e. til framkvæmdalána, er ekki búið að binda neitt fastmælum þannig að niðurstaðan af samræðum okkar við fulltrúa Húsnæðisstofnunar er sú að það muni ekki þurfa að svíkja gefin loforð.

Við fengum fleiri gesti, t.d. vegamálastjóra sem við spurðum um áhrif 125 millj. kr. niðurskurðar til vegamála. Því miður hef ég glatað, einhvers staðar er í fórum mínum pappír sem við fengum frá vegamálastjóra um hvernig síðustu tölur líta út í sambandi við vegamálin, en það kom fram að vegna þess að tekjuáætlun hafði verið of tæp, þ.e. að áætlun tekna vegna markaðra tekjustofna hafði verið of tæp, menn höfðu ekki reiknað með jafnmiklum tekjum af bensíngjaldi og fleira, mundi þessi niðurskurður ekki valda því að gengið yrði á gerða samninga né að yrði að skera niður framkvæmdir sem hafa þegar verið ákveðnar á þessu ári, en að sjálfsögðu mundi langtímaáætlun enn raskast.

Hér hefur verið fjallað um K-bygginguna. Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri og fulltrúi yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð kom á okkar fund og skýrði þar fyrir okkur hvernig þessi áætlaði niðurskurður mundi koma við þær framkvæmdir sem þar höfðu verið ætlaðar. Menn skyldu hafa í huga að þessi 20 millj. kr. niðurskurður, sem áformaður var, hefur ekkert með byggingarframkvæmdirnar sjálfar að gera og mundi þess vegna ekki þýða neinn samdrátt til að hafa áhrif á þenslu eins og menn vilja gjarnan beita þar eð þessi niðurskurður mundi fyrst og fremst þýða að fresta yrði kaupum á tækjum í húsbúnaði og öðrum búnaði sem nauðsynlegur er til þess að þessi bygging verði tekin í notkun og komi að tilætluðum notum. En að vísu mun þessi niðurskurður einnig hafa önnur áhrif, þ. e. að tefja með óbeinum hætti fyrir frekari lagfæringum og endurbótum á kennsluaðstöðu, rannsóknastarfsemi o.fl., en þarna er mikil þörf á því að bæta alla aðstöðu og starfsfólk orðið ákaflega langþreytt að bíða eftir úrbótum í þessum efnum.

Eins og kom fram í máli frsm. meiri hl. og minni hl. áðan urðu töluverðar umræður um þetta í nefndinni og ég get staðfest að við vorum öll einhuga um að það væri nauðsynlegt að kanna mjög vel hvort ekki mætti mæta þessum niðurskurði á einhvern annan hátt og væri út af fyrir sig hægt að benda á ýmsa liði. Ég held að ráðherrar mættu t.d. líta sér nær og skera niður á eigin bæjum. Það eru ýmis fjárútlát áætluð í sambandi við innréttingar, tölvukaup o.fl. af því tagi, sem eru vissulega allt saman nauðsynlegar aðgerðir, en þetta hlýtur að vera spurning um forgang og ætli við metum ekki flest þegar allt kemur til alls meira að hafa til tæki og húsgögn sem nýtast vegna þjónustu við sjúka en til skrifstofuhalds. En við verðum að vona að tekið verði tillit til vilja sem kom fram í máli þeirra sem töluðu á undan mér.

Ég þarf e.t.v. ekki að segja mikið meira um þetta. Það komu á okkar fund fulltrúar launþegasamtakanna og þeirra orð voru að sjálfsögðu nánast nákvæmlega samhljóða því sem við höfum margsagt héðan úr þessum ræðustól. Launafólki er ofboðið vegna vanefnda ríkisvaldsins og aðgerðir ríkisvaldsins hafa manað upp ónægju fólksins. Það er fyrst og fremst matarskatturinn og e.t.v. ekki síður, eins og ég minntist á í ræðu minni í gær, fréttir og upplýsingar um misgengi í þjóðfélaginu, misgengi á milli hópa fólks og misgengi milli atvinnuvega sem valda hinni gífurlegu óánægju fólks og því sem er að koma fram í atkvæðagreiðslu um þá samninga sem gerðir hafa verið. Það er einmitt þessi niðurstaða sem sýnir að hæstv. ráðherrar hafa misreiknað sig og ekki gætt þess að vera í nægilega miklum tengslum við fólkið í landinu. Það er ástæða til að minna á frumskógalögmálið. Fólkið er að hafna frumskógalögmálinu.