04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5524 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að stíga í ræðustól vegna þess sem fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann fjallaði um framlög í byggingarsjóðina. Hv. þm. er ekki viðstaddur, en ég vil engu að síður láta koma fram að hv. þm. hélt því fram að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við sinn hlut varðandi framlög í Byggingarsjóð ríkisins vegna nýju húsnæðislaganna. Það er vissulega rétt að verkalýðshreyfingin hefur haldið því fram að ríkisvaldið hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar í þessu efni, hvorki á þessu né síðasta ári. Verkalýðshreyfingin hefur litið svo á að þær 1000 millj. sem fóru í húsnæðiskerfið þegar nýju lögin voru samþykkt á sínum tíma, 1986, ættu að vera verðtryggðar og miðað við þau framlög sem fram koma á fjárlögum og lánsfjárlögum hafi ríkisvaldið ekki staðið við sínar skuldbindingar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í þessu sambandi tölu á bilinu 1000–1100 millj. kr. og blandaði þar m.a. í svokallaðri frystingu sem fram kemur á fjárlögum yfirstandandi árs að því er varðar hluta af fjármagni frá lífeyrissjóðunum. Ég held að það sé nauðsynlegt að upplýsa hið rétta í þessari stöðu.

Það kemur fram í gögnum sem ég hef frá Húsnæðisstofnun varðandi framlag ríkissjóðs á þessu ári, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í greinargerð sem fylgir með frv. til breytinga á lögum Húsnæðisstofnunar ríkisins, nr. 60/1984, lög nr. 54/1986, kemur fram að framlag ríkissjóðs miðað við gefnar forsendur skuli ekki vera lægra en 1000 millj. kr. á ári. Sé þessi tala framreiknuð yfir á fjárlagaverðlag ársins 1988 með byggingarvísitölu verður hún 1450 millj. kr.“

Af þessu má draga þá ályktun að það sé skoðun Húsnæðisstofnunar að miðað við þessar forsendur, sem þarna voru gefnar, ætti framlag ríkissjóðs á þessu ári að vera 1450 millj. kr.

Að því er varðar frystingu á hluta af skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna kemur fram í fjárlögum að þar sé um að ræða 500 millj. kr.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í það sem fram kemur í frv. til fjárlaga, greinargerð fyrir árið 1988, að því er þetta varðar, en þar segir: „Þá er miðað við að 150 millj. kr. af því fjármagni verði varið í sama skyni á árinu 1988. Miðað er því við að í árslok 1988 verði 500 millj. kr. í sjóði hjá Byggingarsjóði ríkisins. Er þetta m.a. gert vegna þess að veruleg aukning er á ráðstöfunarfé byggingarlánasjóðanna og hætta á að vaxandi þensla ýti undir hækkun íbúðaverðs. Ákvörðun þessi getur þó komið til endurskoðunar ef forsendur breytast verulega, t.d. ef ráðstöfunarfé lífeyrissjóða reynist vera undir áætlun eða ef verðlag rýrir framkvæmdamátt.“

Um var að ræða að á haustmánuðum á síðasta ári kom fram ný áætlun um ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á árinu 1987. Um var að ræða að áætlað var að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna yrði 825 millj. meira en ráð var fyrir gert á fjárlögum ársins 1987. Sú ákvörðun var tekin með fjárlögum að frysta 500 millj. af þessum 825 millj. fyrir árið 1987 og geyma í sjóði til ársloka 1988. Nú hefur komið í ljós að þetta ráðstöfunarfé, þessar 825 millj., hefur ekki skilað sér í byggingarsjóðina. Það kemur í ljós að í staðinn fyrir að áætlað var að kaupin yrðu 4 milljarðar og 590 millj. kr. hafa kaupin einungis orðið 4 milljarðar 195 millj. kr. Niðurstaðan er því sú að af þeim 825 millj., sem áætlað var að kæmu til viðbótar frá lífeyrissjóðunum á árinu 1987, hafi einungis skilað sér 430 millj. Þeim hefur verið ráðstafað með þeim hætti að 150 millj., eins og er samkvæmt fjárlögum, hefur verið varið í greiðsluerfiðleikalán, sem er samkvæmt því sem ætlað er í fjárlögum, 175 millj. hefur verið ráðstafað í lánsloforð eða samtals 255 millj. kr. Eftir standa því af þeim 430 millj. sem skiluðu sér 105 millj. Ef menn eru að tala um að hér sé fryst fjármagn, geymt fjármagn í sjóði nú um síðustu áramót sem geymast eigi til næstu áramóta vegna skuldabréfakaupa lífeyrissjóðanna árið 1987 er það ekki rétt. Sú frysting er ekki 500 millj. kr. heldur 105 millj. kr. sem eru í sjóði. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi fram í þessari umræðu, einkum vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, auk þess sem ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur mjög andmælt því að 500 millj. yrðu frystar hjá Byggingarsjóði ríkisins. Eins hefur verið talið að lífeyrissjóðirnir héldu m.a. verulega að sér höndum að því er varðar skuldabréfakaup af Húsnæðisstofnun fyrir árin 1988 og 1989 vegna frystingar á þessum fjármunum.

Ég held að það sé rétt líka að upplýsa það hér varðandi skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna, og um það hef ég upplýsingar, að fyrir 1989 hafa 54 lífeyrissjóðir samið við Húsnæðisstofnun og fyrir 1990 hafa 33 sjóðir samið. Nokkrir sjóðir hafa enn ekki samið, hvorki fyrir árið 1989 né fyrir árið 1990, og ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa úr ræðustól hvaða sjóðir það eru sem hvorki hafa samið fyrir árið 1989 eða fyrir árið 1990. Það eru Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna, Eftirlaunasjóður Hafnarfjarðarkaupstaðar, Eftirlaunasjóður starfsmanna Olíuverslunar Íslands, Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbankans, Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka, Lífeyrissjóður Akraneskaupstaðar, Lífeyrissjóður apótekara og lyfjafræðinga, Lífeyrissjóður bókagerðarmanna, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður Félags íslenskra hljómlistarmanna, Lífeyrissjóður Félags íslenskra stjórnunarstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli, Lífeyrissjóður Félags starfsmanna í veitingahúsum, Lífeyrissjóður Landssambands vörubifreiðastjóra, Lífeyrissjóður Neskaupstaðar, Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðarverksmiðjunnar, Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF, Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands, Lífeyrissjóður trésmiða á Akureyri, Lífeyrissjóður verkafólks Grindavík, Lífeyrissjóður Verkalýðsfélags Norðurlandi vestra og Lífeyrissjóður verkamanna á Hvammstanga — eða samtals um 22 lífeyrissjóðir.

Það er auðvitað ljóst og það hefur komið fram áður og ætti öllum að vera ljóst og líka forráðamönnum þessara lífeyrissjóða að verði ekki samið um skuldabréfakaup við Húsnæðisstofnun fyrir árið 1989 og 1990 mun það koma niður á sjóðfélögum þessara lífeyrissjóða sem ekki munu hafa lánsrétt hjá Byggingarsjóði ríkisins.

Það var kannað sérstaklega með símtölum við þessa lífeyrissjóði hvort þeir hygðust ekki ganga til skuldabréfakaupa við Húsnæðisstofnun. Í ljós kom að flestir þessara 22 sjóða hygðust gera það. Þó voru það þrír sjóðir sem ekki sögðust mundu ganga til samninga við Húsnæðisstofnun að því er varðar skuldabréfakaup. Ég held að það sé nauðsynlegt líka að upplýsa að um er að ræða Lífeyrissjóð atvinnuflugmanna, sem upplýsir að hann muni ekki ganga til samninga, og Lífeyrissjóð Tannlæknafélags Íslands. Einnig kom fram að það væri nokkuð óljóst hvort Lífeyrissjóður verkafólks í Grindavík mundi ganga til samninga. Þetta eru þeir þrír sjóðir af 22 sem standa eftir. A.m.k. tveir munu ekki ganga til skuldabréfakaupa og jafnvel sá þriðji, en aðrir af þeim 22 sem eftir standa sögðust mundu ganga frá samningum um skuldabréfakaup á næstunni.

Að því er varðar orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar get ég auðvitað undir það tekið og tel að framlög ríkissjóðs í byggingarsjóðina þurfi að vera meiri. Ekki bara til að standa við það sem verkalýðshreyfingunni hefur verið lofað, eins og hv. þm. hélt fram, heldur er alveg auðsætt að ef það á að standa við þau loforð sem voru gefin með nýju húsnæðislöggjöfinni þarf ríkisframlagið að vera meira. Meðan við búum við þetta kerfi þarf auðvitað ríkisframlagið að vera meira til þess að biðraðirnar verði ekki með þeim hætti sem þær eru. En auðvitað þurfum við að komast út úr þessu kerfi og ég held að flestir séu um það sammála að það þurfi að gera. Og að því er nú unnið í félmrn. af nefnd sem hefur verið skipuð að kanna hvaða kostir eru fyrir hendi til að endurskipuleggja húsnæðislánakerfið.

Ég tel einnig rétt að upplýsa að því hefur verið haldið fram í umræðum um þetta mál á hv. Alþingi að með því að skerða 100 millj. af ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári væri ekki hægt að standa við gerða samninga. Þessu var m.a. haldið fram í umræðum í gær og kom fram hjá einum stjórnarliða að hann sá ekki að það var hægt að mæta þessu öðruvísi en að taka af framlagi í kaupleiguíbúðir, en það framlag er áætlað úr Byggingarsjóði verkamanna. Þetta kom fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni. Hann taldi að það væri ekki hægt að standa við gerða samninga með 100 millj. kr. skerðingu og því yrði að skerða framlög til kaupleiguíbúða. Staðan að því er þetta varðar og eftir því sem ég hef bestar upplýsingar um er sú að það eru enn 200 millj. óráðstafaðar í Byggingarsjóði ríkisins á þessu ári. Það skýrist af því að það hafa ekki enn verið afgreiddar beiðnir til framkvæmdaaðila, þ.e. til söluíbúða aldraðra, leiguíbúða fyrir aldraða, dagvistarstofnana og til dvalarheimila. Ástæðan fyrir því að þessu hefur ekki verið ráðstafað var í fyrsta lagi sú að beiðnir höfðu ekki borist frá öllum framkvæmdaaðilum. Því var beðið með að úthluta þessum 200 millj. Í öðru lagi óvissa varðandi skuldabréfakaup og í þriðja lagi óvissa í verðlagsbreytingum. Vegna þess að það fjármagn sem Byggingarsjóður ríkisins hefur ráðstafað er miðað við að verðlagsbreytingar milli ára fari ekki yfir 14,5%. Ef þær gera það er gengið á þessar 200 millj. af því að lánin hækka í takt við lánskjaravísitölu.

Ég hef lýst andstöðu minni við að framlag Byggingarsjóðs ríkisins skuli skert. Ég taldi þegar nóg að gert að skerða framlögin í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna þegar fjárlögin voru afgreidd hér og var um það öllum kunnugt hver mín afstaða var í því efni. Þess vegna tel ég alveg óviðunandi að ganga lengra í þessu efni á byggingarsjóðina. Ég tel, og vísa þá í þær forsendur sem lágu að baki þessari frystingu, sem ég vil, með leyfi forseta, ítreka, en þar stendur að því er varðar þessar áætluðu 500 millj.: „Ákvörðun þessi getur þó komið til endurskoðunar ef forsendur breytast verulega, t.d. ef ráðstöfunarfé lífeyrissjóða reynist vera undir áætlun“ - reynist vera undir áætlun stendur hérna - „eða ef verðlag rýrir framkvæmdamátt.“

Ég hef lýst því hér að þessi frysting er ekki 500 millj. kr. heldur 105 millj. kr. Í ljós hefur komið að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna reyndist undir því sem áætlað var á árinu 1987. Þess vegna tel ég að þær forsendur hafi breyst að því er varðar þessa frystingu og því eigi að aflétta þessari frystingu og að þessar 105 millj., sem nú standa í sjóði um sl. áramót, skili sér inn í Byggingarsjóð ríkisins. Það eigi að aflétta þessari frystingu og að þetta fjármagn eigi að skila sér í byggingarsjóðinn aftur. Það er mín skoðun í þessu efni og með því móti getum við komið í veg fyrir að sú ráðstöfun sem hér er gerð, að taka 100 millj. af Byggingarsjóði ríkisins, komi með einum eða öðrum hætti niður á þeim samningum eða þeim lánsloforðum sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur gert. Þess vegna er það mín skoðun að þetta eigi að endurskoða.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að láta þetta koma fram í þessari umræðu vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Hann hélt því fram og reyndar vissi ekki betur og það er skiljanlegt að þarna væru 500 millj. frystar um áramótin sl. í Byggingarsjóði ríkisins. (SJS: Ætli þær hefðu verið frystar hefðu þær verið til?)

Það hefur komið fram að ég hef bókað andstöðu í ríkisstjórn við í fyrsta lagi skerðingu á framlagi í byggingarsjóðinn og ég hef lýst þeirri skoðun minni hérna að ég teldi að þar væri of langt gengið og þarf út af fyrir sig ekki að rökstyðja það hér frekar þó að um það mætti hafa fleiri orð. Ég hef líka haldið því fram og bókað andstöðu mína við það í ríkisstjórn að það væri ekki skynsamlegt, eins og nú virðist vera niðurstaðan, að hætta við áform um að fyrsti hluti verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga kæmi til framkvæmda á þessu ári og þá skerðingu sem orðið hefur á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég hélt því fram í Ed. um daginn að þetta væri óskynsamleg ráðstöfun og taldi að það mundi rýra traust sveitarfélaganna til ríkisvaldsins og hefur það reyndar komið fram í ýmsum bókunum frá sveitarfélögunum og m.a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um þetta mál. Ég tel að þó að ekki hafi allir verið alls kostar ánægðir með frv. um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og frá örfáum sveitarfélögum hafi komið andstaða við það mál hafi engu að síður verið skynsamlegra að halda því áfram og var reyndar allan tímann sannfærð um að ef það yrði ekki gert mundi koma enn meiri andstaða frá sveitarfélögunum í þessu máli eins og raunin hefur orðið á.

Ég taldi, eins og fram hefur komið, nauðsynlegt að þessi skoðun mín kæmi fram í ríkisstjórninni og taldi nauðsynlegt að bóka þá afstöðu mína og andstöðu við þessa þrjá þætti að því er varðar þessar efnahagsaðgerðir, en ég mun auðvitað axla þá ábyrgð að öðru leyti sem fylgir þessum efnahagsaðgerðum.