04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5534 í B-deild Alþingistíðinda. (3677)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Þrátt fyrir þann knappa tíma sem við höfum ætla ég að minnast aðeins á nokkur atriði í því frv. sem er til umræðu.

Það er látið að því liggja að sú mikla skerðing á Jöfnunarsjóðnum sem nú er gert ráð fyrir sé vegna þess að ákveðið er að fresta gildistöku frv. sem nú er til umfjöllunar í félmn. deildarinnar um breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta er auðvitað ekki rétt. Ef framlag til Jöfnunarsjóðs væri óskert, þ.e. 5% af aðflutningsgjöldum og 8% af 20% söluskatti, væru tekjur Jöfnunarsjóðs 1655 millj. skv. fjárlagafrv. Skv. lánsfjárlögum átti að skerða fé til sjóðsins og átti það að vera 1540 millj. kr., 100 millj. kr. áttu að fara til uppgjörs við sveitarfélögin vegna þeirra framkvæmda sem ríkissjóður hefur skuldbundið sig til að taka þátt í. 100 millj. áttu síðan að fara til þeirra verkefna sem sveitarfélögin áttu að taka yfir frá ríkinu og ríkissjóður hyggst nú samkvæmt því sem stendur í fylgiskjölum með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum verja 130 millj. kr. til þeirra verkefna sem áður var gert ráð fyrir að verja 200 millj. kr. til. Auk þessa seilist ríkisstjórnin enn frekar í fé Jöfnunarsjóðsins. Þannig er gert ráð fyrir aðeins 1142 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á þessu ári. Þetta kemur mjög illa við sveitarfélögin, sérstaklega þau minni, og kemur sér verst úti á landsbyggðinni. Ég geri t.d. ráð fyrir að það breyti litlu um fjárfestingar og framkvæmdir Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hvort framlög Jöfnunarsjóðsins eru meiri eða minni. En fyrir önnur sveitarfélög skiptir þessi skerðing verulegu máli.

Ég vil upplýsa það, herra forseti, að fjöldi sveitarstjórna og flest landshlutasamtök hafa sent félmn. Nd. álit á frv. um breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði við umræðurnar í gærkvöld að flestir sem sendu umsagnir um frv. vildu að það yrði samþykkt með ákveðnum óverulegum breytingum. Ég túlka umsagnirnar ekki á sama hátt. Landshlutasamtök sveitarfélaganna hafa öll átalið skerðinguna til Jöfnunarsjóðsins og sum beinlínis mælt gegn samþykkt breyttrar verkaskiptingar nú þar sem óvissa ríkir um uppgjör og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna. Einnig átelur meiri hluti þeirra sem láta álit í ljós að nú séu aðeins flutt verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Ef ég man rétt hafa t.d. öll sveitarfélög á Austurlandi mælt gegn samþykkt frv. og þar af leiðandi líka Samtök sveitarfélaga á Austurlandi og einhver fleiri sveitarfélög, sem hafa sent umsagnir, hafa beinlínis mælt gegn samþykkt frv. Öll hafa verið með miklar efasemdir, sérstaklega varðandi fjármálalegt uppgjör. Í ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga frá 22. jan. 1988 stendur, með leyfi forseta, þegar verið er að fjalla um frv. til laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga:

„Jafnframt gerir stjórnin þá kröfu að samhliða verði tryggðar nýjar tekjur til að mæta þessum verkefnum. Stjórnin ítrekar þá kröfu sveitarfélaganna, sem margoft hefur verið sett fram, að skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs verði afnumin og þaki létt af tekjum sjóðsins.“

Þarna eru ýmsar efasemdir á lofti og ekki rétt að það séu mjög fáir sem séu á móti samþykkt þessa frv. því að það eru flestallir sem efast um að sveitarfélögin hafi bolmagn til að taka við þeim verkefnum sem þarna var um að ræða.

Ég vil taka fram til að hressa upp á minni hv. 1. þm. Vesturl., fyrrv. félmrh., og í tilefni orða hans í gær að Jöfnunarsjóðurinn var skertur verulega allt síðasta kjörtímabil. Á síðasta ári fyrrv. ríkisstjórnar var hann skertur hlutfallslega nákvæmlega jafnmikið og hann er skertur núna.

Ég undirstrika að ég hef aldrei verið ósátt við að einfalda skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og að breyta þeirri skiptingu sem nú er á þar á milli, einfalda hana og gera hana skýrari. En ég var á móti því að það frv. sem við vorum að ræða um hér fyrr í vetur yrði samþykkt óbreytt og vildi fresta því að tekið yrði á þessum málum fyrr en tekið yrði á því öllu í einu og að fjármálaleg samskipti væru líka ljós.

Herra forseti. Það hefur komið fram við þessa umræðu að fulltrúar frá Húsnæðisstofnun ríkisins telja að ekki þurfi að svíkja fólk um lán sem hafa nú þegar fengið lánsloforð. Í samtali sem Morgunblaðið hafði við Rannveigu Guðmundsdóttur, formann húsnæðismálastjórnar, segir, með leyfi forseta: „Rannveig sagði í samtali við Morgunblaðið að þau lán sem koma til greiðslu á þessu ári séu öll greidd út samkvæmt lánveitingum, svokölluðum lánsloforðum, á síðasta ári eða fyrr. Þess vegna væri þessi skerðing nú á framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins óskiljanleg. Hún hlýtur að bitna á lántakendum. „Við erum ekki að fjalla um peninga sem er ráðstafað nú heldur útborgun peninga sem var ráðstafað 1987 og við vitum ekki hvort við þurfum í árslok að stöðva greiðslur sem búið var að lofa“, sagði Rannveig í viðtali við Morgunblaðið miðvikudaginn 2. mars sl. Það er því ánægjulegt ef ekki þarf til þess að koma að svíkja fólk um lán sem því hefur verið lofað. Mér finnst hins vegar slæmt ef ganga þarf á það fé sem ætlað er til framkvæmdalána vegna byggingar húsnæðis fyrir aldraða eða það fé sem ætlað er til greiðsluerfiðleikalána.

Hæstv. félmrh. upplýsti áðan að 200 millj. kr. væri óráðstafað hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Hæstv. ráðherrann upplýsti einnig að gert væri ráð fyrir 14,5% hækkun á verðlagi milli ára. Ég held að það verði því varla mikið eftir af þessum 200 millj. í árslok því varla trúir félmrh. því að verðbreytingar á milli áranna 1987 og 1988 verði ekki meiri en 14,5%. Það er því ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þessum niðurskurði til Húsnæðisstofnunar.

Ég hafði, herra forseti, hugsað mér að spyrja heilbrmrh. nokkurra, aðallega tveggja, spurninga. Er hann í húsinu? (Forseti: Hæstv. heilbrmrh. er ekki kominn í húsið, en hann er væntanlegur innan tíðar.) Ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. heilbrmrh. að því hvort hann hefði hugsað út í hvernig hann ætlar að mæta 30 millj. kr. niðurskurði vegna lyfjakostnaðar. Ég hafði einnig hugsað mér að spyrja hann að því hvernig hann ætlaði að fá þær 20 millj. sem meiri hl. félmn. mælti með að færi í K-bygginguna því ég heyrði ekki betur en að frsm. meiri hluta nefndarinnar hefði sagt áðan að þessar 20 millj., sem þeir mæltu með að færu til K-byggingarinnar, ætti að taka annars staðar úr heilbrigðiskerfinu. Ég geri mér ekki ljóst hvernig heilbrmrh. hefur hugsað sér að reyna að ná í þessar milljónir. Þess vegna hefði ég svo gjarnan viljað fá að heyra í honum hér. En ég ætla nú ekki að tefja umræðurnar ef hann er ekki í húsinu. (SvH: Hinir ráðherrarnir geta skilað spurningunum til mannsins, allir hinir.) Já, ég geri ráð fyrir því. Allir hinir ráðherrarnir, sem eru hér, allir hinir sem sitja hérna fyrir framan mig, það er nú frekar lítið um þá, geta komið þessu til skila.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð við þessa umræðu, herra forseti. Aðrar þingkonur Kvennalistans hafa gert grein fyrir afstöðu Kvennalistans til frv. að öðru leyti.