07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5552 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

265. mál, launabætur

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa till. sem hér liggur fyrir. Það er ljóst að um langt árabil hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að tryggja kjör láglaunafólksins hér á landi og spurning er hvort þessi till. er öðrum betri. Ég hygg að þessi till., þó vel sé mótuð og af góðum huga lögð fram, nái ekki frekar en aðrar hugmyndir sem komið hafa fram hér á þingi um að ríkið grípi í taumana í þessum málum öðruvísi en það sé gert í gegnum hið félagslega kerfi.

En aðalerindi mitt hingað var nú raunar að taka að hluta til undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hér áðan um stöðuna í þessum launamálum. Ég vil reifa það mál frá örlítið annarri hlið en hann gerði.

Ég hygg að það sem við höfum verið að horfa upp á undanfarna daga, þ.e. verkalýðsfélögin, sem hafa verið að hafna samningum Verkamannasambandsins, geri það af margvíslegum ástæðum og ekki eingöngu af þeirri ástæðu að starfsaldurshækkanir séu ekki nægar. Ég hygg að þetta mál eigi sér miklu víðtækari skýringu. Skýringin felst fyrst og fremst í því að framkoma hins frjálsa peningamarkaðar er orðin með slíkum ólíkindum að það er tvímælalaus ögrun við allt fólk sem vinnur í undirstöðuatvinnugreinum hér á landi. Það er ekki möguleiki að venjulegt starfsfólk í fiskiðnaði á Íslandi geti þolað það til lengdar að sjá í fyrsta lagi hvernig fjármagnið sogast frá atvinnugreininni, frá landsbyggðinni, frá þorpum og bæjum á landsbyggðinni inn á þennan peningamarkað hér í Reykjavík þar sem menn geta notað þetta fjármagn til stórfelldrar ávöxtunar til þess að auka á hina efnalegu stéttaskiptingu í þjóðfélaginu sem m.a. kemur fram í þeim dæmum sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hér um launamuninn í þjóðfélaginu þar sem forsvarsmenn fyrirtækja leika sér að því að vera með 300–400 þús. kr. laun á mánuði. Ég hygg nefnilega að í höfnun þessara samninga felist eins konar uppreisn gegn því kerfi sem við búum við um þessar mundir, því peningakerfi sem við búum við. Og þetta á eftir að verða miklu alvarlegra mál en við gerum okkur grein fyrir um þessar mundir. Miklu alvarlegra mál.

Ég held, herra forseti, að það fólk sem skapar þjóðarauðinn sé orðið löngu uppgefið á því að sjá á eftir því fjármagni sem það skapar í þjóðfélaginu renna inn í þennan glórulausa peningamarkað höfuðborgarsvæðisins þar sem menn, sem aldrei hafa difið hendinni í kalt vatn, geta leikið sér að því að ávaxta þessa fjármuni þannig að efni þeirra fara út fyrir öll skynsamleg mörk. Í 250 þúsund manna þjóðfélagi getur þetta ekki gengið. Það hlýtur öllum að vera ljóst. Jafnvel Morgunblaðið er farið að hafa áhyggjur af þessu.

Ég er búinn, herra forseti, líklega í tvö ár að vara við þróun peningamála hér á landi, bæði vaxtaþróuninni og þeirri þróun sem hefur átt sér stað á hinum svokallaða gráa verðbréfamarkaði, kaupleigufyrirtækjum sem nú eru farin að kaupa atvinnutæki af mönnum og leigja þeim aftur. Svo langt er þetta mál gengið.

Ég hygg að hið háa Alþingi verði að fara að gera sér nokkra grein fyrir því að þetta land er að sporðreisast og það mun hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér, hvort sem menn verja nýfrjálshyggjuna eða gera það ekki. Þetta er komið á svo alvarlegt stig að víða blasir við hrun í atvinnugreinum á landsbyggðinni á sama tíma og peningamagn í umferð hér á höfuðborgarsvæðinu er svo mikið að menn hafa ekki greint annað eins um áratuga skeið.

Ég hygg, herra forseti, að í þessu felist að hluta til sá mikli vandi sem verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir í því að reyna að tryggja láglaunafólkinu sómasamleg laun. Það er í því að atvinnureksturinn í undirstöðuatvinnugreinunum getur ekki og honum helst ekki á fjármagninu til þess að greiða skárri laun. Landsbyggðinni yfirleitt helst ekki á sínu fjármagni. Það sogast inn á peningamarkaðinn hér í Reykjavík vegna þess að það hlýtur að vera gífurleg freisting fyrir hvern þann mann sem hefur yfir einhverjum fjármunum að ráða og hefur ekki marga valkosti úti á landsbyggðinni að ávaxta þetta fjármagn að koma með það inn á verðbréfamarkaðinn hér til stórfelldrar ávöxtunar, miklu meiri en hann á nokkurn kost á á landsbyggðinni sjálfri. Í grundvallaratriðum hygg ég að vandi okkar sem þjóðar felist í þessari misskiptingu fjármagnsins. Og þetta verða menn bara að fara að viðurkenna. Að öðrum kosti stöndum við frammi fyrir því að hin vinnandi stétt í landinu lætur ekki bjóða sér þetta mikið lengur. Það er alveg gjörsamlega útilokað. Fólkið sem býr til fjármunina lætur ekki bjóða sér það ár eftir ár að peningarnir renni hingað í sukkið og ruglið á höfuðborgarsvæðinu, þensluna, fjármagnsmarkaðinn og þá dellu sem yfirleitt ríkir á því sviði. Þannig að ef menn eru í alvöru að hugleiða hvernig eigi að jafna kjörin, þá verða menn að ráðast gegn þessu kerfi með oddi og egg. Þeir eiga engan annan kost. Inn í þetta blandast svo síðan hinn gífurlegi fjármagnskostnaður sem atvinnureksturinn á landsbyggðinni og annars staðar verður að kljást við. Hér er það svo að bæði verslun og þjónusta getur komið þessum fjármagnskostnaði út í verðlagið, en það gera ekki atvinnugreinarnar úti á landi. Það er engin leið.

Þetta þrýstir líka á kröfuna um gengisfellingu. Við þekkjum það mjög vel. Og þrýst er á þær kröfur að ríkisvaldið komi til bjargar þar sem atvinnureksturinn er að kollsigla sig.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. En ég vil bara í umræðunni um kjaramálin, um launamálin að menn geri sér grein fyrir því að fjármagnsmarkaðurinn á Íslandi er farinn að ögra hinu almenna launafólki um of og það svo að það hlýtur að taka til sinna ráða.