07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5558 í B-deild Alþingistíðinda. (3702)

265. mál, launabætur

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu sem hér fer fram en sé mig tilknúinn til þess vegna ræðu síðasta hv. ræðumanns.

Þessi till. sem er til umræðu er í sjálfu sér góð og gagnleg og ég held að umræður um hana hafi verið ákaflega gagnlegar og nauðsynlegt sé fyrir Alþingi Íslendinga að fjalla um þessi mál og glöggva sig á þeim. Það er hins vegar slæmt þegar menn í hita leiksins fara með tölur sem gefa það til kynna að ástandið sé mun verra en það raunverulega er. Hv. síðasti ræðumaður sagði að það kostaði láglaunafólkið úti á landsbyggðinni 30 000 kr. að kynda einbýlishús.

Mér er kunnugt um það að vandi þess fólks sem býr á þeim svæðum þar sem raforkuhúshitun er til staðar er mjög mikill. En ég held að það sé nauðsynlegt í þessum umræðum að hið sanna komi fram og hið sanna er að verð á húshitunarrafmagni er nú lægra en það var öll árin síðustu, að undanskildu því síðasta, allt þar til 1980, sé miðað við verðlag og það er sama við hvaða vísitölu er miðað, hvort sem það er launavísitala, lánskjaravísitala eða byggingarvísitala. Niðurstaðan er ætíð sú sama að verð í dag er lægra en það var þá. Sannleikurinn er hins vegar sá að olía hefur lækkað og olíuverð er nú aðeins þriðjungur af því sem það var fyrir tveimur árum síðan og það er þessi viðmiðun sem fólk horfir á. Þegar verkalýðsleiðtogar og hv. alþm. ræða þessi mál er það afar slæmt fyrir það sem þeir eru að reyna að koma til skila ef þeir geta ekki haldið sig við það sem er satt og rétt í þessum málum því það gæti gefið til kynna að annað í þeirra málaflutningi væri jafn vel grundað og þetta.

Í þáltill. sem hv. þm. Alþb. hafa flutt koma fram í fskj. upplýsingar um þessi mál og þar segir að meðalhitunarkostnaður á 150 m2 íbúð í einbýlishúsi sem ég hygg að sé kannski hús sem láglaunafólk og þeir sem jafnvel hafa hærri laun búa í úti á landsbyggðinni, sé notuð raforka, sé 5 þús. kr. á mánuði og þá allt árið 60 þús. kr. og þetta verð er miðað við verð dagsins í dag. Ef hins vegar hv. síðasti ræðumaður hefur haft rétt fyrir sér er hann að tala um 360 þús. kr. eða 30 þús. á mánuði í 12 mánuði og það er alvarlegt. (Gripið fram í.) Ég segi það, hv. þm., að það er alvarlegt þegar verkalýðsleiðtogi kemur hér í ræðustól og fer með jafnviðkvæmt mál og hér er á ferðinni með þeim hætti sem hann gerir og ég bið hv. þm. í fyllstu hreinskilni og einlægni að haga sínum málflutningi þannig að hið rétta komi í ljós því ég veit að hv. þm. er alvara í huga þegar hann er að nefna slök kjör launafólks og hann hefur verið einn þeirra manna sem hvað harðast hafa gengið fram í því að jafna og bæta kjör þjóðarinnar og þar með landsbyggðarinnar gagnvart öðrum svæðum. En menn mega ekki fara of geyst og keyra út af veginum þótt mikið liggi á. (Gripið fram í.)

Að lokum þetta, hv. þm.: Ég vona að við getum verið sammála um það og það veit ég að við erum að það er rétt sem hér kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að það er verðbólgan sem skiptir máli. Það er ákaflega erfitt fyrir okkur sem berum ábyrgð á stjórn þessa lands að þurfa að draga niður lífskjörin þegar verr gengur. Það hefur aldrei tekist í þessu þjóðfélagi að gera slíkt nema með bullandi verðbólgu. Það er á ábyrgð okkar allra, bæði stjórnvalda, verkalýðsforustunnar og atvinnurekenda í þessu landi að sjá til þess núna - og ég segi þetta núna vegna þess að við lifum núna mjög erfiða tíma þegar samningar hafa fallið, samningar sem hv. þm. stóð að - að þá verðum við að átta okkur á því hvora leiðina við viljum fara. Viljum við draga saman lífskjörin sem við stöndum frammi fyrir með þeirri aðferð sem hv. þm. og síðasti ræðumaður reyndi að gera í samningum sem hann stóð fyrir, að koma í veg fyrir verðbólguna og gera þetta af skynsemi eða ætlumst við til þess að verðbólgan komi nú enn á ný til skjalanna, eins og var fyrir nokkrum árum síðan, og við notum hana og fáum liðsinni hennar til að skerða launin í landinu? Við vitum það, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að verðbólgan gerir mannamun því hún ræðst fyrst og fremst á kjör þeirra sem eru verst settir. Hún byrjar þar. Þess vegna, hv. þm. og síðasti ræðumaður, skulum við vera sammála um þetta. Við skulum beita okkur þar í sameiningu, bæði hér á þingi, í ríkisstjórn og í forustu verkalýðshreyfingarinnar en við skulum ekki haga málflutningi okkar þannig að við gætum haldið, þegar þeir hlusta sem þekkja til málsins, að afgangurinn af ræðunni væri kannski jafnvitlaus og það sem fram kom hjá hv. þm. um þetta atriði sem ég sé mig tilknúinn að leiðrétta.