07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5574 í B-deild Alþingistíðinda. (3710)

265. mál, launabætur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér hafa verið dálítið fjörugar umræður um þessa þáltill. og ekki að ástæðulausu. Það er svo að það játa það allir sem hafa tekið til máls að eitthvað þurfi að gera en það er því verra að hér standa menn og segja: Ekki þetta, við viljum eitthvað annað. Hv. 10. þm. Reykn. sagði: Við kvennalistakonur viljum ekki þetta, bara eitthvað annað. Og fleiri og fleiri hafa tekið á þennan hátt á málunum. Þegar kemur að því að sameinast um að laga þessi mál vilja menn kannski ekki standa að því að gera það í raun. Málið er dregið fram og til baka í allar áttir og það er e.t.v. það sem menn vilja.

Það sem hins vegar fékk mig til að standa hér upp voru orð hv. 1. þm. Suðurl. Sá ágæti þm. hélt ræðu sem var erfitt að skilja. Ég veit eiginlega ekki um hvað hún fjallaði og þó datt mér í hug að hann flutti lagafrv. um daginn um að bannað yrði að að tína steina og ég hugsaði með mér: Hann er e.t.v. hræddur um það að hann týni Steina. Það er kannski þannig að hann er farinn að finna smjörþefinn af því að launafólkið í landinu styður ekki Steina. (Gripið fram í: Það getur ekki borðað þá heldur.) Það þýðir ekki fyrir ríkisstjórnina að gefa fólkinu Steina í stað brauðs. Það vill það ekki. Þess vegna er það að þeir þm. stjórnarinnar sem hafa tekið til máls hafa staðið hér og borið á okkur, fyrir jól, að við héldum uppi málþófi út af því að við börðumst gegn þessum skattaálögum, matarskattinum, og mörgum öðrum sköttum sem þeir eru þegar byrjaðir að draga í land. Þeir eru farnir að sjá að það sem stjórnarandstaðan sagði þá var rétt. Þeir eru farnir að draga í land og nú heitir það ekki málþóf, nú heitir það efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það er ekki gott til þess að vita að menn skuli. koma hér upp og ljá því máls að þeir séu sammála megininntaki þessarar till. en í hinu orðinu greiða þeir atkvæði með allt öðrum hætti eins og stjórnarþingmenn hafa gert. Við verðum að gera okkur það ljóst að það var rétt sem hv. 7. þm. Reykv. sagði að vegna lélegrar fjölmiðlunar og þá einkum ríkisfjölmiðlanna hafi menn komist upp með þetta. Hér hafa menn talað allt öðruvísi en atkvæði þeirra hefur sýnt. Við munum það fyrir jólin að þegar menn voru búnir að tala sig í hita og sögðust vera á móti þessu öllu saman greiddu þeir bara atkvæði með því. Þannig að það er allt annað í raun að standa á sínu eða gera slíkt.

Það eru ekki nein undur þó að fólkið í landinu sé að fella samninga þegar fyrst og fremst er komið svo að það eru lagðir skattar á lægstlaunaða fólkið án þess nokkrar úrbætur séu gerðar. Það er ekki svo að skattar, eins og matarskatturinn, bitni á þeim sem eru hálaunaðir vegna þess að það er miklu, miklu minni hluti sem þeir þurfa af sínum tekjum til að greiða hann. Það eru auðvitað þeir sem hafa lægst launin. Við skulum ekki gleyma því að við höfum séð tölur yfir laun sem eru allt að 12 sinnum hærri en lágmarkslaun verkamanns eru. Það eru menn sem taka á einu ári laun sem verkamaður tekur á 12 árum og fólk lætur ekki bjóða sér það. Í svo litlu þjóðfélagi og fámennu er það alveg ótækt að slíkt geti gerst. Við erum m.a. með tillögu um að leiðrétta þetta í formi skatta þannig að þeir lægst launuðu fái þá meira útborgað í raun en þeir sem eru með hærri laun. Það er mikilvægt að það verði þá einhver mismunur í skattaþrepum eins og voru tillögur hér um fyrir áramótin. En það var ekki tekið til greina og ég held að við verðum að líta á það að það verður ekki gert með samningum að koma í veg fyrir það að þessi launamismunur verði áfram, en með skattalögum er hægt að gera það á þann hátt að það sé stigsmunur í skattgreiðslum eftir tekjum.

En varðandi þessa till., sem hér liggur fyrir, sem allir hafa í raun tekið vel undir að undanskildum einhverjum sem ég ætla ekki að nefna hér nú, þá er ljóst að ef menn meina það sem þeir segja þá á auðvitað að fara eftir þessari till. Menn eiga að samþykkja hana.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem var hér til umræðu fyrir skömmu tók ekki mið af þessu og þær aðgerðir sem þar eru boðaðar munu reynast haldlitlar þegar fram í sækir því að þær voru litlar og of seint fram komnar. Það er ekki undarlegt þó menn verði reiðir þegar þeir fá orkureikninga á við þá sem hér hefur verið upplýst eða bílatryggingar eða vexti af lánum eða skatta sem ríkisstjórnin hefur lagt á. Og ef menn halda að það sé hægt að hóta fólki með verðbólgu sem er að megni til núna sköpuð af núv. ríkisstjórn vegna stefnu hennar í efnahagsmálum, þá er það misskilningur að fólkið láti bjóða sér það til lengdar. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að segja: Verðbólgan étur ykkur ef þið hreyfið ykkur. Það er ekki hægt þegar ríkisstjórnin er búin að leggja á 50% meiri skatta en árið á undan.

Og svo ætla þeir að fara að halda hér fram að það verði að gera þetta vegna þess að lífskjörin séu að dragast saman! Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess. Það hefur ekkert komið fram enn þá sem bendir til þess að lífskjörin séu að dragast saman. Við búum enn þá við meiri og betri aflabrögð en nokkru sinni hefur verið áður, lægra olíuverð og hátt verð á mörkuðum erlendis á okkar afurðum. Þvert á móti er betri lífsafkoma núna þessa mánuði en hefur verið. Menn geta ekki boðið fólki upp á það að halda því fram að það sé farið að þrengja að að þessu leyti. Það er alveg ljóst að þetta er blekking og menn verða að standa frammi fyrir því að fólkið lætur ekki bjóða sér það að það sé hægt að taka af því launin og lækka þau út á stöðu sem ekki er til staðar.