07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5579 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

265. mál, launabætur

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef mikla samúð með þeim málstað sem kemur fram í þessari till. og ég hefði gjarnan viljað rétta tillögumönnum höndina og reyna að finna leið til að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Það er raunar athyglisvert að þessi till. skuli vera flutt af einum okkar reyndasta verkalýðsforingja sem fyrsta flm., 16. þm. Reykv.

Það kemur í rauninni fram hjá henni eftir hennar starf að hún treystir því ekki að verkalýðshreyfingin geti náð því að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Það kemur fram í grg. að þrátt fyrir, eins og hér er sagt, 70 ára þrotlaust starf verkalýðshreyfingarinnar þá hefur þetta í reynd ekki tekist. Við höfum horft upp á það að þær tilraunir sem gerðar hafa verið hafa haft hörmulegar afleiðingar nákvæmlega eins og flm. hafa lýst hér að láglaunabætur eða hækkanir á launum til þeirra lægst launuðu hafa gengið upp úr kerfinu, valdið verðbólgu sem hefur brennt upp launabætur þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

En mér er spurn: Tala menn ekki dálítið út og suður í þessari umræðu? Eru menn ekki dálítið að rugla saman hérna tveimur meginatriðum, annars vegar því að bæta kjör þeirra lægst launuðu og hins vegar því að reyna að koma höggi á ríkisstjórnina? Ég held nefnilega að verkalýðshreyfingin, sem hér er talað um að barist hafi þrotlaust í 70 ár, sé ekki heppilegt samheiti í þessu sambandi. Verkalýðshreyfingin eða launþegasamtökin samanstanda af ákaflega mörgum hópum. Og ég er ansi hræddur um það ef grannt er skoðað að það að launahækkanirnar hafa gengið upp úr eigi ekki alfarið að skrifast á reikning ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Það skyldi nú ekki vera að verkalýðshreyfingin sjálf eigi ansi stóran þátt í því?

Mig minnir að ég hafi heyrt oftar en einu sinni umræður í þá átt að þegar búið var að hækka þá lægst launuðu hafi næsti hópur fyrir ofan komið og sagt: Ég hef miklu meiri menntun en þetta fólk. Ég á að fá meiri launahækkun en það. Ég hef alltaf haft þetta miklu meiri laun en það. Ég hef mánuði lengra námskeið en þessir. Þess vegna á ég að fá þetta miklu meiri laun en þeir. Þannig hefur þetta gengið upp úr öllu kerfinu og þar hefur ekki verið við ríkisstjórnina að sakast. Þar hefur verið við verkalýðshreyfinguna sjálfa að sakast. Ég held að sá meginkjarni sem menn mega ekki missa sjónar af í þessari umræðu allri saman sé sá kjarni sem kemur einmitt fram í flutningi þessarar till. hjá einum af okkar reyndustu verkalýðsforingjum og grg. sjálfri: að kjarasamningar duga ekki til að breyta launahlutföllum á Íslandi. Reynslan hefur margsýnt það. Kjarasamningar eru nefnilega eitt íhaldssamasta fyrirbrigði sem til er á landinu. Þeir viðhalda í reynd launamun. Það hefur margsýnt sig að hvað sem stjórnvöld hafa reynt og viljað gera hverju sinni þá hafa þau ekki ráðið við þessa þróun. Þess vegna hygg ég að það sé einföldun að segja að þrátt fyrir þrotlausa baráttu verkalýðshreyfingarinnar í 70 ár hafi þessi launahækkun gengið upp úr. Að hluta fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar, launþegahreyfingarinnar hafa þessar bætur til þeirra lægst launuðu gengið upp úr. Og þannig mun það vafalaust verða. Eðli mannsins mun ekki breytast svo skjótt.

Þess vegna er ég sammála því sem fram kemur, og það er í rauninni raunalegt að það skuli koma fram jafnvel hjá okkar verkalýðsforingjum, ég er sammála því að það er ekki unnt að bæta kjör þeirra lægst launuðu með kjarasamningum. Þar er ekki fyrst og fremst við ríkisstjórn landsins að sakast. Þar er við aðra aðila að sakast, við aðila innan launþegahreyfingarinnar sjálfrar vegna þess að verkalýðshreyfingin samanstendur af mörgum óskyldum og ólíkum öflum. Og þrátt fyrir vilja ríkistjórnarinnar hefur ekki tekist að bæta kjör þeirra lægst launuðu.

Ég er þeirrar skoðunar að kjör þeirra lægst launuðu verði ekki bætt nema fyrir tilstilli ríkisins, ríkisvaldsins eins og reyndar er miðað að með þessari till. þó að ég hafi ákveðnar efasemdir um till. sjálfa. Það verður vafalaust að gera annaðhvort í gegnum tekjuöflunarkerfið eða tryggingakerfið á einhvern hátt. Hér er reynt að fóta sig á ákveðinni leið með flutningi þessarar till. og það er mjög góðra gjalda vert. Hins vegar er þetta mál mjög vandasamt. Það er mjög vandasamt.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Svavar Gestsson sagði einmitt hér í ræðustól - og ekki dettur mér í hug að væna hann um það að hann vilji ekki frekar en nokkur annar hér inni reyna að bæta kjör þeirra lægst launuðu - hann sagði að sér væru minnisstæð þau mistök sem gerð voru þegar láglaunabæturnar voru settar á. Mistök, sagði hann. Og því miður voru það mistök. Vegna hvers? sagði þm. Vegna þess að grunnurinn sem gengið var út frá var ónýtt skattakerfi. Skattakerfið hjá okkur hefur ekki reynst heppilegur mælikvarði til þess að fara þessa leið. Því miður.

Á Íslandi er það svo að skattyfirvöld hafa í mörgum tilvikum enga möguleika á að vita hvaða tekjur viðkomandi framteljandi hefur nema samkvæmt upplýsingum frá honum sjálfum. (Gripið fram í. ) Ég held því miður að ég verði að svara fyrsta flm. á þann veg að það er vandi. Það er mikill vandi. Öll þjóðfélög í kringum okkur hafa barist við það að koma á skattakerfi þar sem ekki væri unnt að svíkja undan skatti. Engum hefur tekist það. Ég held að það verði seint fundið það kerfi sem hugvitssamir menn komast ekki fram hjá á einhvern hátt.

Ég verð að segja það að ég skil þessa till. þannig að ef hún væri samþykkt þá mundu mínir skattar lækka um nánast 5000 kr. á mánuði og hv. þm. Alberts Guðmundssonar líka. Ég efast um að það sé meiningin með tillöguflutningnum. Ef persónuafslátturinn hækkar í þeim mæli sem hér er gert ráð fyrir, þá sýnist mér að það verði almenn skattalækkun upp úr og hún komi ekki fyrst og fremst fram sem bætur til þeirra sem minnst hafa.

Þess vegna held ég að þessa till. þurfi að skoða betur. Það er líka ljóst að þeir erfiðleikar sem menn standa nú frammi fyrir í kjarasamningum eiga að hluta rót sína að rekja einmitt til þess máls sem hér er til umræðu. Ég vil segja það beint út úr mínum huga að hér er fjallað um réttlætismál og ég vil taka þessari tillögu með opnum huga. Ég held þó að hún þyrfti verulegrar breytingar við og talsverðrar athugunar ef hún ætti að koma að gagni.