08.03.1988
Sameinað þing: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5584 í B-deild Alþingistíðinda. (3719)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um aðgerðir í sjávarútvegi sem er staðfesting á brbl. sem sett voru á sl. sumri. Þá var gert ráð fyrir því að ekki yrði greiddur út hluti af endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti heldur yrði hann geymdur í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Með tilliti til þeirra breyttu aðstæðna sem orðið hafa síðan þessi ákvörðun var tekin þykir einsýnt að nauðsynlegt sé að greiða þennan söluskatt út eins fljótt og verða má. Hér er um að ræða 136,5 millj. kr. sem lagt er til að greiðist í sama hlutfalli og verið hafði á árinu 1987 þegar þessar greiðslur fóru fram.

Þar sem verulegar umræður hafa orðið um þetta mál að því er varðar annað mál sem nýlega var hér til afgreiðslu, þá vænti ég þess að hv. sjútvn. sjái sér fært að afgreiða málið hið allra fyrsta þannig að fjármunir þessir geti komið til greiðslu nú á næstu dögum.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.