02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

54. mál, útflutningsleyfi

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta um útflutningsleyfi er flutt á grundvelli samkomulags stjórnarflokkanna um að flytja útflutningsverslunina frá viðskrn. til utanrrn. Það hefur þegar verið gert með breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, en krefst þess hins vegar að lögum um Útflutningsráð verði breytt, sem hæstv. viðskrh. hefur þegar mælt fyrir hér í deildinni, og flutt sérstakt frv. til l. um útflutningsleyfi þar sem heimild til að binda ákveðinn útflutning, leyfi er flutt frá viðskrn. til utanrrn.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég held að það skýri sig nokkuð vel að sú þróun hefur verið undanfarin ár að utanrrn. hefur í vaxandi mæli haft afskipti af útflutningsversluninni og utanríkisversluninni almennt. M.a. var og er utanrrn. þátttakandi í Útflutningsráði sem sett var á fót fyrir einu ári og viðskiptafulltrúar hafa starfað nú um skeið hjá nokkrum sendiráðum, þ.e. í Kaupmannahöfn, í tengslum við sendiráðið í Þýskalandi en sá viðskiptafulltrúi situr að vísu í Frankfurt, viðskiptafulltrúi hefur verið í London nokkurn tíma, þó hann sé það ekki nú, og loks í New York.

Vafalaust er að nýta ber utanríkisþjónustuna í ríkara mæli en gert hefur verið í þágu útflutnings. Þannig hefur þetta þróast hjá mjög mörgum okkar nágrannalöndum. T.d. hafa Kanadamenn nú ákveðið að leggja niður viðskrn. og gera starfsemi þess að ráðuneyti í tengslum við utanríkisþjónustu þess lands. Mörg fleiri dæmi um slíkar breytingar gæti ég nefnt.

Með þessu móti verður utanríkisþjónustan, þar með talin sendiráðin, í beinum samskiptum við útflytjendur hér á landi og þessi mikilvægi þáttur verður þar með einn af mikilvægari þáttum í starfsemi utanrrn. og viðkomandi sendiráða.

Ég tek það fram að ætlunin er að þetta verði allt unnið með Útflutningsráði. Utanríkisþjónustan verður fyrst og fremst þjónustuaðili sem vinnur í mjög nánu samráði við Útflutningsráð. Það verður t.d. Útflutningsráð sem velur viðskiptafulltrúa sem sitja við sendiráðin.

Útflutningsleyfin eru þáttur sem fylgt hefur útflutningsversluninni. Þau eru að vísu ekki orðin almenn heldur tengjast þau í raun fyrst og fremst viðskiptum við Bandaríkin þar sem útflutningur á sjávarafurðum hefur verið háður leyfum. Ég vil geta þess nú að ég tel eðlilegt að halda útflutningi þangað í meginatriðum eins og verið hefur. Hins vegar er það staðreynd að fjölmargir minni aðilar hafa verið að hasla sér völl og margir með ýmsar sérgreinar og sérstaka framleiðslu og þurfa að fá beinni aðgang einnig að þeim markaði. Það mun verða athugað í þessu sambandi. Ég tel það mikilvægt að svo geti orðið, en það verður þó að gerast með heildarhagsmuni okkar í huga.

Herra forseti. Ég geri að tillögu minni að frv.

þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.