08.03.1988
Sameinað þing: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5585 í B-deild Alþingistíðinda. (3721)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér er um að ræða aðgerð sem tvímælalaust er nauðsyn að framkvæma eins og sakir standa. Hins vegar er mikil spurning um það hvort hér sé nóg að gert og ég dreg það í raun í efa. Það má einnig velta því fyrir sér hvers vegna sá vandi sem nú steðjar að í sjávarútvegi var svo vandséður fyrir fram eins og hv. síðasti ræðumaður benti á.

Á sl. vori virtist allt benda til þess, allar þær upplýsingar sem fyrir lágu, að uppsafnaður söluskattur í sjávarútvegi væri vænleg matarhola þar sem finna mætti fé fyrir ríkissjóð og ég minnist þess að um það var rætt í stjórnarmyndunarviðræðum í vor. Nú er hins vegar allt annað upp á teningnum og það sýnir okkur kannski hversu sveiflukenndur aðalatvinnuvegur okkar er og líka hversu vandséð þróun hans getur verið fyrir fram nema þá að einhverjum stærðum hafi hreinlega verið haldið leyndum í efnahagsdæminu í vor.

Síðan er annað í þessu máli. Það er dálítið vafasamt þegar verið er að leggja launaskatt á atvinnugrein sem greinilega þarf síðan að styrkja með hinni hendinni. Það er tekið með annarri og stutt með hinni. Það einhvern veginn gengur ekki alveg upp í mínum huga. En ég hlýt samt að fallast á það að þetta er aðgerð sem þarf að framkvæma eins og nú stendur.