08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5594 í B-deild Alþingistíðinda. (3727)

299. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég tek undir megintilganginn með þessu frv. og tel að sjálfsögðu að það sem þar er lagt til sé þess eðlis að ástæða sé til að skoða það vandlega og reyna að átta sig á því hvort það er framkvæmanlegt. Ég tel að ástæða sé til þess að Alþingi vinni að því og það mun verða gert í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar, að skoða það vandlega.

Mig langar aðeins til að rifja það upp út af því sem hér hefur komið fram að núgildandi húsnæðislánakerfi, miðað við lögin sem sett voru 1986, var miðað við það samkomulag sem náðist við aðila vinnumarkaðarins. Ég held að einnig þurfi að rifja það upp að hér var um byltingu að ræða í sambandi við húsnæðismálin að því er það varðar að fjármagn til húsnæðismála var stóraukið. Fjármagn lífeyrissjóðanna var tengt húsnæðismálunum. Lánin voru stórhækkuð. Þetta var að sjálfsögðu meginbreyting frá því sem áður var þar sem allir kvörtuðu undan of lágum lánum.

Hins vegar var alltaf gert ráð fyrir að þessi lög fengju að sýna sig um nokkurt skeið. Þeir sem sömdu frv., þar á meðal hv. 1. flm. þessa frv., lögðu áherslu á að þessi lög fengju að þróast í þrjú til fimm ár áður en farið væri að gera á þeim veigamiklar breytingar. Öllum var hins vegar ljóst að í þessum lögum er ýmislegt sem ljóst var að þyrfti að breyta innan ákveðins tíma.

Hins vegar var aldrei gert ráð fyrir þeim möguleika að upp kæmi sá dagur að því sem var tilgangur laganna, þ.e. að allir landsmenn ættu sama rétt til þess að njóta þess mikla fjármagns sem kæmi frá lífeyrissjóðum, yrði misskipt að því leyti, sem hér hefur komið fram, að fjármagnið frá lífeyrissjóðunum mundi streyma hingað til Reykjavíkur í meira mæli en það sem yrði nýtt til þess að byggja húsnæði úti á landsbyggðinni. Þetta er atriði sem menn sáu ekki fyrir og hefur víða valdið erfiðleikum. En ég held að rétt sé að átta sig á því að það er ekki allt vegna þess að menn hafi ekki viljað byggja eða nýta þetta fjármagn á viðkomandi stöðum, heldur hefur atvinnuþróunin og ástand atvinnumála á síðustu árum orðið til þess að þarna hafa orðið straumhvörf sem menn sáu ekki fyrir en eru orsök þess að fólk vill ekki fjárfesta á ákveðnum stöðum á landinu. Þarna þarf að sjálfsögðu fleira að koma til. Gera þarf aðgerðir sem snúa þessari þróun við með því að atvinnureksturinn sem er undirstaða þessara byggða rétti þannig við að fólk vilji fjárfesta á þessum stöðum.

Ég tel að þetta mál sé að sjálfsögðu eitt af stóru málunum. Hins vegar vil ég koma því að að forráðamenn í Húsnæðisstofnun hafa haldið því fram að þessi mismunur á innstreymi fjármagns lífeyrissjóðanna frá landsbyggðinni, miðað við það sem fer aftur út úr stofnuninni, sé ekki eins mikið og hér kemur fram. Þess vegna er ástæða til að láta fara fram ítarlega könnun á þeim tölum sem hafa verið nefndar og vita hvað er raunverulegt í þeim og hvað ekki. Að sjálfsögðu þarf að fá svar við því áður en ákvörðun er tekin til aðgerða.

Meginefni þessara hugmynda, sem koma fram í 1. og 2. gr. frv., get ég vel tekið undir og tel ástæðu til að við áttum okkur Á því hvort þetta er ekki framkvæmanlegt.

Að því er varðar leiguíbúðir, það sem kemur fram í 6. gr., held ég að rétt sé að menn átti sig á því einnig um leið að það sem gerir það að verkum að leiguíbúðakerfið skilar sér ekki, að ekki er byggt eftir því, er fyrst og fremst skortur á fjármagni. Þessi skortur er mestur í almenna kerfinu. Leiguíbúðir hafa þar verið út undan og ég bendi á að í 15. gr. núgildandi laga er gert ráð fyrir að lána til byggingar leiguíbúða á frjálsum markaði miðað við að viðkomandi aðilum er heimilt að selja skuldabréf og reyna að greiða fyrir því á annan veg. Þessu hefur verið lítið sinnt vegna þess að menn hafa ekki talið sér fært að fjárfesta í leiguíbúðum, a.m.k. á þeim stöðum þar sem er ekki mikil þensla.

Ég tel að það sé alveg ljóst að eitt stærsta vandamálið í okkar húsnæðismálum sé að það er skortur á leiguíbúðum og þá meina ég leiguíbúðir sem er hægt að leigja út á hóflegu verði þannig að það sé leiga sem venjulegt fólk ræður við. Ég er í engum vafa um að þessar háu upphæðir, sem nefndar eru, sem fólk þarf að greiða í leigu hér á þéttbýlissvæðinu ná ekki nokkurri átt í opnu þjóðfélagi, að láta það viðgangast og reyna ekki að sporna við því með því að koma með annað form inn á markaðinn sem gerir að verkum að leiga verður viðráðanleg. Það eru möguleikar í núgildandi lögum með lítilli breytingu, þ.e. miðað við 33. gr. laga um verkamannabústaði, b- og c-lið, sem þegar hefur verið sótt talsvert í, en þar er mismunur á lánakjörum miðað við verkamannakerfið, sem þarf að leiðrétta, og það liggur einmitt hér frv. um þetta atriði, sem er ósköp einföld aðgerð, meðan verið er að endurskoða heildarkerfið sem hv. flm. nefndi áðan og ég legg áherslu á að það væri ástæða til að Alþingi geri vissar lagfæringar á kerfinu sem hafa það í för með sér í fyrsta lagi að koma í veg fyrir óeðlilegan tilflutning á fjármagni utan af landsbyggðinni, þannig að allir eigi jafnan rétt á aðgangi að því fjármagni sem þar verður til, og eins get ég heils hugar tekið undir og það er í raun og veru í gildandi lögum tilgangurinn að ávaxta fjármagnið út um landið og færa afgreiðslu út einmitt frá stofnuninni sjálfri. Þetta er í gildandi lögum, en Húsnæðisstofnun hefur aldrei fengist, til að framkvæma það eins og stefnt var að. Þetta er atriði sem mér finnst vera mikilvægt.

Einnig þriðja atriðið, sem mér finnst ástæða til að undirstrika, að það er hægt að gera lagfæringar á a.m.k. félagslega kerfinu þannig að hægt væri með því að auka byggingu leiguíbúða fyrir láglaunafólkið í landinu og leiguíbúðir sem sannarlega hafa fyrir fram í för með sér að það er hægt að bjóða húsnæði á leigu með viðráðanlegum kjörum ekki síst fyrir það fólk í þjóðfélaginu sem hefur minnstu tekjurnar.