02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

54. mál, útflutningsleyfi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni lítið og fremur sakleysislegt frv., enda var greinilegt að hæstv. utanrrh. virtist ekki gera ráð fyrir því að miklar umræður þyrftu að verða um þetta mál og taldi sig í sjálfu sér ekki þurfa að rökstyðja þessa kerfisbreytingu mjög mörgum orðum. Annað mál nátengt fór hér um deildina án verulegra umræðna að ég best veit fyrir nokkrum dögum.

Ég fór að kynna mér ofurlítið bakgrunn þessa máls og kanna hug ýmissa hagsmunaaðila úti í þjóðfélaginu til þessara breytinga og ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér komu nokkuð á óvart þau viðbrögð sem ég varð víða var við. Þess vegna tel ég að það sé alveg nauðsynlegt að við bindum okkur ekki í þessari umræðu eingöngu við spurninguna um útflutningsleyfi sem slík. Það er tiltölulega einfalt praktískt atriði sem sjálfsagt þarf ekki að ræða mikið um. En sú kerfisbreyting sem þetta tengist, að flytja öll utanríkisviðskipti frá viðskrn. til utanrrn., þarf auðvitað að ræðast á hinu háa Alþingi. Þar er á ferðinni stórt og mikið mál og má merkilegt heita ef það fara mörg frumvörp hér í gegnum virðulega deild án þess að menn sjái ástæðu til að ræða það. Ég fagna því að hér situr einnig hæstv. viðskrh. og fylgist væntanlega með umræðunni og tekur e.t.v. þátt í henni síðar.

Ég verð að segja að helstu rökin sem færð eru fyrir þessari breytingu finnast mér í raun fremur léttvæg, þ.e. þau rök að með þessu fáist betri nýting utanríkisþjónustunnar, sendiráðin og utanríkisþjónustan nýtist betur til hagsbóta fyrir okkar utanríkisviðskipti með þessari breytingu. Þá er rökrétt að spyrja fyrst: Hefur utanríkisþjónustan verið vannýtt? Eru þar ekki næg verkefni? Ber að skilja þetta svo sem út um lönd og álfur sitji fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar í sendiráðum, viðskiptafulltrúar og aðrir slíkir, sem hafi ekki haft nóg að gera? Það kemur mér alveg spánskt fyrir sjónir. Þær heimsóknir sem ég hef átt í okkar sendiráð erlendis hafa bent til þess að önnur væri reyndin. Þar hefðu menn meira en nóg að gera.

Í öðru lagi er eðlilegt að spyrja: Hefur ekki verið gott samstarf milli viðskrn. og utanríkisþjónustunnar, milli útflytjenda og utanríkisþjónustunnar? Hefur þar eitthvað vantað upp á? Hafa menn ástæður af þeim sökum til að breyta hér um? Upplýsingar mínar benda til hins gagnstæða. Bæði í viðskrn. og hjá samtökum stærstu útflytjenda hafa menn ekkert upp á samstarfið við utanríkisþjónustuna að klaga, telja það vera gott. Það er mjög almennt eins og menn vita að beint samband sé á milli ýmissa útflytjenda og sendiherra okkar og konsúla og annarra slíkra trúnaðarmanna Íslands á erlendri grund, milliliðalaust samband á milli þeirra sem starfa í útflutningnum og fulltrúa Íslands í utanríkisþjónustunni. Þetta finnst mér því ekki rökstyðja sérstaklega að mikil ástæða sé til þessarar kerfisbreytingar.

Ég hefði gjarnan viljað heyra einhver veigameiri rök fyrir því að gera þessa breytingu vegna þess, herra forseti, að það er önnur hlið á þessu mali og hún snýr að því að þessu geta fylgt vankantar. Því getur fylgt óhagræði að mínu mati að færa umsjá utanríkisviðskipta með þessum hætti inn í utanrrn. og binda þetta tvennt saman einfaldlega vegna þess að það fara ekki alltaf saman viðskiptahagsmunir okkar og utanríkisstefna og tök utanrrn. á ýmsum málum á hverjum tíma. Um það eru mýmörg dæmi og ég hygg að ég þurfi reyndar ekki að nefna þau vegna þess að þau eru til bæði nýleg og eldri.

Ég kemst þó ekki hjá því vegna þeirra afreka sem samningamenn Íslendinga hafa nýverið unnið í Austurlöndum hinum nyrðri eða austur í álfum. (Gripið fram í.) Dugar þessi landafræðiskýring fyrir hv. þm.? (Gripið fram í: Nei.) Nei. Samningamenn Íslands um síldarsölu unnu enn eitt afrekið að mínu mati í Sovétríkjunum á dögunum og þeir samningar eru dæmi um stóra pakkasamninga, þýðingarmikla viðskiptasamninga sem oft hefur þurft að vinna hörðum höndum að að ná fram. Þeir samningar eru gerðir á grundvelli annars og stærri rammasamnings um viðskipti íslensku þjóðarinnar við Sovétríkin. Við munum hvaða pólitísk átök urðu fyrir ekki mörgum árum vegna þeirra samninga. Og nú vil ég spyrja menn: Ef þau öfl sem mest hömuðust gegn viðskiptasamningum við Sovétríkin sumarið 1982 hefðu núna ráðið ríkjum í utanrrn. hefðu menn þá talið hagstætt að þetta sama utanrrn. væri yfir utanríkisviðskiptunum? Ég hef stórar efasemdir um að það hefði hjálpað mikið til við síldarsöluna á dögunum. Og ég gæti nefnt mörg önnur dæmi sem sneru á ýmsa vegu að því að sýna að viðskiptahagsmunir eru ekki alltaf samfara pólitískum áherslum og einstökum málum í utanrrn.

Við þekkjum annað nýlegra dæmi frá mismunandi afstöðu erlendra ráðuneyta gagnvart okkur Íslendingum og þar á ég við mismunandi afstöðu bandarískra ráðuneyta til hvalveiða og viðskipta okkar Íslendinga og samskipta á breiðum grundvelli. Ég tel því að það sé hægt að færa fyrir því veigamikil rök að því geti fylgt óhagræði að færa þetta tvennt saman. Þar af leiðandi þurfi rökin fyrir kerfisbreytingunni að vera mjög sterk og veigamikil ef þau eiga að duga.

Síðan vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hverjir eru helstu talsmenn, hverjir eru helstu áhugamenn um þessar breytingar aðrir en hæstv. utanrrh. og þeir aðilar sem sömdu um myndun ríkisstjórnar á sl. vori? Við vitum að þessi kerfisbreyting kom þar með einhverjum hætti allt í einu upp á borðið. Sumir segja í tengslum við stólaskipti, og að þurft hafi að færa til pund og pund svona hér og þar þannig að menn væru nógu þungir hver á sínum stóli. Um það er ekki mitt að dæma en ég hlýt að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvaðan hefur komið þrýstingur á hæstv. ríkisstjórn um að gera þessa kerfisbreytingu? Er það t.d. frá útflutningsaðilum? En ég hygg að hagsmunir þeirra ættu í raun og veru að ráða mestu hér um.

Ég hef kannað það hvort þetta litla frv. og þessi kerfisbreyting hafi verið borin undir helstu samtök útflytjenda í landinu. Þeir aðilar mektugir, sem ég náði sambandi við, könnuðust ekki við það. Þeir könnuðust ekki við það. Ég hef ekki gert á þessu, virðulegi forseti, neina tæmandi könnun, en ég kannaði það hjá nokkrum stærstu samtökum útflytjenda, þar með talið Útflutningsráði, og þar hafði þetta mál ekki komið til umfjöllunar eða umsagnar. Ég tek það fram að á þeim bæ virtist gæta frekar jákvæðs hugarfars út í þessa breytingu, en aðrir töldu sig ekki reiðubúna til að tjá sig neitt um þetta mál, einfaldlega vegna þess að svo merkilegt sem það nú er þegar verið er að afgreiða frv. hér inni í Alþingi til að koma á þessari kerfisbreytingu strax um næstu áramót, þá virtust helstu samtök útflytjenda í landinu ekki kannast við að til þeirra hefði verið leitað um þetta mál.

Hér er dálítið alvöruefni á ferðinni, virðulegur forseti, vegna þess að það liggur fyrir tiltölulega nýleg afstaða stærstu samtaka útflytjenda í landinu til svona kerfisbreytingar. Það var nefnilega þannig að fyrir nokkrum árum síðan starfaði svonefnd stjórnsýslunefnd og hún kannaði viðhorf útflutningssamtaka, sérstaklega sjávarútvegsins, til þeirrar hugmyndar að utanríkisviðskipti yrðu lögð undir utanrrn. Ég hef undir höndum undirritaða samþykkt nokkurra stærstu samtaka á sviði útflutnings sjávarafurða þar sem þeirra afstaða til þessara hugmynda kemur fram, skýrt og skorinort á árinu 1983. Og með leyfi herra forseta, vil ég lesa bréf sem þessir aðilar sendu frá sér í tilefni af könnun stjórnsýslunefndar og er dagsett 26. okt. 1983.

„Í tilefni könnunar stjórnsýslunefndar á viðhorfum útflutningssamtaka sjávarútvegsins til þeirrar hugmyndar að utanríkisviðskiptin yrðu lögð undir utanrrn., vilja undirrituð útflutningssamtök taka fram:

Við teljum að viðskrn. hafi á undanförnum áratugum unnið mjög mikilvægt starf á sviði íslenskra útflutningsmála svo sem við gerð alþjóðlegra viðskiptasamninga og samninga um tollamál. Í flestum viðskiptalöndum sem við eigum mest viðskipti við eru sjálfstæð viðskiptaráðuneyti sem koma fram sem slík í viðskiptasamningum við Íslendinga. Þar sem landið er háðara milliríkjaviðskiptum en nokkurt annað land sem okkur er kunnugt um teljum við það hagsmunamál útflutningssamtakanna að hér sé sjálfstætt ráðuneyti sem mætt geti til samninga við erlend viðskiptaráðuneyti á jafnræðisgrundvelli. Við leggjum því eindregið til“ — ég endurtek — „við leggjum því eindregið til að íslenska viðskrn. haldi sjálfstæði sínu og sé þannig óháð öðrum ráðuneytum í starfi sínu a sviði útflutningsmála.“

Undir bréfið er ritað f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna, Sambands ísl. samvinnufélaga, Samlags skreiðarframleiðenda, Síldarútvegsnefndar (Gunnar Flóvenz), Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Sambands ísl. fiskframleiðenda og Sölustofnunar lagmetis.

Þetta bréf var sent til stjórnsýslunefndar, forsætisráðuneytinu, Stjórnarráðshúsinu, Reykjavík. Og þar hafði starfsaðstöðu sína á þeim tíma núv. hæstv. utanrrh. þannig að ég geri ráð fyrir því að þetta álit allra sameinaðra stærstu samtakanna á sviði útflutnings sjávarafurða hafi ekki á þessum tíma farið fram hjá hæstv. þáv. forsrh. Enda var hljótt um þessa breytingu þaðan í frá og ekkert var við því máli hreyft að því mér er kunnugt frá því þetta álit útflutningsaðilanna kom fram seint á árinu 1983.

Ég hlýt því að spyrja og ítreka spurningu mína til hæstv. utanrrh.: Hefur ekki verið könnuð afstaða samtaka útflytjenda til þessa máls síðan á árinu 1983? Og ef svo er er þá nokkur ástæða til að ætla að þar hafi orðið breyting á? Hvaðan kemur þrýstingur á hæstv. ríkisstjórn um að flytja þetta mál, ef hann er einhver, annars staðar en úr þeirra eigin herbúðum? Ég vil jafnframt spyrja hæstv. utanrrh. og einnig hæstv. viðskrh. ef hann skyldi taka þátt í umræðunni: Telja þeir ekki, m.a. með hliðsjón af áliti stærstu samtaka útflytjenda í landi, að vænlegra væri að stofna þá sjálfstætt utanríkisviðskiptaráðuneyti ef menn fara að hreyfa við þessum málum á annað borð? Það er umdeilanlegt hvort viðskiptamál sem slík eigi að kljúfa upp í fleiri en eitt ráðuneyti. Eftir sem áður verður starfandi viðskrn. sem fer með innanríkisviðskipti og ýmis önnur mál á sviði viðskipta, sem tengjast útflutningsviðskiptunum, þannig að upp kemur sú staða að taka þarf upp samstarf milli tveggja ráðuneyta um ýmsa þætti viðskiptamálanna þar sem eitt sjálfstætt ráðuneyti hefur áður sinnt hlutunum.

Ég tel líka, herra forseti, að þetta sé í raun andstætt anda laganna um Stjórnarráð Íslands þar sem það er skýrt tekið fram, sbr. grg. og framsögu með frv. til l. um Stjórnarráð Íslands á sínum tíma, að það skuli vera grundvallarregla í skiptingu verka á milli ráðuneyta að þau mál sem eiga saman heyri til einu og sama ráðuneytinu. Ég vil því jafnframt spyrja hæstv. utanrrh.: Telur hann að úr gildi sé fallinn sá rökstuðningur og sú afstaða sem uppi var á sínum tíma þegar lög um Stjórnarráð Íslands voru samþykkt?

Síðan, herra forseti, vitnaði hæstv. utanrrh. til þess að þessi breyting gengi til sömu áttar og málin væru að þróast í ýmsum nágrannalöndum. Já, það er nú það. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvar annars staðar en í Kanada er hliðstæð breyting á döfinni? Og hvar annars staðar en í Kanada og Danmörku er þetta fyrirkomulag viðhaft? Ég hef nefnilega kynnt mér það að t.d. í öllum EFTA-löndunum, þeim löndum sem Ísland er í eðli sínu viðskiptalega skyldast vegna stöðu okkar gagnvart Efnahagsbandalagi, vegna aðildar okkar að þessu Fríverslunarbandalagi og samstarfs við þau ríki, þá er ekki það fyrirkomulag á sem hér virðist eiga að fara að taka upp á Íslandi, heldur hið gagnstæða. Annaðhvort sjálfstæð viðskiptaráðuneyti eða sjálfstæð utanríkisviðskiptaráðuneyti.

Þess vegna hef ég, eftir að hafa kynnt mér málið, herra forseti, ýmsar efasemdir um það að þessi kerfisbreyting sé jafnsjálfsögð og menn virðast telja. Og mér sýnist ýmsum spurningum ósvarað. Ég get því haft mína síðustu spurningu til hæstv. utanrrh. þessa: Telur hann skynsamlegt að Ísland geri kerfisbreytingu á þessum málum þannig að hér verði allt annað fyrirkomulag varðandi meðferð utanríkisviðskipta en er hjá öllum öðrum EFTA-löndum, samstarfslöndum okkar í Fríverslunarbandalaginu? Ég hef mínar stóru efasemdir um það.

Herra forseti. Ég þarf þá ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hef lagt fram ýmsar spurningar. Mér þætti einnig vænt um að heyra álit hæstv. viðskrh. á þessum kerfisbreytingum, rök hans með og á móti þessum breytingum, og ég vænti þess að hæstv. utanrrh. svari með greinargóðum hætti þeim spurningum sem ég hef fyrir hann lagt og ég geymi mér þá til síðari tíma í umræðunni að taka meira þátt í henni.