08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5597 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

321. mál, lyfjafræðslunefnd

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um lyfjafræðslunefnd. Það er markmið þessara laga að skipuleggja og vinna að lyfjafræðslu til þess að draga úr því heilsutjóni sem misnotkun og ofnotkun lyfja veldur. Það er miðað við í þessum lögum að skipa þriggja manna nefnd, lyfjafræðslunefnd, til fjögurra ára í senn og að nefndin sé skipuð mönnum með þekkingu á ofnotkun lyfja. Það er lagt til að ráðherra skipi nefndarformann og að varamenn séu skipaðir með sama hætti.

Hlutverk þessarar nefndar, lyfjafræðslunefndar, á að vera að gera tillögur til stjórnvalda um ráðstafanir til að sporna við ofnotkun og misnotkun lyfja, reka áróður fyrir bættri heilsu landsmanna með því að sporna gegn ofurnotkun og misnotkun. Það er ætlast til þess að lyfjafræðslunefnd vinni í nánu samstarfi við landlæknisembættið og Lyfjaeftirlit ríkisins, að nefndin veiti alhliða leiðbeiningar varðandi lyf, m.a. með útgáfu fræðslurita og annarra fræðslugagna. Það er ætlast til þess að nefndin dreifi upplýsingum um skaðsemi misnotkunar og ofnotkunar lyfja og það er ætlast til þess að lyfjafræðslunefnd hafi markaðan tekjustofn sem verði 1% gjald af cif-verði innfluttra lyfja og 0,8% gjald af heildsöluverði ákveðins stofns innlendrar lyfjaframleiðslu. En þarna er nokkur munur á. Það er auðvelt að ganga að innfluttum lyfjum í tollafgreiðslum, en það er talsvert af lyfjaefnum sem er erfitt að marka til ákveðinnar lyfjaframleiðslu og því er miðað við að innlenda framleiðslan búi við aðra prósentutölu í þessum tekjustofni.

Það hefur sýnt sig síðan lög um tóbaksvarnir voru sett að tóbaksvarnanefnd hefur í skjóli ákveðins tekjustofns skilað miklum árangri, mesta árangri sem mældur hefur verið í heiminum í minnkandi notkun tóbaks. Það er jafnljóst að misnotkun lyfja og ofnotkun er ekki aðeins heilsuspillandi fyrir þjóðina heldur einnig dýr póstur í hinum félagslega þætti á landinu öllu og því mikil ástæða og rík til þess að reyna að sporna við í þessum efnum.

Lyfjaneysla Íslendinga hefur verið til umræðu síðustu missiri og ekki síst vegna þess að fram hefur komið að Íslendingar neyti töluvert meira af sýklalyfjum en nágrannaþjóðirnar. Það nægir í þessu tilviki að benda á skýrslu norrænu lyfjanefndarinnar um notkun sýklalyfja á Norðurlöndum á árunum 1975–1983, en þar kemur fram að Íslendingar nota mun meira af þessum lyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir.

Það hefur hins vegar dregið verulega úr notkun róandi lyfja á undanförnum árum og er neyslan hér svipuð því sem gerist í nágrannalöndunum. Þarna hefur verið gripið til ráða af hálfu opinberra stjórnvalda og það hefur náð árangri, en það kostaði líka verulega peninga og það er nú svo í öllum þessum málum að það þarf peninga til að reka áróðurinn og kveikja áhuga fyrir því að bæta úr í þessum efnum.

Skýringar á óhóflegri neyslu sýklalyfja hlýtur að vera að leita í þekkingarleysi jafnt leikra sem lærðra því ekki verður því trúað að lyfjum sé af ásettu ráði ávísað öðruvísi hér á landi en í nágrannalöndunum. Það er því fyllilega tímabært að reynt verði með fyrirbyggjandi aðgerðum að stemma stigu við þessari neyslu sem hlýtur að flokkast undir ofneyslu.

Rétt er að benda á að kostnaður samfélagsins vegna þessarar neyslu er gífurlegur og hér ætti að vera hægt að spara verulegar fjárhæðir sé fyrirbyggjandi starfi í formi fræðslu og upplýsinga komið á fót. Mjög lítið hefur farið fyrir slíku starfi til þessa og engu sérstöku fé hefur verið varið til lyfjafræðslu.

Frv. þetta byggir á þeirri hugmynd að hægt sé að minnka verulega skaðleg áhrif lyfjaneyslu með fyrirbyggjandi aðgerðum séu þær markvissar og skipulegar. Til að ná því markmiði er nauðsynlegt að fela fræðslu- og upplýsingastarfið tilteknum aðila, lyfjafræðslunefnd, sem hafi til starfans ákveðnar fjárupphæðir sem séu það háar að fræðslan verði nógu öflug til að koma að gagni. Þetta samrýmist þeim hugmyndum, sem fram hafa komið í íslenskri heilbrigðisáætlun, sem lögð var fram á síðasta þingi, að leggja beri áherslu fyrst og fremst á fyrirbyggjandi starf í heilbrigðisþjónustunni.

Lyfjaframleiðslan í heiminum er í dag einn harðskeyttasti viðskiptamarkaður sem um getur. Það er í tvennu sem hörðust er samkeppnin í sölu á vörum. Það er í lyfjum og það er í vopnum. Það hefur verið rætt um hina háu álagningu hérlendis. Á hinu háa Alþingi hefur það verið rætt. Það er ljóst að lyf eru mjög dýr á Íslandi og það er engin samræming í innflutningi, nýtingu, verði eða öðru og ómældir fjármunir sem fara þannig forgörðum vegna þess frelsis sem ríkir í þeim efnum og að sumu leyti einokunar því það má segja að í heiminum öllum séu það átta stór lyfjafyrirtæki sem hafi einokun á lyfjaframleiðslu og þar skipta menn með sér verkum þannig að sjaldnast skarast hagsmunir eða rekast á í framleiðslu lyfjanna.

Það er m.a. af þessum ástæðum að Íslendingar búa við of hátt lyfjaverð, að mínu mati, og er með ólíkindum hvað embætti landlæknis hefur lítið að segja í þessum efnum því það má segja að nær 100% af upplýsingum og ráðleggingum um lyfjanotkun komi frá þeim sem selja lyfin og dreifa þeim, apótekurum og heildsölum. Þarna ætti auðvitað að vera hlekkur sem gæti stýrt eðlilegum áróðri, eðlilegri upplýsingu og ætti að vera til staðar bæði fyrir almenning og ekki síður fyrir lækna því það hefur einnig verið augljóst vandamál í okkar landi að útgáfa lyfjaávísana er með ólíkindum mikil, svo að nemur 1–2 millj. á einu ári hjá þjóð sem telur fjórðung milljónar.

Það er því að mínu mati mjög æskilegt að koma á stofn lyfjafræðslunefnd. Ofnotkun lyfja og misnotkun kostar mikla fjármuni, ómælda fjármuni í heilsugæslukerfi landsins, þar sem verulegur hluti sjúkrarúma og annarrar þjónustu heilsugæslunnar er bundinn vegna ofnotkunar og misnotkunar lyfja. Á hinn bóginn er þarna líka um dýran póst að ræða gagnvart þjónustu félagsmálastofnana í byggðum landsins og á hinn bóginn er um ómældan kostnað að ræða vegna hinna óeiginlegu áhrifa sem ekki kannski verða mæld í grömmum eða einingum.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til nefndar.