08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5600 í B-deild Alþingistíðinda. (3732)

322. mál, áfengisfræðsla

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um áfengisfræðslu. Markmið þessara laga er að byggja upp skipulega áfengisvarnafræðslu til að draga úr því heilsutjóni sem misnotkun áfengis veldur.

Þessi lagagrein miðar að því að heilbr.- og trmrh. skipi þriggja manna nefnd til fjögurra ára, skipi formann og að í nefndinni eigi sæti menn sérfróðir um vandamál sem stafa af áfengisneyslu. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Það er ætlast til þess að hlutverk áfengisfræðslunefndar sé fyrst og fremst:

1. Að gera tillögur til stjórnvalda um ráðstafanir til að spyrna við misnotkun áfengis.

2. Að veita aðstoð og leiðbeiningar varðandi áfengisfræðslu, m.a. með útgáfu fræðslurita og annarra fræðslugagna.

3. Að dreifa upplýsingum um skaðsemi af misnotkun áfengis.

4. Að vinna í nánu samstarfi við áfengisvarnaráð og aðra þá sem starfa á þessum vettvangi.

Það er lagt til að nefndinni sé markaður tekjustofn sem sé 2 prómill af brúttósölu áfengis og þá til áfengisvarnafræðslunnar.

Það er eins og flestum er kunnugt svo í okkar landi að áfengisneysla hefur aukist verulega á síðustu árum. Að sama skapi hafa skaðleg áhrif neyslunnar aukist, enda hefur lítið verið gert til að sporna við skaðlegum áhrifum með forvarnastarfi þar sem lítið fé hefur verið veitt til slíkrar starfsemi. Nánast öll viðleitni samfélagsins til hjálpar hefur miðast við að veita áfengissjúklingum meðferð og ýmiss konar aðstoð eftir á.

Er mál sérfróðra aðila að allvel sé að þessum þáttum staðið í dag og ber að fagna því. Miklu minna hefur verið gert í því að reyna að sporna við því að menn ánetjist áfengi, fyrst og fremst vegna þess að skilning hefur skort á því að til þess þurfi fjármuni. Einnig hefur töluvert skort á að áfengisvarnafræðslan væri nægjanlega skipuleg og markviss. Kemur það ugglaust af sömu ástæðu, skorti á fjármunum til að sinna því verki. Nægir þar að nefna áfengisvarnafræðslu í skólum sem varla hefur staðið undir nafni þrátt fyrir ýmiss konar opinberar reglur þar að lútandi. Er því kominn tími til að áherslum verði breytt og að meira verði lagt upp úr forvarnastarfi en gert hefur verið, m.a. til að ná fram þeim markmiðum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vinnur að og mælt er fyrir um í íslenskri heilbrigðisáætlun sem lögð var fram á síðasta þingi og verður væntanlega lögð fram á nýjan leik innan tíðar.

Það eru engin ný sannindi að misnotkun áfengis er eitt mesta þjóðfélagsböl sem Íslendingar búa við. Gildir það bæði um áfengi sem sjúkdómsvald og ekki síður um áfengi sem félagslegt vandamál. Allt of lítið hefur verið reynt til að sporna við misnotkun áfengis. Miklu frekar er reynt að bæta orðinn skaða.

Betra er heilt en gróið og er því fyllsta ástæða til að ryðja nýjar brautir í áfengisvarnafræðslu sem því aðeins er mögulegt að til starfsins verði varið verulegum fjárhæðum.

Á árinu 1984 var selt áfengi fyrir u.þ.b. 1,5 milljarða kr., á árinu 1985 var selt áfengi fyrir liðlega 2 milljarða kr. og á árinu 1986 fyrir tæplega 3 milljarða kr. Það er því miklum fjármunum varið til áfengiskaupa á Íslandi og á hinn bóginn er gífurlegur kostnaður sem ríkisvaldið og þjóðfélagið stendur straum af vegna misnotkunar áfengis, ekki aðeins í löggæslu heldur fyrst og fremst í heilsugæslu. Líklega eru u.þ.b. 400–500 sjúkrarúm á landinu meira og minna bundin vegna misnotkunar áfengis. Ef menn vilja velta fyrir sér mannafla sem á að sinna þessari þjónustu má benda á að í Borgarspítalanum eru u.þ.b. 200 sjúkrarúm, en þar eru nær 2000 starfsmenn. Miðað við 400 rúm, 400–500, eru það nokkur þúsund starfsmenn í heilsugæslunni sem þurfa að sinna sjúklingum vegna ofnotkunar áfengis.

Það er starfandi í landinu áfengisvarnaráð sem hefur markaðan tekjustofn, þ.e. bundinn fjárveitingu á ári hverju. Það eru u.þ.b. 4 millj. sem voru veittar á síðustu fjárlögum til áfengisvarnaráðs og það gerir lítið meira en að borga laun þeim starfsmönnum sem vinna fyrir áfengisvarnaráð. Áfengisvarnaráð hefur ekkert svigrúm til þess að sinna áróðri, fræðslu eða öðrum þáttum sem reiknað er með að áfengisfræðslunefnd geri. Það er miðað við að heilbrmrh. geti tengt starf áfengisfræðslu við starf áfengisvarnaráðs, enda er það eðlilegt.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á að á Íslandi er í rauninni engin stefna í áfengismálum og er það með ólíkindum miðað við hvað miklir fjármunir fara til áfengiskaupa og kostnaðar vegna ofnotkunar og misnotkunar áfengis.

Það er ákvæði til bráðabirgða sem fylgir þessu frv. til laga þar sem lagt er til að ríkisstjórnin láti vinna sérstakt frv. til laga um varnir gegn vímuefnum í stað þess að fela ákvæði um áfengisvarnir í lögum um framleiðslu, dreifingu og sölu áfengis eins og gert er í dag. Það er að margra mati óeðlilegt að þessir liðir séu hafðir undir lögunum um framleiðslu, dreifingu og sölu áfengis því þarna er fyrst og fremst um heilbrigðisþátt að ræða. Samkvæmt þessu er lögð til sama skipan og varðandi tóbaksvarnir.

Það er fyllsta ástæða til að taka fleiri þætti en áfengi inn í þessa afgreiðslu þar sem áfengi er aðeins einn hluti þeirra vímuefna sem notuð eru, að vísu sá langalgengasti. En flestir aðilar virðast sammála um að beita þurfi sömu aðferðum við varnarstarfið og er því óraunhæft að taka aðeins á einum þætti.

Það er rétt að undirstrika að mikið verk hefur þegar verið unnið á þessum vettvangi og ekki síst á vegum stjórnskipaðrar nefndar um áfengismál sem skilaði tillögum fyrir rúmu ári, en nú er kominn tími til þess að ríkisstjórnin taki afstöðu til tillagnanna og marki stefnu í þessum málum í heild.

Að lokinni umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til heilbr.- og trn.