08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5603 í B-deild Alþingistíðinda. (3735)

322. mál, áfengisfræðsla

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. jákvæðar undirtektir í máli þessu. Ég vek athygli á því að því miður hefur reyndin orðið sú í okkar landi að neytendur sem nota áfengi verða sífellt yngri. Fyrir tíu árum var kannski lágmarkið 14 ára aldur. Þetta er komið niður í 10–11 ára aldur í dag og sýnir aðeins að áfengisvandamálið er mjög vaxandi í okkar þjóðfélagi.

Það má segja að lykillinn að aukinni vímuefnanotkun annarra efna en þeirra hefðbundnu, sem við köllum, áfengis og tóbaks, sé að menn hafi fallið í þá freistni að hefja notkun tóbaks eða áfengis. Í skýrslum um vímuefnanotendur á Íslandi má segja að það séu algerar undantekningar, og það sama á við um önnur lönd, ef þeir sem fara út í eiturlyf hafa ekki byrjað sína óheillabraut á því að nota áfengi. Þetta undirstrikar einnig þörf þess að setja á stofn starfsemi til varnar í þessum efnum.

Við bæjardyrnar í þjóðfélaginu stendur bjórinn. Það er jafnframt reynsla allra þjóða í Vestur-Evrópu að þar sem bjór komi til verði aukning á notkun áfengis, verði aukið vandamál af áfengi. Þeim mun meiri ástæða er til að vera á verði og byggja upp starf til heilla í þessum efnum.

Það er stundum vitnað til þess - ég hef orðið var við það í umræðum um bjórinn - að með frelsi í bjór á Íslandi, með framleiðslu bjórs á Íslandi og sölu mundi minnka sú ofnotkun lyfja sem við vitum að er staðreynd í okkar þjóðfélagi. En í því Norðurlandanna þar sem mest frelsi er í sölu áfengra drykkja og þar með bjór er jafnframt langmest lyfjanotkun. Menn slá því gjarnan fram að það þurfi ekki róandi töflu á kvöldin til að sofna. Það sé gott að fá sér bjórglas. Það sé svo róandi. En í því landi þar sem frelsið er mest í notkun áfengra drykkja, Danmörku, er, ég undirstrika það, jafnframt langmest notkun og ofnotkun lyfja, róandi lyfja sérstaklega. Þetta eru hlutir sem við ættum að læra af og skipuleggja okkar starf út frá því.

Það hefur aðeins í umræðunni verið minnst á hvort ástæða væri til sjálfstæðrar lagasetningar til að koma slíku starfi á. Það er ástæða til þess á einum grunni vegna þess að þetta byggist fyrst og fremst á því að marka tekjustofn til þessa starfs. Það er ekki svigrúm á jafnsterkan hátt að marka tekjustofn nema með því að setja það inn í lagagreinar. Tvö prómill tekna af sölu áfengra drykkja eru ekki hátt hlutfall, en það eru peningar á þessu ári upp á líklega 7–8 millj. og það eru peningar sem ættu að geta nýst. Það er hvorki hámark eða lágmark að mínu mati, en það eru upphæðir sem er í rauninni ekki hægt að hafa lægri ef það á að vera hægt að ætlast til þess að ná árangri með því að nota bestu áróðurstækni sem völ er á í baráttu gegn áfengi og auglýsingum öllum þar að lútandi. Úti í hinum stóra heimi er harðasta sölutækni og nýjasta sem völ er á hverju sinni notuð. Til þess að berjast gegn misnotkun áfengis þurfum við jafnframt að vera tilbúin að kaupa vinnu fagmanna sem geta skilað árangri og þokað okkur fram á leið í þessum efnum en ekki aftur á bak eins og reyndin hefur verið undanfarin ár.