09.03.1988
Efri deild: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5608 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Eins og frsm. nefndarinnar, hv. varaformaður nefndarinnar, skýrði hér frá kom sjútvn. deildarinnar saman og fjallaði um mál þetta. Menn voru sammála um það að flýta fyrir því og samþykkja það. Hins vegar gerðust á þessum fundi svolítið sérstakir hlutir, í fyrsta lagi það að menn voru ekki alveg klárir á því hvaða embættum þeir þjónuðu þar í nefndinni í upphafi fundar og í öðru lagi og þá kannski enn merkilegra að einn nefndarmanna, hv. 2. þm. Norðurl. e., mætti nokkuð seint á fundinn, en þegar hann kom þá upplýsti hann það hvað hafði tafið hann, en fundurinn var haldinn í beinu framhaldi af deildarfundi hér í deildinni. En hann upplýsti okkur um það að hann hefði farið og lesið Ólaf Jóhannesson til þess að sannfæra sig um það að þessi meðferð brbl. sem hér væri höfð frammi væri ekkert einsdæmi og væri ósköp eðlileg, þ.e. að brbl. séu lögð fram til staðfestingar með allmiklum breytingum.

Jafnvel þó að „síterað“ sé í Ólaf Jóhannesson tel ég vafasamt að það sé algengt að brbl. séu lögð fram á þann máta sem hér er gert, þ.e. að aðalatriði laganna sé fellt burtu og lagagreinar settar inn í sem breyta aðalatriði laganna.

Forsenda þess að ég get stutt þetta frv. er fyrst og fremst sú að þessum lögum hefur verið breytt og minn fyrirvari og okkar alþýðubandalagsmanna er fyrst og fremst sá að við viljum láta það koma fram að þau brbl. sem sett voru, voru í beinni andstöðu við okkar skoðanir. Og við litum svo á, sem og sannast með þessu frv. sem hér er, að þessar aðgerðir, sem gerðar voru í sumar, væru gerðar í hinu mesta fljótræði.

Ég sem sagt styð framgöngu frv. þó að vissar athugasemdir hafi legið frammi og liggi frammi í sambandi við skatt á ísfiski. Sjómenn hafa mótmælt samþykkt þessara laga og enn eru sjómenn að mótmæla núna verðlagningu á fiski og ýmsir hlutir eru að gerast í sjávarútvegsmálum sem benda til þess að þar sé ekki allt með felldu sem reyndar margir vissu.