09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5616 í B-deild Alþingistíðinda. (3750)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég sem aðrir landsmenn hef haft af því miklar áhyggjur hversu bifreiðatryggingar eru orðnar dýrar. Ég fékk áfall eins og fleiri þegar gjaldseðlar bifreiðatryggingafélagsins míns komu inn um póstlúguna um daginn og ég sá hvað mér var gert að greiða af þeim bílum sem eru í eign fjölskyldunnar. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig standi á því að bifreiðatryggingar á Íslandi skuli þurfa að vera svona dýrar.

Ég átti heima um nokkurt árabil í Danmörku og borgaði þar að sjálfsögðu tryggingu af þeim bíl sem ég átti og rak þar og ég minnist þess að það var ekki nema lítill hluti af þeim kostnaði vegna bifreiðatrygginga sem ég þarf aftur að greiða hér á Íslandi. Ég gerði það þess vegna að gamni mínu rétt áður en þessar umræður hófust að ég hringdi til Kaupmannahafnar í mitt gamla tryggingafélag og fékk upplýsingar um það hvað trygging kostar á meðalstórum bíl annars vegar úti á landi í Danmörku og svo á Kaupmannahafnarsvæðinu, bara til samanburðar. Það er fróðlegt að bera þessar tölur saman. Ef ökumaður er að kaupa sér sína fyrstu tryggingu og hefur enga reynslu sem ökumaður þarf hann að borga 17 þús. kr. á ári fyrir bifreiðatryggingu á meðalstórum bíl búi hann í sveit í Danmörku. Eftir sjö ár, ef hann hefur haft venjulegan ökumannsferil, þ.e. hann hefur ekki valdið neinum stórslysum, þeir eru ekki með bónuskerfi eins og við þekkjum, er tryggingin komin niður í 5 þús. kr. á ári fyrir meðalstóran bíl eigi ökumaður heima úti í sveit. Ef ökumaður býr í Kaupmannahöfn greiðir hann í fyrsta sinn sem hann tekur bifreiðartryggingu 21 þús. kr. á ári, ábyrgðartryggingu fyrir bíl sinn, meðalstóran bíl. Eftir sjö ár, ef hann hefur haft venjulegan feril sem ökumaður, hefur ekki orðið valdur að stórslysum, en þó er gert ráð fyrir að hann hafi lent í einhverjum árekstrum á þeim ferli sínum, kostar tryggingin hans 6 þús. kr. á ári. (RA: Íslenskar?) 6 þús. kr. íslenskar, já. Þetta eru allt íslenskar krónur. Þetta er ekki nema lítið brot af þeim gjöldum sem okkur er gert að greiða á Íslandi fyrir bílatryggingar. Það er því ekki nema von að þessi umræða sé hafin hér og menn spyrji: Hvernig stendur á því að bifreiðatryggingar skuli vera svona dýrar á Íslandi?

Ég held að það sé rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan. Hann fer með svo mörg ráðuneyti, hæstv. ráðherrann, að ég veit ekki hvað ég á að kalla hann, hvort hann vill heita hæstv. forsrh. eða hæstv. iðnrh., en látum það liggja á milli hluta. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það þarf að leita skýringa á þessum háu iðgjöldum og það þurfa allir að taka höndum saman um að reyna að komast til botns í þessu vandamáli og reyna að koma því á að bifreiðatryggingar verði aftur viðráðanlegar fyrir almenning.

Hæstv. ráðherra kom inn á að eðlilegt væri að bifreiðatryggingar færu lækkandi vegna þess að með tollabreytingunum sem urðu núna um áramótin lækkuðu varahlutir í verði. Ég hélt þess vegna að við mundum sjá bifreiðatryggingaiðgjöldin lækka þegar þau bárust núna inn um póstlúguna eins og ég sagði fyrir nokkrum dögum. En það er nú öðru nær. Þessar gífurlegu hækkanir sem hafa orðið á bifreiðatryggingaiðgjöldum hafa vakið furðu allra landsmanna. Þá má einnig benda á það að bílverð hefur lækkað verulega á undanförnum árum þannig að kostnaður vegna tjóna, á bifreiðunum sjálfum a.m.k., hlýtur að hafa lækkað mikið.

Það er alveg rétt að meiri hluti kostnaðarins sem bifreiðatryggingafélögin verða fyrir er væntanlega vegna örorku og meiðsla á farþegum og ökumönnum og annarra sem lenda í bifreiðaslysum. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að varpa þeirri spurningu fram hvort eitthvað sé að í þessu tryggingakerfi. Hvað veldur að bifreiðatryggingar skuli vera svona dýrar? Ef hægt er að reka bifreiðatryggingar með miklu, miklu minni kostnaði í nágrannalöndum okkar hljótum við að spyrja: Hvað veldur? Erum við svona miklu lakari ökumenn en nágrannar okkar og frændur í Skandinavíu? Eru það veðurskilyrði sem gera það að verkum að við keyrum oftar á? Nú tel ég að veturnir bæði í Osló og Kaupmannahöfn séu síst hagstæðari ökumönnum en veturnir hér í Reykjavík a.m.k. Vissulega voru margir árekstrar í umferðinni í gær. Þeir voru allir smávægilegir. Ég var einn þeirra sem stóðu í ströngu við að komast frá Seltjarnarnesi í Hafnarfjörð. Það tók mig tvo klukkutíma og ég horfði upp á eina fimm eða sex árekstra á leiðinni. Þeir voru til allrar guðs lukku allir smávægilegir.

Síðan vaknar spurningin: Hvað hafa nýju umferðarlögin kostað í hækkun iðgjalda fyrir bifreiðatryggingar? Mér er tjáð að sú ábyrgð sem nú er látin vera með bifreiðatryggingunni hafi verið stóraukin og einhver fræddi mig á því að þegar var verið að reikna út hver upphæðin gæti orðið sem bifreiðatryggingin, þ.e. ábyrgðartrygging ökutækja tæki til, þá hefði verið lagt til grundvallar eitthvað í þá veru að hugsanlega gæti ökumaður orðið þess valdandi að hópferðabifreið full af amerískum auðkýfingum keyrði út af og þeir létust allir og ábyrgðartrygging bifreiðarinnar yrði síðan að greiða slysatryggingu allra þessara amerísku auðkýfinga sem hefðu misst lífið í slysinu. Ef eitthvað slíkt hefur verið lagt til grundvallar er kannski kominn tími til að endurskoða bifreiðatryggingar frá grunni og ég held jafnvel að burtséð frá þessu eigi að gera það.